Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 64/1984

Úrskurður nr. 64/1984

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. og 3. tl., B-liður, 30. gr. 3. mgr., 31. gr. 1. tl.  

Ritstörf — Rithöfundur — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Rekstrarkostnaður — Sönnun — Ritlaun — Höfundaréttartekjur

Málavextir eru þeir, að skattstjóri endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1982 með bréfi sínu, dags. 30. maí 1983, sbr. skattbreytingaseðil, sem dagsettur er þann sama dag. Tilefni þessara endurákvörðunar er að finna í bréfi skattstjóra, dags. 13. apríl 1983, til kæranda. Að því er best verður séð varðar kæran til ríkisskattanefndar þann þátt í endurákvörðun skattstjóra, sem lýtur að uppgjöri tekna kæranda af starfi hans sem rithöfundur. Kærandi lét fylgja með skattframtali sínu árið 1982 sérstakt rekstraryfirlit, þar sem færðar voru til tekna greiðslur frá tilteknu bókaforlagi og Rithöfundasambandi Íslands. Meðal gjaldaliða voru 33.900 kr., sem tilgreint var svo: „Ferðakostn., innl., og erl., húsnæði, sími, ritföng, bækur o.fl.“ Hreinar tekjur af þessu starfi samkvæmt rekstraryfirlitinu færði kærandi sem reiknað endurgjald í reit 24 í skattframtali. Skattstjóri leit svo á, að tekjur kæranda af ritstörfum féllu undir 3. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e.a.s. að hér væri um að ræða „endurgjald til höfunda og rétthafa fyrir hvers konar hugverk, bókmenntir og listir eða listaverk, hvort sem um er að ræða afnot eða sölu“, eins og það er orðað í þessu lagaákvæði. Skattstjóri féllst því ekki á, að hér væri um þær tekjur að ræða, sem um getur í B-lið 7. gr. nefndra laga. Taldi skattstjóri, að um frádrátt á móti þessum tekjum færi eftir ákvæðum 3. mgr. 30. gr. laganna. Fyrrnefndan gjaldalið lækkaði skattstjóri um 22.700 kr. Fyrir liggur sundurliðun kæranda á þessum gjaldalið, dags. 12. ágúst 1982. Þeir liðir, sem skattstjóri heimilaði ekki til frádráttar var kostnaður vegna dvalar erlendis til kynningar á eigin verkum, ferðakostnaður innanlands vegna upplestrar o.fl., risna vegna erlendra viðmælenda úr fjölmiðlaheiminum, símkostnaður og burðagjöld, framköllun á myndum úr leikverki, kaup gjafaeintaka og leigugjald fyrir sumarbústað, sem dvalist var í við ritstörf.

Þessum ákvörðunum skattstjóra hefur verið mótmælt af hálfu kæranda. Er því haldið fram, að líta beri á ritstörfin sem sjálfstæða starfsemi. Allir tilfærðir gjaldaliðir séu beinn kostnaður vegna þeirrar starfsemi. Þar sé um að ræða kostnað við vinnuaðstöðu og kynningu á verkum til þess að örva sölu þeirra og auka þannig tekjur.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 2. janúar 1984, lögð fram svofelld kröfugerð í málinu:

„Óumdeilt er að kærandi stundar ritstörf og hafði á árinu 1982 tekjur af þeim störfum. Ríkisskattstjóri vefengir ekki að sem rithöfundur starfi kærandi sjálfstætt. Hins vegar verður ekki talið að starfsemi kæranda sé þess eðlis að hún falli undir 1. tl. A-liðar 7. gr. skattalaga. Þegar litið er til uppruna þeirra tekna er kærandi fær fyrir ritstörf sín sýnist augljóst að þær falla undir 3. tl. áður tilvitnaðs lagaákvæðis.

Ekki verður því mótmælt að kærandi hefur haft kostnað við öflun áður greindra tekna og með vísan til 3. mgr. 30. gr. skattalaganna þykir verða að heimila kæranda að færa þann kostnað til frádráttar heildartekjum af ritstörfum.

Í tilviki kæranda nemur framtalinn kostnaður 38,7% af heildartekjum sem verður að teljast verulega hátt hlutfall. Þegar virt er kostnaðaryfirlitið er barst skattstjóra þann 12. ágúst sl. kemur í ljós að verulegur hluti kostnaðarins er fólginn í ferða- og risnukostnaði sem ekki verður beinlínis talinn hafa gengið til öflunar framtalinna tekna kæranda af ritstörfum. Ekki verður t.d. séð að kærandi hafi haft tekjur erlendis frá árinu 1982.

Ríkisskattstjóri getur fallist á að liðir nr. 2, 5 og 8 á téðu kostnaðaryfirliti komi til frádráttar tekjum kæranda af ritstörfum. Gerð er krafa um að aðrar útstrikanir skattstjóra standi óbreyttar.“

Í tilefni af kröfugerð ríkisskattstjóra þykir ástæða til þess að taka fram, að auk deilu um útgjaldaliði snýst ágreiningurinn í málinu um það, hvort tekjur kæranda af ritstörfum teljist tekjur af sjálfstæðri starfsemi samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og færslu reiknaðs endurgjalds í því sambandi, eða tekjur samkvæmt 3. tl. A-liðs 7. gr. laganna. Þegar umfang ritstarfa kæranda er virt og tekjur af þeim störfum svo sem þetta verður ráðið af málsgögnum þykir bera að fallast á sjónarmið kæranda um uppgjör þessara tekna. Ríkisskattstjóri fellst á, að kostnaður vegna leigu á sumarbústað, ferðakostnaður innanlands vegna upplestrar og umræðna um eigin verk og símakostnaður og burðargjöld komi til frádráttar tekjum af ritstörfum, væntanlega til viðbótar þeim frádrætti sem skattstjóri hefur þegar leyft. Með vísan til þessa og þar sem eigi verður séð, að sérstakt tilefni sé til þess að þeir útgjaldaliðir, sem þá standa eftir í ágreiningi, verði settir skör lægra en þeir, sem á hefur verið fallist, þykir mega taka kröfu kæranda til greina. Heildarfjárhæð gjaldaliðsins, sbr. að framan, verður þó eigi hærri en 32.800 kr., þar sem í sundurliðun kæranda sjálfs er eigi gert ráð fyrir hærri fjárhæð.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja