Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 23/1984

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr., 59. gr. 1. mgr.  

Reiknað endurgjald — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Rekstrartöp, eftirstöðvar frá fyrri árum — Reiknað endurgjald, ákvörðun skattstjóra — Lögskýring

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 22. júlí 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að þar eð hún hefði ekki reiknað sér endurgjald við eigin atvinnurekstur, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, hefði henni, með hliðsjón af viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra sbr. 59. gr. téðra laga, verið ákvarðað endurgjald 66.806 kr. Takmörkun skv. lokamálslið 1. mgr. 59. gr. laganna miðaðist við rekstrarafkomu ársins.

Með kæru til skattstjóra, dags. 15. ágúst 1983, krefst umboðsmaður kæranda fullrar niðurfellingar ákvarðaðs endurgjalds og á þeim opinberu gjöldum er af breytingu skattstjóra leiða. Mótmælt er þeirri fullyrðingu skattstjóra, að takmörkun skv. lokamálslið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981, miðist við rekstrarafkomu ársins, „enda fæ ég ekki séð slíka takmörkun í umræddri lagagrein“, eins og segir í kæru til skattstjóra. Eðlilegra væri að líta á tapstöðuna í heild, þ.e. meðan ónotað tap er fyrir hendi, skuli umrædd takmörkunarákvæði gilda gagnvart ákvörðun eigin launa.

Í kæruúrskurði, dags. 20. október 1983 synjaði skattstjóri kærunni. Úrskurði sínum til áréttingar vísaði skattstjóri í 10. ml. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981. Telja verði ljóst, að framangreind tilvitnun girði ekki fyrir ákvörðun á endurgjaldi, þó kærandi eigi ónotuð töp frá eldri árum.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með sömu kröfum og röksemdum og frá greinir í kæru til skattstjóra.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 29. nóvember 1983, er svohljóðandi:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Sjónarmið umboðsmanns kæranda um að taka eigi tillit til ójafnaðra tapa fyrri ára við ákvörðun reiknaðra launa fær ekki staðist og vísast í því sambandi til úrskurða ríkisskattanefndar um sambærileg tilvik.“

Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja