Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 123/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 64. gr. 2. og 3. mgr. — 69. gr. A og B-liður — 100 gr. 1. mgr.  

Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Ótakmörkuð skattskylda — Hjón — Sköttun hjóna — Heimilisfesti — Hjón, annað ber ótakmarkaða skattskyldu en hitt ekki — Barnabætur — Barnabótaauki — Barnabætur, skipting — Framfærandi — Forsendur skattstjóra — Rangar forsendur skattstjóra — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra

Kærð er sú ákvörðun skattstjóra í úrskurði hans, dags. 9. apríl 1990, að fella niður barnabótaauka þann er skattstjóri hafði ákvarðað kæranda til handa við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989. Var ástæða skattstjóra sú að tekjur eiginmanns kæranda lægju ekki fyrir. Í kæru sinni til ríkisskattanefndar gefur umboðsmaður kæranda upplýsingar um tekjur eiginmannsins á árinu 1988. Hann tekur jafnframt fram, að kærandi sé íslenskur ríkisborgari. Hún hafi flust til X ásamt fjölskyldu sinni í september 1988 og sé þar búsett. Hún hafi gengið í hjónaband á árinu 1987.

Með bréfi, dags. 14. mars 1991, gerir ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda svofellda kröfu í máli þessu:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin, en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 9. maí 1990. Kærubréf kæranda barst ríkisskattanefnd hinsvegar ekki fyrr en 10. maí 1990. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.“

Eftir öllum atvikum er kæran tekin til efnismeðferðar. Svo sem aðstæðum var háttað í tilviki kæranda og eiginmanns hennar bar hún ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. gr. laga nr. 75/1981 en eiginmaðurinn ekki. Áttu því ákvæði 2. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 við um tilvik þetta og bar að skattleggja kæranda sem einstakling. Að þessu virtu þykir forsenda úrskurðar skattstjóra ekki eiga við rök að styðjast. Er krafa kæranda um ákvörðun barnabóta því tekin til greina. Ákvarðast kæranda helmingur bótanna, enda er kærandi ekki ein framfærandi, sbr. B-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja