Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 700/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 51. gr.  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Afföll — Vaxtagjöld — Verðbréf— Sönnun — Sönnunarbyrði — Verðbréfamiðlun — Verðbréfasala

Málavextir eru þeir að kærandi taldi fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu gjalda árið 1984. Meðal þess er kærandi tilfærði til frádráttar tekjum á framtalinu voru afföll að fjárhæð 21.250 kr. sem hann færði í reit merktan þar nr. 60. Afföll þessi voru af seldum verðbréfum á árinu 1982, og færði kærandi sömu fjárhæð affalla til frádráttar með sama hætti í skattframtali sínu árið 1983. Sætti sú færsla eigi athugasemd af hálfu skattstjóra og var tekið tillit til hennar við álagningu gjalda 1983. Er til álagningar gjalda 1984 kom var hins vegar eigi tekið tillit til þeirra affalla er tilfærð höfðu verið til frádráttar í framtali 1984. Eigi var kæranda gerð sérstök grein fyrir því. Álagninguna kærði kærandi til skattstjóra með kæru dags. 21. ágúst 1984 og krafðist þess að tekið yrði tillit til nefndra affalla við ákvörðun tekjuskatts 1984. Gerði hann í því sambandi grein fyrir myndun affallanna. Áður en skattstjóri kvað upp kæruúrskurð í málinu reit hann kæranda bréf dags. 3. október 1984 og fór fram á upplýsingar og gögn um skuldabréf þau er seld höfðu verið á árinu 1982. Óskað var m.a. upplýsinga um það hvernig það atvikaðist að bréfin komust í eign kæranda og hver sé útgefandi þeirra svo og að gögn yrðu lögð fram til staðfestingar framkomnum upplýsingum. Gefin var 10 daga svarfrestur.

Þann 29. nóvember 1984 felldi skattstjóri úrskurð um kæru kæranda frá 21. ágúst 1984. Hafði skattstjóra þá ekki borist svar frá kæranda við bréfinu frá 3. október 1984. Synjaði skattstjóri kröfu kæranda þar sem hann hefði ekki sýnt fram á að umrædd afföll uppfylli skilyrði 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 13. desember 1984. Er gerð sama krafa og áður um frádráttarbærni margumræddra affalla. Með kærunni fylgja sölukvittanir skuldabréfanna sem út voru gefin af kæranda og seld með aðstoð verðbréfasölu. Á þeim er getið móttakanda greiðslu og er það ekki kærandi. Þá getur kærandi þess að söluandvirðinu hafi verið varið til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin afnota.

Með bréfi dags. 9. október 1985 gerir ríkisskattstjóri þær kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að „álögð gjöld verði látin standa óbreytt þar sem eigi verður séð að lög heimili hinn umkrafða frádrátt“.

Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir frádráttarbærum afföllum eftir þeim lagaákvæðum sem hann ber fyrir sig. Er kröfum hans því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja