Úrskurður yfirskattanefndar
- Erfðafjárskattur
- Kostnaður vegna skipta dánarbús
Úrskurður nr. 144/2016
Lög nr. 14/2004, 4. gr. 1. mgr., 5. gr.
Talið var að kostnaður kærenda, sem voru lögerfingjar G, af rekstri dómsmála er lutu að skiptum á dánarbúi G og rétti til arfs eftir hann, gæti ekki talist til skulda arfleifanda í skilningi laga um erfðafjárskatt. Var kröfu kærenda um að slík útgjöld kæmu til frádráttar erfðafjárskatti hafnað.
Ár 2016, miðvikudaginn 6. júlí, er tekið fyrir mál nr. 80/2016; kæra A, B og C, dags. 29. mars 2016, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 29. mars 2016, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts vegna arfs úr dánarbúi G, sem lést 16. desember 2013, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 30. nóvember 2015. Í kærunni kemur fram að kæruefni málsins lúti að þeirri ákvörðun sýslumanns, sbr. tilkynningu hans um ákvörðun erfðafjárskatts, dags. 29. febrúar 2016, að hafna því að telja til frádráttarbærrar skuldar við ákvörðun erfðafjárskatts kærenda kostnað að fjárhæð 6.630.734 kr. vegna málaferla er lutu að skiptum á dánarbúi G og rétti til arfs eftir hann, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands ... og úrskurð héraðsdóms ... Var ákvörðun sýslumanns byggð á því að óheimilt væri að telja kostnað erfingja af dómsmálum þessum til skuldar í erfðafjárskýrslu þar sem ekki væri um að ræða skuldir arfleifanda í skilningi 5. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, heldur kostnað sem fallið hefði til eftir andlát arfleifanda og sem ekki hefði verið stofnað til af honum.
Í kæru kærenda til yfirskattanefndar kemur fram að við skipti á dánarbúi G hafi aðrir en lögmætir erfingjar gert arfstilkall í dánarbúið. Kærendur hafi haft mikinn kostnað af þeim málarekstri, annars vegar lögmannskostnað og hins vegar kostnað vegna starfa skiptastjóra vegna opinberra skipta. Hafi niðurstaða um að kærendur væru lögmætir erfingjar G ekki fengist fyrr en að gengnum dómum, sbr. úrskurð héraðsdóms ..., sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar ..., og úrskurð héraðsdóms ... Kærendur hafi verið varnarmegin í báðum dómsmálunum og ekki gefið neitt tilefni til þessa málarekstrar, hvorki með aðgerðum né aðgerðarleysi. Ljóst sé að málaferlin hafi rýrt eignir dánarbúsins sem nemi kostnaði sem hlotist hafi af þeim og opinberum skiptum dánarbúsins og beint orsakasamband sé því þar á milli. Þar sem kærendum hafi verið skylt að lögum að ljá atbeina sinn að skiptum dánarbúsins hafi þau ekki átt annan kost en að taka til varna. Til stuðnings kröfu kærenda sé vísað til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004. Er bent á að þótt sá kostnaður sem dánarbú G hafi orðið fyrir sé ekki sama eðlis og kostnaður sem tilgreindur sé í 5. gr. laga nr. 14/2004 sé gert ráð fyrir því í lögunum að við sérstakar aðstæður sé óhjákvæmilegur en óumbeðinn kostnaður til að ljúka skiptum talinn til skuldar í þessu sambandi.
II.
Með bréfi, dags. 5. apríl 2016, hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagt fram umsögn um kæruna. Kemur fram að sýslumaður hafi ekki frekari athugasemdir vegna málsins og vísi til sjónarmiða í hinni kærðu ákvörðun.
III.
Kæra í máli þessu varðar ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, vegna arfs úr dánarbúi G, sem lést í desember 2013, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 30. nóvember 2015, og tilkynningu sýslumanns, dags. 29. febrúar 2016, um álagningu erfðafjárskatts. Fram kemur í tilkynningu sýslumanns að ágreiningur hafi risið með kærendum og sýslumanni um skattstofn erfðafjárskatts þar sem sýslumaður hafnaði því að telja kostnað að fjárhæð 6.630.734 kr. vegna dómsmála, er lutu að skiptum á dánarbúi G og rétti til arfs eftir hann, til frádráttarbærrar skuldar við ákvörðun erfðafjárskatts kærenda, sbr. 5. gr. laga nr. 14/2004. Í kæru til yfirskattanefndar er því haldið fram að umræddur kostnaður sé frádráttarbær samkvæmt greindu ákvæði, enda sé um að ræða óhjákvæmilegan kostnað vegna skipta á dánarbúinu sem rýrt hafi eignir búsins, svo sem nánar er rökstutt.
Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins var kærendum, sem eru lögerfingjar G, veitt leyfi til einkaskipta á dánarbúi hans í ársbyrjun 2014. Í kjölfar þess lögðu átta aðrir einstaklingar, sem gerðu tilkall til arfs eftir G á grundvelli sameiginlegrar erfðaskrár hans og eiginkonu hans frá 28. júní 1991, fram kröfu hjá héraðsdómi um að dánarbúið yrði tekið til opinberra skipta á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Var fallist á þá kröfu með úrskurði héraðsdóms ... 2014 og var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands ... 2014. Féll þá heimild kærenda til einkaskipta á dánarbúinu niður og var búið tekið til opinberra skipta, sbr. lög nr. 20/1991. Af hálfu skiptastjóra dánarbúsins var ágreiningi um arfstilkall eftir G vísað til héraðsdóms á grundvelli 122. gr. laga nr. 20/1991. Með úrskurði héraðsdóms ... 2015 var kröfum sóknaraðila hafnað. Var komist að þeirri niðurstöðu í úrskurðinum að sóknaraðilar ættu ekki tilkall til arfs eftir G á grundvelli erfðaskrárinnar. Í kjölfarið mun kærendum hafa verið veitt leyfi til einkaskipta á dánarbúinu að nýju. Fyrir liggur að sá kostnaður, sem um er deilt, er vegna lögmannsþjónustu í tengslum við rekstur fyrrnefndra ágreiningsmála fyrir dómi. Er annars vegar um að ræða kostnað samkvæmt reikningum frá ... lögmönnum og hins vegar kostnað samkvæmt reikningi frá lögmannsstofu.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, er skattstofn erfðafjárskatts heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði samkvæmt 5. gr. laganna. Í 5. gr. laga nr. 14/2004 segir að skuldir arfleifanda, þ.m.t. væntanleg opinber gjöld, skuli koma til frádráttar áður en erfðafjárskattur er reiknaður, svo og útfararkostnaður arfleifanda. Kostnaður sem falli á búið vegna ráðstafana samkvæmt 17.-21. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., skuli einnig koma til frádráttar hvort heldur bú sæti opinberum skiptum eða einkaskiptum. Þessir liðir skuli sundurliðaðir á erfðafjárskýrslu og studdir gögnum.
Fallast verður á með sýslumanni að kostnaður vegna skipta dánarbús látins manns geti ekki talist til skulda arfleifanda í skilningi 5. gr. laga nr. 14/2004, enda er um að ræða kostnað sem fellur til eftir andlát arfleifanda og tilheyrir dánarbúinu sjálfu. Verður því að telja að frádráttarbærni slíks kostnaðar frá erfðafjárskatti krefjist sérstakrar lagaheimildar, eins og við á um kostnað vegna ráðstafana samkvæmt 17.-21. gr. laga nr. 20/1991, þ.e. skrásetningar og mats á eignum og skuldbindingum dánarbús, sem sérstaklega er talinn í 5. gr. laga nr. 14/2004. Getur ekki skipt máli í því sambandi þótt um sé að ræða kostnað vegna ráðstafana sem teljast nauðsynlegur liður í skiptum dánarbús, eins og við á í tilviki kærenda. Hefur og verið talið í skatt- og úrskurðaframkvæmd að kostnaður af greindum toga geti eftir atvikum verið frádráttarbær frá tekjum dánarbús, sbr. til hliðsjónar úrskurði yfirskattanefndar nr. 50 og 51/2006.
Með vísan til þess, sem að framan greinir, og þar sem sá kostnaður sem um ræðir er ekki vegna ráðstafana samkvæmt 17.-21. gr. laga nr. 20/1991, verður að hafna kröfu kærenda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kærenda er hafnað.