Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 731/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 100. gr. 1. mgr.  

Kærufrestur — Síðbúin kæra — Póstlagningardagur kæru — Móttökudagur kæru — Póstlagningardagur kæruúrskurðar — Sönnun — Sönnunargögn — Póstþjónusta — Frávísun

Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 var skattframtal kæranda lagt til grundvallar. Með bréfi, dags. 15. ágúst 1984, fór kærandi fram á, að leiðrétting yrði gerð á skattframtalinu, í stuttu máli á þann veg, að allar tekjur hans vegna tónlistarstarfsemi og hljóðfæraleiks yrðu taldar tekjur af sjálfstæðri starfsemi, en í skattframtalinu hafði hann fært þær sem launatekjur. Gerði kærandi í bréfi þessu grein fyrir kostnaði á móti tekjunum og lét fylgja því rekstraryfirlit vegna þessarar starfsemi. Hreinar tekjur samkvæmt yfirliti þessu skyldu færast sem reiknuð laun í reit 24 í skattframtalinu eða 100.368 kr. Tekjumegin í yfirliti þessu voru greiðslur frá þremur aðilum samtals að fjárhæð 211.198 kr., sem kærandi hafði áður fært í T1 í skattframtalinu.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með úrskurði, dags. 3. apríl 1985. Féllst hann ekki á meðferð kæranda á tekjum að fjárhæð 167.598 kr. frá Veitingahúsinu X hf. og 36.387 kr. frá Ríkisútvarpinu, enda væri hér um vinnulaun að tefla samkvæmt launauppgjöf launagreiðenda. Hins vegar taldi skattstjóri kröfu kæranda á rökum reista varðandi tekjur af auglýsingagerð að fjárhæð 7.213 kr. og leyfði til frádráttar þeim tekjum kostnað að fjárhæð 2.000 kr., en gjaldahlið nefnds rekstraryfirlits nam 110.830 kr.

Með kæru, dags. 10. maí 1985, hefur kærandi skotið áðurnefndum úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst þess, að leiðrétting sú, sem hann fór fram á í kærunni til skattstjóra, verði tekin til greina. Leggur hann fram ýmis gögn máli sínu til stuðnings m.a. staðfestingu Veitingahússins X hf., dags. 7. maí 1985, varðandi eðli tekna hans frá því fyrirtæki.

Með bréfi, dags. 16. desember 1985, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu: „Gerð er krafa um frávísun kærunnar frá ríkisskattanefnd.

Skv. meðfylgjandi gögnum sem ríkisskattstjóri hefur aflað var úrskurður skattstjóra póstlagður 3. apríl 1985. Hinn 16. apríl var enginn úrskurður póstlagður til kæranda. Með vísan til ofanritaðs er kæran sem móttekin er hjá ríkisskattanefnd 14. maí 1985 of seint fram komin.

Ítrekuð er því krafa um frávísun.“

Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal kærufrestur skattaðila til ríkisskattanefndar vera 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra. Kærandi telur, að hinn kærði úrskurður skattstjóra, sem dagsettur er 3. apríl 1985, hafi eigi verið póstlagður, fyrr en 16. apríl 1985. Ríkisskattstjóri hefur með kröfugerð sinni lagt fram gögn um bréfamóttöku frá póstþjónustu, sem hann telur sanna, að úrskurðurinn hafi verið póstlagður þegar þann 3. apríl 1985. Með skírskotun til þeirra gagna verður að fallast á frávísunarkröfu ríkisskattstjóra í máli þessu. Tekið skal fram, til upplýsinga, að ríkisskattanefnd hefur eigi hliðstæða heimild og ríkisskattstjóra er veitt með ákvæðum 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981 til breytinga á áður álögðum opinberum gjöldum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja