Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 703/1985

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. D-liður 2. tl., 31. gr. 1. tl., 95. gr., 96. gr.   Lög nr. 61/1942, 7. gr.  

Lögmaður — Félagsgjald — Stéttarfélagsgjald — Sjálfstæð starfsemi — Félag sjálfstætt starfandi manna — Skylduaðild að félagi — Rekstrarkostnaður — Frádráttarbærni — Námsferð — Ferðakostnaður — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan — Sératkvæði

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem er starfandi lögmaður, gjaldfærði í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1984 m.a. félagsgjald til Lögmannafélags Íslands 5.500 kr. og kostnað vegna námsferðar 46.356 kr. Með bréfi, dags. 19. júlí 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að þessir gjaldaliðir hefðu verið felldir niður af rekstrarreikningi, þar sem þeir teldust ekki vera til öflunar tekna í atvinnurekstri samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og því ófrádráttarbærir. Væri félagsgjaldið fært til frádráttar í reit 56 í skattframtalinu. Hækkaði skattstjóri hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtalinu, sem nam niðurfellingu umræddra liða. Var lagt á kæranda við frumálagningu samkvæmt framtalinu með þessum breytingum.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessum breytingum mótmælt í kæru, dags. 19. ágúst 1985, og því haldið fram, að fyrrgreindir útgjaldaliðir væru beinlínis tengdir öflun tekna kæranda og þar af leiðandi frádráttarbærir frá tekjum samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með úrskurði, dags. 13. september 1985, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, enda þætti hann ekki hafa sýnt fram á, að útgjaldaliðir þessir gætu talist frádráttarbær rekstrarkostnaður.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 3. október 1985, og ítrekaðar framkomnar kröfur um, að gjaldaliðir þessir verði látnir óhreyfðir standa. Í kærunni segir svo:

„Málavextir eru þeir að í rekstrarreikningi 1984 var gjaldfærður kostnaðarliðurinn: Námsferð kr. 46.356. Með bréfi 19.07.1985 tilkynnti skattstjórinn að nefndur kostnaðarliður hefði verið strikaður út af rekstrarreikningi ásamt tilgreindu félagsgjaldi kr. 5.500 á þeim forsendum að þessir gjaldaliðir teljist eigi vera til öflunar tekna í atvinnurekstri. Með þessum útstrikunum var tekjuskattsstofn hækkaður um kr. 51.856 og álagning 1985 framkvæmd að gerðum þessum breytingum án þess að umbjóðandi minn væri krafinn frekari skýringa á þessum frádráttarliðum, sbr. 96. gr. skattalaga. Að því er varðar gjaldaliðinn námsferð þá var hér um að ræða kostnað við vikulanga kynningaferð til Englands á vegum Lögmannafélags Íslands. Tilgangur þessarar ferðar var að kynna þátttakendum störf og starfshætti lögmannsskrifstofa í Englandi, skipulagningu á lögmannsskrifstofum og tölvuvæðingu. Ennfremur kynning á dómstólum og dómstólakerfi. Markmiðið með slíkri ferð er að kynna þátttakendum vinnubrögð og ýmsa skipulagsþætti er koma að notum við samsvarandi störf þeirra í eigin atvinnurekstri.

Sérfræðiþjónusta hvers konar krefst þess að viðkomandi sérfræðingur viðhaldi þekkingu sinni og fylgist með í sínu fagi, kynni sér nýjungar og bæti við þekkingu sína. Slík þekkingaröflun getur farið fram bæði hérlendis og erlendis. Ef dregin er sú ályktun að niðurstaða af slíkri þekkingaröflun í náms- og kynningarferðum sé sú að viðkomandi fagmaður sé hæfari til að sinna sínu verkefni, og slíkur hlýtur að vera tilgangur námsferða, þá endurspeglast árangur námsferða í frekari hæfni til að tryggja og viðhalda tekjur af fagmannsstarfinu.

Af útstrikun skattstofunnar má ráða, að almennt séu námsferðir ekki frádráttarbærar sem rekstrarkostnaður og í því sambandi vísað til 31. gr. laga nr. 75/1981. En í þeirri grein segir svo, að „frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri má draga:

Rekstrarkostnað, það er þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við,“ o.s.frv.

Hér er um almenna skilgreiningu að ræða enda er í umræddri lagagrein ekki getið sérstaklega um, að námsferðir séu ekki rekstrarkostnaður. Með tilvísan til skýringa hér á undan, þá er krafan með þessu kærubréfi sú, að námsferð umbjóðanda míns teljist rekstrarkostnaður þar sem árangur ferðarinnar skili sér í aukinni hæfni til að tryggja og viðhalda tekjum.

Tilgreint félagsgjald, kr. 5.500, er gjald til Lögmannafélags Íslands. Umbjóðandi minn rekur lögfræðiskrifstofu og tekur m.a. að sér málflutning fyrir dómstólum. Í samræmi við 7. gr. laga nr. 61/1942 hafa héraðsdóms- og hæstaréttarlögmenn með sér félagsskap, Lögmannafélag Íslands, og til að reka slíka starfsemi sem umbjóðandi minn gerir, þá ber honum skylda til skv. landslögum að vera félagi. Aðild hans að félaginu er því lagaleg skylda og án félagsaðildar gæti hann ekki stundað atvinnurekstur sinn. Í þessu ljósi er félagsgjaldið rekstrarkostnaður sem gengur til að afla tekna. Hér er því gerð sú krafa, að félagsgjald kr. 5.500 verði leyft til frádráttar sem gjaldaliður á rekstrarreikningi.“

Með bréfi, dags. 4. nóvember 1985, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Ríkisskattstjóri fellst á að félagsgjöld í Lögmannafélagi Íslands séu frádráttarbær rekstrarkostnaður skv. 31. gr. laga nr. 75/1981. Að öðru leyti er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra þar sem ekki er fyrir hendi ótvíræð lagaheimild til að telja námsferð frádráttarbær rekstrarútgjöld skv. 31. gr. laga nr. 75/1981.“

Atkvæði meirihluta:

Svo sem fram kemur í kærunni til ríkisskattanefndar er kæranda skylt að vera í nefndu félagi vegna starfsemi sinnar sbr. 7. gr. laga nr. 61/1942, um málflytjendur. Þegar af þeirri ástæðu þykir bera að taka kröfu hans um frádrátt umræddra félagsgjalda til greina.

Skattstjóri fór með gjaldfærðan kostnað vegna námsferðar eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en eigi eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga. Þessi málsmeðferð fær eigi staðist og er breytingunni því hnekkt. Af þeim ástæðum er fallist á kröfu kæranda um þetta kæruatriði. Atkvæði minnihluta:

Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á að hin umræddu félagsgjöld séu frádráttarbær í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt sem rekstrarkostnaður. Er hinn kærði úrskurður skattstjóra því staðfestur að því er þetta kæruatriði varðar. Að öðru leyti fellst ég á atkvæði meirihluta.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja