Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 695/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 53. gr.   Lög nr. 46/1937  

Stofnsjóðsinneign í samvinnufélagi — Samvinnufélag — Landbúnaður — Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Leiðbeiningar ríkisskattstjóra — Lögskýring — Verðbreytingarskýrsla — Dómsúrlausn

I.

Málavextir eru þeir, að kærendur, A og B sem stunda búrekstur, létu fylgja skattframtali sínu árið 1985 landbúnaðarskýrslu vegna þessa rekstrar árið 1984. M.a. var þar færð gjaldfærsla samkvæmt verðbreytingarskýrslu að fjárhæð 45.753 kr. Við ákvörðun stofns til verðbreytingarfærslu var færð meðal veltufjármuna stofnsjóðseign í samvinnufélögum að fjárhæð 7.355 kr.

Með bréfi, dags. 8. maí 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að hann hefði í hyggju að lækka tilfærða gjaldfærslu um 1.967 kr. úr 45.753 kr. í 43.786 kr. á þeim forsendum, að tilfærða stofnsjóðsinnstæðu í samvinnufélögum 7.355 kr. bæri ekki að telja til eignar við ákvörðun stofns til verðbreytingarfærslu. Vísaði skattstjóri til dóms Bæjarþings ísafjarðar frá 27. febrúar 1985 þessari breytingu til stuðnings. Gefinn var 15 daga svarfrestur frá dagsetningu bréfsins. Svarbréf kæranda er dagsett 22. maí 1985, en samkvæmt móttökustimpli hefur skattstjóri fengið það í hendur 28. maí 1985. Mótmælti kærandi breytingunni með því að færslan væri samkvæmt formi landbúnaðarskýrslu og eftir leiðbeiningum ríkisskattstjóra um gerð slíkra skýrslna. M minnti kærandi á, að nefndum bæjarþingsdómi hefði verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Áður en skattstjóra barst bréf þetta, hafði hann með bréfi, dags. 24. maí 1985, tilkynnt um, að hin boðaða breyting hefði verið gerð og framkvæmd á þann veg,^ð hreinar tekjur kæranda, A, af búrekstri hefðu verið hækkaðar úr 36.661 kr. í 37.974 kr. og hreinar tekjur B af búrekstri hækkaðar úr 18.330 kr. í 18.986 kr. Af hálfu kærenda var þessu mótmælt með bréfi, dags. 7. júní 1985, og enn vísað til leiðbeininga ríkisskattstjóra við útfyllingu landbúnaðarskýrslu, útgefinna 24. janúar 1984, þar sem segði, að stofnsjóðseignir í samvinnufélögum, sem væru í beinum tengslum við búreksturinn, bæri að færa í lið 1.7. Hér væri um breytingu að ræða frá uppgjöri s.l. árs og skyldi færa fjárhæð stofnsjóðseignar í samvinnufélögum úr lið 2.7. í skýrslu s.l. árs í lið 1.6. gleggra gæti þetta ekki verið. Varðandi dóm bæjarþings Ísafjarðar frá 27. febrúar 1985 gátu kærendur þess, að í því máli hefði verið um að ræða skattframtal árið 1980 og því eldra en fyrrnefndar breytingar á færslu landbúnaðarskýrslu.

Skattstjóri tók bréf kærenda, dags. 22. maí og 7. júní 1985, sem kæru og kvað upp kæruúrskurð þann 26. september 1985. Féllst hann ekki á, að stofnsjóðseign í samvinnufélögum teldist til eigna við útreikning verðbreytingarfærslu samkvæmt 53. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og hafnaði kröfu kærenda.

II.

Með kæru, ódagsettri, en móttekinni hinn 14. október 1985, hafa kærendur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og er þess krafist, að breytingu skattstjóra verði hnekkt.

III.

Með bréfi, dags. 25. nóvember 1985, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Eigi liggur annað fyrir, en umrædd stofnsjóðsinneign sé að öllu leyti sprottin af búrekstri kærenda og er enginn ágreiningur um þetta atriði í málinu. Hins vegar er um það deilt, hvort stofnsjóðseign kærenda í samvinnufélagi, sbr. ákvæði laga nr. 46/1937, um samvinnufélög, skuli teljast til eignar við útreikning verðbreytingarfærslu samkvæmt 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Líta kærendur svo á og vísa m.a. til þess, að þeir hafi farið í þessum efnum eftir leiðbeiningum ríkisskattstjóra og í samræmi við það, sem þar til gerð eyðublöð gerðu ráð fyrir. Þegar litið er til þess, hvers eðlis stofnsjóðseign þessi er, og með skírskotun til 3. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir bera að taka kröfu kærenda til greina, enda verður eigi séð, að tilnefndur dómur bæjarþings ísafjarðar frá27. febrúar 1985, geti gefið tilefni til þeirra ályktana, sem skattstjóri hefur uppi í málinu. Eigi verður séð, að kærendur hafi tekjufært vexti 1.378 kr. af stofnsjóðseign, sbr. lið 1.7. í eignahlið landbúnaðarskýrslu, meðfylgjandi skattframtali þeirra árið 1985. Þykir því bera að færa þeim fjárhæð þessa til tekna í skýrslunni.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja