Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 21/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. C-liður 3. tl. 1. mgr.  

Nám — Námsfrádráttur — Nám erlendis — Skólavottorð — Tilefnislaus kæra — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Málsmeðferð skattstjóra — Álagningarmeðferð skattstjóra — Breyting skattstjóra — Frávísun

Kærandi, sem stundar framhaldsnám í hjúkrunarfræðum í Björgvin í Noregi, krefst þess, að heimilaður verði námsfrádráttur vegna þessa náms að fjárhæð 22.040 kr. svo sem tilfært hefði verið í skattframtali árið 1983. Er gerð grein fyrir náminu í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 8. nóvember 1983. Telur kærandi, að með úrskurði, dags. 19. október 1983, hafi skattstjóri hafnað þessum námsfrádrætti.

Með bréfi, dags. 22. desember 1983, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kveðst ríkisskattstjóri ekki geta fallist á „að störf kæranda við sjúkrahús í Osló (sic) jafngildi námi í skattalegum skilningi skv. 1. mgr. 3. tl. C-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.“

Með bréfi, dags. 25. júlí 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að umræddur námsfrádráttur hefði verið felldur niður, þar sem vottorð um skólavist hefði ekki verið lagt fram. Þessi breyting á skattframtalinu var kærð af hálfu kæranda með bréfi, dags. 6. ágúst 1983, og lagði kærandi jafnframt fram gögn um námið. Í úrskurði sínum, dags. 19. október 1983, um kæruefnið tekur skattstjóri fram, að athugun hafi leitt í ljós, að þrátt fyrir fyrrnefnt bréf, dags. 25. júlí 1983, hafi námsfrádrætti ekki verið breytt í skattframtali kæranda og með hliðsjón af innsendum gögnum fallist skattstjóri á, að námsfrádrátturinn standi óbreyttur. Er þetta í samræmi við gögn málsins. Samkvæmt þessu hefur skattstjóri heimilað kæranda nefndan námsfrádrátt. Er kæran því tilefnislaus og þykir því bera að vísa henni frá. Það athugast, að kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu er byggð á misskilningi á efni úrskurðar skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja