Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 22/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. og 2. tl., 30. gr. 3. mgr.  

Styrkur — Vísindasjóður — Tekjutímabil — Rannsóknarverkefni — Rannsóknarstyrkur — Rannsóknarkostnaður — Tannlæknir — Vísindamaður — Frádráttarbærni — Frádráttarheimild — Launafrádráttur

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar tekjum í skattframtali sínu árið 1983 kostnað að fjárhæð 1.214 kr. vegna rannsókna á tönnum Þingeyinga. Var hér um að ræða hluta kostnaðar vegna þessa rannsóknarverkefnis. Samkvæmt fylgiskjali með skattframtali kæranda árið 1983 hafði kostnaður vegna rannsóknarverkefnisins fallið til allt frá árinu 1977. Þá kom fram í gagni þessu, að Vísindasjóður hefði veitt styrk til verkefnisins á árinu 1976 að fjárhæð 3.000 kr. og hefði styrkur þessi verið talinn fram á skattframtali árið 1977. Með bréfi, dags. 25. júlí 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að nefndur frádráttarliður hefði verið felldur niður, þar sem lagaheimild skorti fyrir honum.

Með kæru, dags. 28. júlí 1983, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingu skattstjóra, enda væri kostnaður þessi að fullu frádráttarbær í samræmi við lokamálsgrein 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hér væri um að ræða útlagðan kostnað á móti styrk frá Vísindasjóðhog hefði árlega verið gerð grein fyrir þessu með skattframtölum kæranda. Með úrskurði, dags. 12. október 1983, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að kostnaður á grundvelli 3. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, leyfðist eingöngu til frádráttar samskonar tekjum og hann gekk til öflunar á. Á móti kostnaðinum væru ekki framtaldar neinar samskonar tekjur og skorti því lagaheimild til frádráttarins.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. nóvember 1983, og þess krafist, að hinn umdeildi frádráttarliður verði að fullu tekinn til greina. Til viðbótar fyrri skýringum tekur umboðsmaður kæranda fram, að styrkurinn frá Vísindasjóði hafi verið talinn til tekna á skattframtali árið 1977, en hins vegar hafi útlagður kostnaður vegna styrksins ekki numið heildarfjárhæð hans í árslok 1982. Umboðsmaðurinn bendir á, að rannsóknir, sem styrktar séu af Vísindasjóði, geti tekið langan tíma og kostnaður dreifst á mörg ár. Ekki verði séð, að ákvæði lokamálsliðar síðustu málsgreinar 30. gr. skattalaganna verði með sanngirni túlkuð það þröngt, að gjöld í tilvikum sem þeim, sem hér um ræðir, verði að falla til á sama skattári og tekjurnar til þess að þau teljist frádráttarbær.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi, dags. 22. desember 1983, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur á svofelldum forsendum:

„Ríkisskattstjóri hafnar því alfarið að fyrir hendi sé lagaheimild til að færa til frádráttar tekjum kæranda umkrafða fjárhæð. Í þessu sambandi þykir 3. mgr. 30. gr. skattalaga ekki eiga við enda tengist téður frádráttur engan veginn tekjuöflun ársins.“

Á það þykir verða að fallast með skattstjóra og ríkisskattstjóra, að grundvöll þess frádráttar, sem hér um ræðir, yrði að sækja í 3. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e.a.s. beinn kostnaður við öflun annarra tekna en tekna samkvæmt 1. tl. A-liðs 7. gr. nefndra laga án þess að tekjuöflunin falli undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Styrkur sá, sem um ræðir í máli þessu, telst til þeirra tekna, sem um getur í 2. tl. A-liðs þessarar lagagreinar. Meðal skilyrða fyrir frádrætti kostnaðar vegna öflunar slíkra tekna samkvæmt þessum ákvæðum er að kostnaðurinn dragist eingöngu frá samskonar tekjum og hann gekk til öflunar á og má frádráttur hvers árs aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum, sem hann leyfist til frádráttar. Svo sem fram kemur í málinu skortir á, að það skilyrði sé uppfyllt að um frádrátt sé að ræða gjaldárið 1983 á móti samskonar tekjum og nefndur kostnaður gekk til öflunar á. Veldur því að því er virðist ótímabær tekjufærsla allrar styrkfjárhæðarinnar gjaldárið 1977. Sú ráðstöfun verður eigi leiðrétt með frádrætti í skattframtali árið 1983 eins og krafist er. Til þess verður að leita annarra úrræða. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja