Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 86/1984

Gjaldár 1983

Reglugerð nr. 558/1981   Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 6. tl., E-liður 1. tl., 95. gr. 1. mgr. 3. ml., 96. gr. 1. mgr. og 3. mgr.  

Framreiðslumaður — Þjónn — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Rekstrarkostnaður, frádráttarbærni — Verkfærafrádráttur — Löggilt iðngrein — Leiðbeiningarreglur ríkisskattstjóra — Sönnunarskylda — Sönnunarbyrði — íbúðarlán — Vaxtagjöld, frádráttarbærni — Opinber gjöld — Dráttarvextir — Málsmeðferð áfátt — Hugtakið lán — HRD. 1980: 1948

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 25. júlí 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að ýmsar breytingar hefðu verið gerðar á skattframtali hans árið 1983. Var þar um að ræða, að vaxtagjöld að fjárhæð kr. 6.980 vegna skuldar við Gjaldheimtuna í Reykjavík voru niður felld. Kærandi, sem starfaði sem yfirþjónn, dró frá tekjum sínum af því starfi ýmsa útgjaldaliði samkvæmt sérstöku rekstraryfirliti, sem fylgdi skattframtalinu. Í fyrrnefndu bréfi tilkynnti skattstjóri kæranda, að þjónar teldust launþegar, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 24. nóvember 1980. Kæranda væri aðeins heimilt að draga atvinnuleysistryggingagjald og greidd laun frá brúttótekjum. Á grundvelli þessa strikaði skattstjóri út ýmsa útgjaldaliði samtals að fjárhæð kr. 26.674. Var þar um að ræða bifreiðakostnað, vottorð og æfingakostnað, bækur og ritföng fyrir nema, skólagjöld og skráningu að hálfu, lífeyrissjóð nema af hálfu. Þá felldi skattstjóri niður kostnað yfirþjóns, sem færður var til frádráttar í reit 34 í skattframtali og nam kr. 3.450. Ennfremur frádrátt vegna verkfæra að fjárhæð kr. 2.285 sem færður var til frádráttar í reit 35 í skattframtalinu.

Framangreindum breytingum mótmælti umboðsmaður kæranda í kæru til skattstjóra, dags. 27. júlí 1983, og krafðist þess, að skattframtalið yrði óbreytt lagt til grundvallar álagningu. Umboðsmaðurinn bar fyrir sig, að framreiðslumenn á vinnustað kæranda störfuðu sem verktakar. Þeir hefðu nema, sem þeir greiddu laun. Þeir greiddu og námskostnað nemanna og hluta af opinberum gjöldum bæði vegna vinnu nemanna og af eigin vinnu. Einnig greiddu framreiðslumennirnir hluta af rekstrarkostnaði, sem atvinnurekendur greiddu venjulega, svo sem ferðakostnað utan ferðatíma almenningsvagna. Umboðsmaðurinn heldur því fram, að sjónarmið ríkisskattstjóra í bréfi, dags. 24. nóvember 1980, eigi ekki við rök að styðjast. Þá gerði umboðsmaðurinn athugasemdir við einstaka liði, svo sem atvinnuleysistryggingargjald og ferðakostnað utan ferðatíma almenningsvagna. Síðastnefndan kostnað greiddu allir launagreiðendur samkvæmt samningum við stéttarfélög. Þann kostnað hefðu framreiðslumenn rétt á að færa til frádráttar á sama hátt og veitingahúsum leyfðist að gjaldfæra sama kostnað fyrir annað starfsfólk sitt. Varðandi verkfærakostnað vísaði umboðsmaðurinn til þess, að framreiðslumenn legðu sér og nemum sínum til ýmisleg áhöld og verkfæri eins og iðnaðarmenn í flestum löggiltum iðngreinum. Kostnaður yfirþjóns, sem færður væri til frádráttar, væri fyrst og fremst símakostnaður, sem kærandi fengi endurgreiddan í hærri tekjum en aðrir þjónar fengju. Vaxtagjöld vegna skuldar við Gjaldheimtuna taldi umboðsmaðurinn frádráttarbæra, þar sem kostnaður við eigin húsbyggingu hefði valdið vanskilunum. Umboðsmaðurinn kvað breytingar samtals að fjárhæð kr. 26.674 ekki hafa verið sérstaklega tilkynntar og fengi sú málsmeðferð ekki staðist.

Skattstjóri tók kæruna til úrskurðar þann 25. október 1983, og hafnaði öllum kröfum kæranda. Vísaði skattstjóri til fyrrnefnds bréfs ríkisskattstjóra um skattalega meðferð þjónustugjalds framreiðslumanna. Frá launum þeirra eins og þau ákvörðuðust samkvæmt 3. tl. þess bréfs mætti aðeins draga frá liði, sem væru frádráttarbærir samkvæmt 1. og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Frádráttarliðir þeir, sem hefðu verið strikaðir út með bréfi, dags. 25. júlí 1983, féllu ekki undir þessar frádráttarheimildir. Um niðurfellingu verkfærakostnaðar vísaði skattstjóri til þess, að framreiðslumenn teldust ekki til þeirra iðnaðarstétta, sem hefðu heimild til frádráttar verkfærakostnaðar án sönnunarskyldu, sbr. leiðbeiningar ríkisskattstjóra við útfyllingu framtals einstaklings árið 1983. Þá uppfylltu vaxtagjöld af skuld við Gjaldheimtuna ekki skilyrði 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. nóvember 1983. Eru gerðar sömu kröfur og í kæru til skattstjóra og þess krafist, að álagningu verði breytt til samræmis við framtal. Um rökstuðning er vísað til kæru til skattstjóra, en sérstaklega tekið fram varðandi sönnun fyrir verkfærakostnaði, að þann kostnað sé unnt að sanna, ef krafist verður.

Með bréfi, dags. 2. janúar 1984, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákvörðun skattstjóra um niðurfellingu vaxtagjalda vegna skuldar við Gjaldheimtuna í Reykjavík þykir bera að staðfesta, enda þykja vaxtagjöld þessi eigi uppfylla skilyrði 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þau sjónarmið, sem fram koma af hálfu skattstjóra um skattalega meðferð tekna framreiðslumanna, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 24. nóvember 1980, eiga sér stoð í Hrd. 1980 : 1948. Hins vegar hefur skattstjóri fellt niður ýmsa liði í rekstraryfirliti kæranda, sem heimilt er samkvæmt nefndu bréfi ríkisskattstjóra, sbr. einkum 1. tl. þess, að draga frá launum framreiðslumanna. Skattstjóri fór með þessar breytingar eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en eigi eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga . Með vísan til þess þykir verða að fella allar breytingarnar úr gildi. Kærandi færði sér til frádráttar verkfærakostnað, sbr. 6. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þá föstu fjárhæð, sem um getur í leiðbeiningum ríkisskattstjóra, að færa megi „án sönnunarskyldu.“ Skattstjóra hefði verið rétt að afla upplýsinga og gagna frá kæranda, áður en hann ákvað að fella þennan frádráttarlið niður. Í tilefni af úrskurði skattstjóra skal á það bent, að starfsgrein kæranda er löggilt iðngrein sbr. reglugerð um iðnfræðslu nr. 558 frá 25. ágúst 1981. Með vísan til þessa þykir bera að ómerkja þessa breytingu. Niðurfellingu frádráttarliðsins kostnaður yfirþjóns þykir bera að staðfesta, enda þykir sú breyting skattstjóra fá staðist bæði að formi og efni.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja