Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 532/1985
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981, 14. gr. 3. mgr., 21. gr. Lög nr. 19/1964
Land — Lóðir — Ófyrnanleg fasteign — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Ákvörðun söluhagnaðar — Eignarnám — Eignarnámsbætur — Eignarnámsheimild — Eignarnám yfirvofandi — Beiting eignarnámsheimildar — Skipulag þéttbýlis — Eignarnemi, sveitarfélag — Dreifing skattskylds söluhagnaðar
Málavextir eru þeir, að í skattframtali sínu árið 1984 færði kærandi sér til tekna 139.427 kr. sem var hluti söluhagnaðar vegna yfirtöku X á landi jarðarinnar S. Í fylgiskjali með skattframtalinu var gerð grein fyrir ráðstöfunum þessum. Kom þar fram, að kærandi hefði greitt börnum sínum fyrirfram arf, sem hafi verið hluti af landi S. Um hafi verið að ræða 27 ha, sem skipst hefði milli aðila og væri kærandi nú eigandi 1/7 hluta þess lands, en verið áður eigandi að 2/3 af allri eigninni. Í júlímánuði hefði hluti landsins verið seldur X og kaupverðið byggt á samningi frá 1. júlí 1980, þar sem landeigendur hefðu skuldbundið sig til þess að selja landið á næstu 10 árum. Umsamið verð þá hefði verið kr. 20. pr. fermetra og það miðað við verð á landi, sem tekið hefði verið eignarnámi í grennd S. Þar sem augljóst væri, að S hefði verið tekið eignarnámi, ef sala hefði ekki farið fram, var farið fram á að leyfð yrði dreifing söluhagnaðar á 5 árum skv. 21. gr. laga nr. 75/1981. Söluverðið að hluta kæranda hefði verið 1.394.277 kr. Skv. 3. mgr. 14. gr. laganna væri heimilt að færa til tekna helming söluverðs eða 697.138 kr. Væri því tekjufærður 1/5 eða 139.427 kr., en skattlagningu á 4/5 eða 557.711 kr. frestað.
Með bréfi, dags. 14. janúar 1985, boðaði skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að taka skattframtal hans árið 1984 til endurálagningar, sbr. 96. gr. laga nr. 75/1981, af svohljóðandi ástæðum:
„Samkvæmt afsali dags. 17. ágúst 1983 voru seldir 102.254 fermetrar úr landi S á kr. 9.759.940. Var þessi sala í framhaldi af samkomulagi sem gert var við kaupanda í júlí 1980. Miðað við eignarhlut yðar (1/7) og að söluhagnaður fari eftir 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981 reiknast hann að yðar hlut kr. 697.138. Þennan söluhagnað ber að færa til tekna á skattframtali 1984 og er engin heimild til frestunar eða dreifingar á skattlagningu hans. Er því fyrirhugað að leiðrétta tekjufærðan söluhagnað á skattframtali 1984 í kr. 697.138.“
Svar barst frá kæranda, dags. 4. febrúar 1985. Fylgdi því ljósrit bréfs bæjarstjórans í X, dags. 1. febrúar 1985. Umboðsmaður kæranda mótmælti hinni fyrirhuguðu teknahækkun. Var vísað til þess, að við yfirtöku á S hefði verið miðað við eignarnámsverð það, sem landeigendur í B í X hefðu fengið 1978 svo sem fram kæmi í bréfi bæjarstjórans í X. Þótt eignarnám hefði ekki farið fram í raun, hefði landeigendum þó verið ljóst, að ekki þyrfti að bíða þess lengi, að landið yrði tekið eignarnámi. Eigendum hefði hins vegar ekki verið ljóst, að eignarnámið sjálft hefði breytingu á skattlagningu í för með sér og því hafi verið gerðir samningar um sambærilegt verð fyrir landið eins og matsnefnd eignarnámsbóta hafði ákvarðað m.a. í B. Var því farið fram á, að meðferð söluhagnaðar yrði hagað í samræmi við 21. gr. laga nr. 75/1981, þ.e.a.s. dreifing á 5 ár.
Ekki féllst skattstjóri á rök umboðsmanns kæranda og með bréfi, dags. 20. febrúar 1985, tilkynnti hann kæranda, að allur söluhagnaðurinn 697.138 kr. hefði verið færður til tekna í reit 76 í skattframtalinu og áður álögðum opinberum gjöldum gjaldárið 1984 breytt í samræmi við þá tekjuhækkun. Byggði skattstjóri á því, að í 21. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væru reglur um skattalega meðferð altjóns- og eignarnámsbóta og að því er tæki til eignarnáms væri fortakslaust, að átt væri við raunverulegt eignarnám samkvæmt þeim lagaákvæðum, sem um það giltu, en ekki til sölu við þær aðstæður, að sýnt þætti, að til eignarnáms kæmi, ef samningar um sölu tækjust ekki. Kært var til skattstjóra með kæru, dags. 19. mars 1985. Kærunni var hafnað af skattstjóra með úrskurði, dags. 29. mars 1985.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. apríl 1985. Rökstuðningur er dags. 9. maí 1985. Er þess krafist, að breytingu skattstjóra verði hrundið og heimiluð verði skattlagning eins og um eignarnám hefði verið að ræða, sbr. 21. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er greint frá því, að á árunum fyrir 1980 hafi veri byrjað að skipuleggja byggð X í svonefndum B og í landi A og S. Sveitarstjórnir hafi eignarnámsheimildir samkvæmt VII. kafla laga nr. 19/1964, skipulagslaga, ef nauðsynlegt reynist vegna þróunar hlutaðeigandi sveitarfélags. Þá er lýst með hvaða hætti samningar hafi tekist við X um sölu á landi S, þ.e.a.s. á sama verði og með sömu kjörum og varð á þeim löndum, sem tekin höfðu verið eignarnámi. Eigendur S hefði ekki grunað, að það breytti nokkru um skattlagningaraðferð, hvort salan færi fram á þennan hátt eða ákvörðun tekin um eignarnám, sem tvímælalaust hefði farið fram, hefðu samningar ekki tekist. Með bréfi, dags. 5. september 1985, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Enginn ágreiningur er um fjárhæð söluhagnaðar í máli þessu. Deiluefnið er eingöngu það, hvort kæranda sé heimilt að nýta sér ákvæði 21. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þegar litið er til þess hvaða atvik lágu til þess að kærandi lét af hendi umrætt land til X og hvernig samningskjör voru ákveðin svo sem þessu er lýst í gögnum málsins þ.á m. bréfi bæjarstjórans í X, dags. 1. febrúar 1985, þykir mega jafna þessum aðilaskiptum að því er tekur til skattlagningar söluhagnaðar til þeirra atvika, sem um getur í 21. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er krafa kæranda því tekin til greina.