Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 10/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 7. gr., 101. gr. 1. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Mælingargjöld — Ákvæðisvinna — Trésmiður — Starfsreglur ríkisskattstjóra — Uppmælingargjöld

Málavextir eru þeir, að í athugasemdadálki skattframtals síns 1983 vakti kærandi athygli á því, að í launum hans frá E. h.f., væru innifalin mælingargjöld að fjárhæð 3.964 kr., sem væru beinn kostnaður fyrir hann og fór hann þess því á leit, að gjöld þessi yrðu dregin frá tekjum við skattálagningu. Ekki tók skattstjóri tillit til þessarar athugasemdar við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1983. Í kæru, dags. 29. júlí 1983, ítrekaði kærandi kröfu sína. Gat hann þess, að mælingargjöld þessi kæmu aldrei í hans hendur, heldur greiddi meistarinn þau við móttöku mælingarútkomu frá mælingarstofunni. Þessi gjöld væru líkt og verkfærakostnaður óhjákvæmileg vegna atvinnunnar.

Með úrskurði, dags. 25. október 1983, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, þar sem staðfesting vinnuveitanda um að mælingargjald væri innifalið í heildarlaunum lægi ekki fyrir.

Með kæru, dags. 18. nóvember 1983, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er þess krafist, að fyrrnefnd mælingargjöld verði felld út úr heildarlaunum. Lögð er fram staðfesting vinnuveitanda, dags. 2. nóvember 1983, þar sem vottað er, að umkrafin frádráttarfjárhæð vegna mælingargjalda hafi verið innheimt af launum kæranda árið 1982 til greiðslu á mælingargjöldum til mælingarstofu trésmiða í Reykjavík og Hafnarfirði.

Með bréfi, dags. 5. janúar 1984, fellst ríkisskattstjóri á það, að umrætt mælingargjald verði ekki talið til gjaldstofna kæranda. Ríkisskattstjóri vísar til bréfs síns, dags. 9. júní 1983, til allra skattstjóra varðandi úrlausnarefnið í máli þessu.

Með vísan til framlagðrar staðfestingar fyrirtækis þess, sem kærandi starfar hjá, svo og kröfugerðar ríkisskattstjóra, sbr. og bréf þess embættis, dags. 9. júní 1983, til allra skattstjóra, sem fyrir liggur í málinu, verður eigi talið, að títtnefnt mælingargjald beri að telja til skattskyldra tekna kæranda. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja