Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 41/1984

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 66. gr., 96. gr. 2. mgr. 2. ml., 98. gr.  

Dánarbú — Álagningarmeðferð — Álagning skattstjóra — Álagningarskrá — Síðbúin álagning skattstjóra — Lögbirtingarblaðið — Ívilnun — Verksvið ríkisskattanefndar — Frávísun

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var talið fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu gjalda árið 1982. Við frumálagningu féll niður að ákvarða kæranda gjöld. Með bréfi dags. 1. nóvember 1982 tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hygðist ákvarða honum gjöld í samræmi við hið innsenda skattframtal en veitti honum áður færi á að tjá sig um það. Þann 11. nóvember 1982 höfðu skattstjóra ekki borist neinar athugasemdir frá kæranda og tilkynnti honum með bréfi dags. þann dag um ákvörðun gjalda svo sem áður var boðað. Af hálfu kæranda var ákvörðun þessi kærð til skattstjóra með bréfi dags. 8. desember 1982 og er kröfugerð umboðsmanns kæranda þar svohljóðandi:

„Forsaga þessa málefnis er í stuttu máli sú, að þann 4. apríl 1981 lést faðir minn, N.K., Þann 22. mars 1982 fengu ég undirrituð og sjö systkini mín leyfi skiptaráðandans í Reykjavík til einkaskipta á dánarbúinu, og var þeim lokið með greiðslu erfðafjárskatts þann 31. sama mánaðar. Skattframtali vegna dánarbúsins skilaði ég á tilskildum tíma til yðar, og undirritaði það í umboði samerfingja minna.

Þann 1. nóvember 1982 var ritað bréf yðar til mín, þar sem kunngert var, að þér hefðuð í hyggju að endurákvarða opinber gjöld dánarbúsins vegna gjaldársins 1982, þar sem við álagningu í ár hefði frumálagning á grundvelli innsends skattframtals fallið niður. Var mér gefinn kostur á að hreyfa andmælum gegn þessari ákvörðun innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins. Af þessu tilefni hitti ég að máli fulltrúa yðar, er undirritaði ívitnað bréf, og lýsti þeirri afstöðu minni, að ég teldi ákvörðun þessa eigi fá staðist. samtali þessu gerði viðmælandi minn mér þó ekki grein fyrir því, að skylt væri að gera athugasemdir mínar skriflega, og lít ég því svo á, að slíkt hafi ekki verið nauðsyn. Sem fyrr segir barst mér síðan bréf yðar og skattbreytingarseðill af þessu tilefni, og eru þau skjöl dagsett 11. nóvember.

Þess er nú krafist, að opinber gjöld, álögð á umræddan aðila, verði með öllu felld niður. Kröfu þessa leyfi ég mér að rökstyðja með vísan til þess, að hin svonefnda endurákvörðun gjaldanna eigi ekki stoð að lögum. Samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981, skulu skattstjórar hafa lokið álagningu á skattaðila eigi síðar en þann 30. júní ár hvert. Með auglýsingu, er birtist í 70. tbl. Lögbirtingablaðsins 1982, er út kom þann 30. júlí í ár, kunngera skattstjórar að álagningu opinberra gjalda á árinu 1982 sé lokið á skattskylda aðila. Samkvæmt upplýsingum, er aflað var hjá innheimtuaðila opinberra gjalda í Reykjavík að birtri umræddri auglýsingu, stóð dánarbú N.K. ekki í skuld vegna opinberra gjalda, og mátti því álykta að engin gjöld hafi verið lögð á dánarbúið, þótt ekki hafi komið fram til þeirra, er hagsmuna höfðu að gæta, tilkynning um þetta efni, sem skylt er skattstjóra að senda samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 98. gr. ívitnaðra laga. Heimild sú, sem í bréfi yðar er vitnað til, til þess að framkvæma álagningu nú, er sögð vera 96. gr. umræddra laga. Leyfi ég mér að vísa alfarið á bug að í lagaákvæði þessu felist heimild til þessa, enda ljóst, að þar er einungis að finna heimild til endurákvörðunar gjalda, ef innsent framtal eða fylgigögn teljist ófullnægjandi, óglögg eða tortryggileg, eða ef framtal hefur ekki verið sent skattstjóra. Hefur mér ekki verið kunngert að neinir annmarkar séu á innsendu framtali, er heimilað geta endurákvörðun gjalda, og er viðurkennt af yðar hálfu að framtal hafi komið fram vegna dánarbúsins. Tel ég samkvæmt þessu að heimild bresti til álagningar gjaldanna. Vil ég jafnframt benda á, að í áðurnefndu bréfi yðar frá 1. nóvember s.l. er vísað til þess, að frumálagning gjalda á grundvelli skattframtals hafi fallið niður. Hlýtur að verða að líta svo á, að slík mistök, sem þar virðast hafa átt sér stað, geti ekki bitnað á skattþegnum, enda hljóta þeir að mega vegna skýrra lagafyrirmæla líta svo á, að komi álagning gjalda eigi fram innan lögboðins tíma, þá sé rétt að álykta að engin gjöld verði álögð, og brestur skattstjóra heimild til þess að ákvarða álagningu á síðara stigi, nema fyrir liggi þau atvik, er í 96. gr. ívitnaðra laga getur.“

Að undangenginni ítrekun umboðsmanns kæranda í bréfi dags. 19. september 1983 á nefndri skattkæru kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í málinu og synjaði kröfum kæranda með svofelldum rökum:

„Skiptum greinds dánarbús lauk þ. 31/3 1982. Um ótvíræða skattskyldu var því að ræða vegna tekna ársins 1981 og eigna í lok þess árs.

Við álagningu ársins 1982 féll niður álagning á skattframtöl dánarbúsins 1982.

Samkvæmt 2. ml. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 skal skattstjóri ákvarða eða endurákvarða skattaðila skatt, ef í ljós kemur að honum hefur ekki verið gert að greiða skatt af öllum tekjum sínum og eignum, eða ef ekki hefur verið lagt á skattaðila.“

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 25. október 1983. Er gerð sú krafa að álagning skattstjóra verði felld niður og um rökstuðning fyrir þeirri kröfu er vísað til þess sem fram kemur í kæru til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 6. desember 1983 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á sjónarmið umboðsmanns kæranda varðandi skýringu á 98. gr. skattalaga.

Í tilvitnuðu lagaákvæði er að finna framkvæmdarreglu á fyrirkomulagi og birtingu álagningar gjalda. Slík framkvæmdarregla verður eigi skilin þannig að hún girði fyrir frumálagningu síðar. Ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að veita skattaðilum réttaröryggi með því að leggja þær skyldur á herðar skattyfirvöldum að tilkynna á lögformlegan hátt að almennri álagningu gjalda sé lokið. í skattarétti gildir sú meginregla að allar tekjur manna og annarra skattaðila eru skattskyldar nema sérstaklega sé kveðið á um annað skv. lögum. Hafi álagning á skattaðila fallið niður er skattyfirvöldum tvímælalaust heimilt að framkvæma nýja álagningu og vísað í því sambandi til ótvíræðrar lagaheimildar í 2. mgr. 96. gr. skattalaga en þar segir í 2. ml.: „Á sama hátt skal ákvarða eða endurákvarða skattaðila skatt ef í ljós kemur að honum hefur ekki verið gert að greiða skatt af öllum tekjum sínum og eignum eða ef ekki hefur verið lagt á skattaðila.“

Að virtu framangreindu er ljóst að skattstjóra var bæði rétt og skylt að ákvarða kæranda álögð gjöld þó svo almennri álagningu gjalda það ár hafi verið lokið. Eigi verður annað séð en að skattstjóri hafi gætt réttra formreglna við meðferð málsins, sbr. 3. ml. 96. gr. skattalaga. Við ákvörðun á skattstofnum hefur skattstjóri lækkað tekjuskattsstofn kæranda um kr. 10.000 að því er virðist á grundvelli 66. gr. skattalaga. Ríkisskattstjóri fellst ekki á að lagaskilyrði sé fyrir hendi til slíkrar breytingar og er því krafist að tekjuskattsstofn kæranda hækki er nemi nefndri fjárhæð.“

Hinn kærði úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans.

Við ákvörðun hinna kærðu gjalda veitti skattstjóri kæranda ívilnun í tekjuskattsstofni með vísan í 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eigi á það undir verksvið ríkisskattanefndar að fjalla um ívilnanir, sem veittar eru samkvæmt heimildum í þeirri lagagrein, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Er því kröfu ríkisskattstjóra að því er það atriði varðar vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja