Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 561/1985

Gjaldár 1983 og 1984

Lög nr. 75/1981, 7. gr. B-liður, 31. gr. 1. tl., 53. gr.  

Skattskyldar tekjur — Atvinnurekstur — Lögmaður — Bankainnstæða — Vaxtatekjur — Verðbreytingarfærsla — Framtalsháttur vaxtatekna — Eignfærsla — Kröfugerð — Stofn til verðbreytingarfærslu — Bifreiðakostnaður — Eigin notkun — Ritvilla í kæruúrskurði

Kærandi er starfandi lögmaður og skattframtölum hans árin 1983 og 1984 fylgdu ársreikningar vegna þessarar starfsemi. Á rekstrarreikningum var m.a. gjaldfærður bifreiðakostnaður vegna atvinnu og ferðakostnaður 102.328 kr. á rekstrarreikningi fyrir árið 1982 og 112.891 kr. á rekstrarreikningi árið 1983.

Með bréfi, dags. 8. mars 1985, krafði skattstjóri kæranda um útfyllt rekstraryfirlit fólksbifreiðar eins og form þess segði til um, um sundurliðun ferðakostnaðar og tilefni hans, sundurliðun rekstrarkostnaðar húsnæðis og um vaxtatekjur af bankainnstæðum samkvæmt efnahagsreikningum með skattframtölum árin 1983 og 1984. Gefinn var 10 daga svarfrestur. Svar barst ekki og með bréfi, dags. 22. apríl 1985, boðaði skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að endurákvarða opinber gjöld kæranda gjaldárin 1983 og 1984 með hliðsjón af því að umbeðin gögn og skýringar hafi ekki fengist. Gefinn var 12 daga frestur til athugasemda. Svör bárust ekki og með bréfi, dags. 6. júní 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að skattframtöl hans árin 1983 og 1984 hefðu verið tekin til endurálagningar og tekjur hækkaðar um 100.000 kr. á skattframtali árið 1983 og 160.000 kr. á skattframtali árið 1984 og 25% álagi bætt við fjárhæðir þessar, þar sem ekki hefðu verið gefnar þær upplýsingar, sem um hefði verið beðið í bréfum skattstjóra, dags. 8. mars 1985 og 22. apríl 1985. Með skattbreytingaseðlum, dags. sama dag, var kæranda tilkynnt um þær breytingar á áður álögðum opinberum gjöldum gjaldárin 1983 og 1984, sem af nefndri tekjuhækkun leiddu.

Af hálfu kæranda voru breytingarnar kærðar í bréfum, dags. 2. júlí 1985. Gerð var sundurliðuð grein fyrir heildarbifreiðakostnaði vegna fjögurra bifreiða á árinu 1982 samtals 188.935 kr. og þriggja bifreiða á árinu 1983 198.507 kr. Þá var gerð grein fyrir einkanotum, sem námu um 53% af heildarbifreiðakostnaði árið 1982 og 52% af heildarbifreiðakostnaði árið 1983. Tekið var fram, að bifreiðarnar hefðu verið notaðar til allra ferða vegna réttarhalda víðsvegar um landið og að ekki hefði verið um neinn aðkeyptan akstur að ræða. Þá var gerð grein fyrir ferðakostnaði smávægilegum og reksturskostnaði húsnæðis. Einnig voru gefnar upp vaxtatekjur af bankainnstæðum 40.800 kr. á árinu 1982 og 56.634 kr. á árinu 1983. Með skírskotun til framlagðra upplýsinga krafðist kærandi niðurfellingar á tekjuviðbótum skattstjóra.

Skattstjóri tók kærurnar til úrlausnar með úrskurði, dags. 18. júlí 1985. Ákvað hann frádráttarbæran bifreiðakostnað 60.000 kr. árið 1982 og 75.000 kr. árið 1983. Fyrir þessu færði skattstjóri svofelld rök:

„Varðandi bifreiðakostnað vantar að tilgreina heildarakstur í kílómetrum, gera skilmerkilega grein fyrir notkun bifreiða í þágu reksturs og rökstyðja grundvöll skiptingar milli einkaaksturs og aksturs í þágu starfs. Engin skýring er gefin á hækkun þessara útgjalda milli rekstraráranna 1981 og 1982 sem er um 250%. Þá er fyrning ranglega gjaldfærð en kæranda er einungis heimilt að gjaldfæra svonefnda fastafyrningu einnar bifreiðar sem er samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra 15.109 kr. fyrir rekstrarárið 1982 og 28.630 kr. fyrir rekstrarárið 1983.“ Með vísan til þessa væru ekki forsendur til þess að heimila þennan útgjaldalið óbreyttan. Þá tekjufærði skattstjóri fyrrnefndar vaxtatekjur að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.

Með kæru, dags. 15. ágúst 1985, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og er þess krafist, að hækkanir skattstjóra verði felldar úr gildi. Í kærunni segir svo:

„1. Skattstjóri lækkaði bifreiðakostnað í kr. 60.000 vegna ársins 1983 og í kr. 75.000 vegna ársins 1984. Þessu er alfarið mótmælt. Skýringin á því, hvers vegna bifreiðakostnaður hækkaði svo mikið á árinu 1982 eins og raun ber vitni er sú, að bensínkostnaður hækkaði mjög mikið milli ára, en auk þess var sama sem enginn viðgerðarkostnaður á árinu 1981. Þá voru bifreiðatryggingar fyrir árið 1982 mjög miklar sökum sjálfsábyrgðar og húftrygginga, en á árinu 1981 var ekki um slíkt að ræða. Þá skal á það bent, að bifreiðakostnaður vegna ársins 1980 var hærri en árið 1981, þrátt fyrir mikla verðbólgu á þeim tíma. Að lokum skal vakin athygli á því, að bifreiðakostnaður árin 1982 og 1983 er því sem næst sá sami, þrátt fyrir hækkun verðbreytingarstuðuls um 71,67% frá árinu 1982.

2. Að því er varðar vexti af bankareikningum skal á það bent, að viðkomandi vextir tilheyra skjólstæðingum mínum og því eigi vaxtatekjur til mín vegna rekstursins.

Að lokum verð ég sérstaklega að mótmæla hækkun álagðra gjalda vegna framtalsársins 1984 með tilliti til þess, að skattstjóri hefur úrskurðað að tekjuskattsstofn verði kr. 431.676.00 og útsvars — og sjúkratryggingargjaldstofn verði kr. 461.676.00. Hins vegar er álagningin í engu samræmi við þessa álagningarstofna.“

Með bréfi, dags. 18. október 1985, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Í úrskurði skattstjóra er um augsýnilega ritvillu að ræða varðandi tekjuskatts-, útsvars- og sjúkratryggingagjaldsstofn 1984, þar eð þeir eru tilgreindir hinir sömu og umræddir gjaldstofnar 1983. Hins vegar eru álögð gjöld réttilega tilgreind í hinum kærða úrskurði.“

Þegar litið er til þess bifreiðakostnaðar, sem skattstjóri hefur heimilað kæranda til frádráttar á rekstrarreikningi fyrir árin 1982 og 1983 kemur í ljós, að hann nemur um 32% af heildarbifreiðakostnaði fyrra árið og um 38% síðara árið. M þykir rétt, að fram komi, að eiginkona kæranda hefur fært til frádráttar í reit 32 í skattframtölunum bifreiðakostnað á móti fengnum ökutækjastyrk frá vinnuveitanda. Verður eigi annað séð en um sé að ræða kostnað vegna þeirra bifreiða, sem í málinu greinir. Að þessu athuguðu og virtum málsatvikum að öðru leyti m.a. því að eigi er fram komin af hálfu kæranda sú skipting á notkun bifreiðanna milli atvinnu og einkaþarfa, sem krafist var af hálfu skattstjóra með bréfi, dags. 8. mars 1985, þykja eigi efni til þess að hagga mati skattstjóra á fjárhæðum frádráttarbærs bifreiðakostnaðar. Umræddar vaxtatekjur eru af innstæðum í innlánsstofnunum, sem kærandi hefur eignfært í efnahagsreikningum umrædd ár. Telur hann og innstæður þessar til eignar við útreikning verðbreytingarfærslna samkvæmt 53. gr. laga nr. 75/1981. Fær kröfugerð hans eigi staðist. Með vísan til alls framanritaðs er kröfum kæranda í máli þessu hafnað og álögð opinber gjöld standi óbreytt, enda þykir sú ritvilla í tilgreiningu skattstofna gjaldárið 1984, sem í málinu greinir, eigi geta leitt til ómerkingar á breytingu skattstjóra það gjaldár, en gjaldafjárhæðir voru rétt greindar í hinum kærða úrskurði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja