Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 82/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl.   Lög nr. 51/1980, 73. gr.  

Skyldusparnaður — Skyldusparnaðarfrádráttur — Skyldusparnaðartími — Áætlun frádráttarfjárhæðar — Sönnun

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar í skattframtali sínu skyldusparnað að fjárhæð 16.865 kr. Skattstjóri felldi þennan frádráttarlið niður, þar sem kærandi hefði fengið undanþágu frá skyldusparnaði. Þessu mótmælti kærandi með kæru, dags. 10. ágúst 1983, og boðaði nánari rökstuðning síðar. Með úrskurði, dags. 14. október 1983, vísaði skattstjóri kærunni frá, þar sem rökstuðningur hefði ekki borist.

Frávísunarúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 10. nóvember 1983. Er greint frá því, að kærandi, sem sé á skyldusparnaðaraldri, hafi fengið undanþágu til þess að taka út hluta af skyldusparnaði sínum af þar tilgreindum ástæðum. Kærandi hafi hins vegar verið sparnaðarskyldur 11 mánuði ársins 1982 og er þess krafist, að allur skyldusparnaður þess árs verði leyfður til frádráttar. Þá er að því vikið, að kærandi sé sparnaðarskyldur það sem af er árinu 1983 og verði það til 26 ára aldurs.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 2. janúar 1984:

„Fallist er á að sá hluti sparnaðar er kæranda var skylt að spara tímabilið 1. janúar 1982 - 30. apríl 1982 verði leyfður til frádráttar.“

Í málinu liggur fyrir afrit vottorðs skattstjórans í Reykjavík, dags. 10. nóvember 1982, þar sem tekið er fram, að kærandi sé undanþeginn sparnaðarskyldu frá 1. maí til 31. desember 1982. Með vísan til þessa gagns þykir bera að miða skyldusparnaðarfrádrátt við það tímabil, sem um getur í kröfugerð ríkisskattstjóra. Eigi liggja fyrir í málinu fullnægjandi gögn til ákvörðunar frádráttarins nákvæmlega fyrir þetta tímabil. Eftir atvikum þykir mega áætla frádráttinn og þykir hæfilegt að miða við 6.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja