Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 91/1984
Gjaldár 1983
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr., 30. gr. 1. mgr. A-liður 3. tl., 4. tl.
Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Matsreglur ríkisskattstjóra — Sönnun — Húsnæðishlunnindi — Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Orkukostnaður — Skattmat — Hlunnindamat ríkisskattstjóra — Búseta — Lögheimilissveit — Heimilissveit
1. Kærandi gegndi starfi við X. Hann fékk greiddan ökutækjastyrk frá fyrirtækinu að fjárhæð kr. 73.650. sem hann færði sér til tekna í skattframtalinu. Til frádráttar færði hann kostnað að sömu fjárhæð. Skattframtalinu fylgdi skýrsla kæranda um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1982. Samkvæmt skýrslunni nam heildarreksturskostnaður bifreiða kæranda á árinu 1982 alls kr. 97.880. Heildarakstur nam 23.100 km. Akstur í eigin þágu var tilgreindur 4.875 km að meðtöldum akstri í eigin þágu til og frá vinnu. Í skýrslunni gerði kærandi sérstaka og sundurliðaða grein fyrir akstri í eigin þágu. Kostnaður pr. ekinn kílómetra nam kr. 4,23 samkvæmt skýrslunni og heildarkostnaður vegna aksturs í þágu vinnuveitanda nam kr. 77.092, er var sama fjárhæð og reiknaðist samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra um hámark kostnaðar, þ.e.a.s. kr. 3,70 pr. ekinn kílómetra að viðbættum kr. 0,53 vegna svonefnds „sérstaks gjalds.“
Með bréfi, dags. 30. mars 1983, krafði skattstjóri kæranda um alla reikninga vegna bifreiðareksturs á árinu 1982. Í framhaldi af svörum kæranda í bréfi dags. 9. apríl 1983, sbr. bréf X., dags. 26. apríl 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfum, dags. 22. júní 1983 og 4. júlí 1983, að kostnaður á móti ökutækjastyrk hefði verið lækkaður í kr. 52.123 á grundvelli innsendra gagna varðandi bifreiðareksturinn. Þessu mótmælti kærandi í kæru, dags. 23. ágúst 1983, og vísaði til sérstakrar greinargerðar sem hann hefði sent skattstjóra um bifreiðareksturinn, þar sem fram kæmi, að hluti af nótum hefði glatast við sölu bifreiðar og vanti t.d. nótur vegna bensíns á bifreiðina I — 0000, sem notuð hefði verið fyrstu átta mánuði ársins. Krafðist kærandi þess, að fullt tillit yrði tekið til innsendrar greinargerðar og bifreiðakostnaðar eins og hann var tilgreindur í skattframtali yrði látinn óbreyttur standa. Með úrskurði, dags. 18. október 1983, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda með vísan til þess, að lækkun bifreiðakostnaðarins byggðist á innsendum nótum svo sem nánar var greint frá.
Af hálfu kæranda er breytingu skattstjóra mótmælt í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 8. nóvember 1983. Bendir kærandi á, að skattstjóri hafi ekkert tillit tekið til þeirrar áætlunar á bensínkostnaði, sem fram hafi komið í þeirri greinargerð, sem send hafi verið skattstjóra, en mikið af bensínnótum hafi glatast svo sem gerð hafi verið grein fyrir. Skattstjóri viðurkenni þann akstur, sem tilfærður sé í þágu vinnuveitanda. Sé það út í hött að ætla að bifreiðinni hafi verið ekið 17.000 km án eldsneytis. Varðandi þá athugasemd skattstjóra að slæðst hafi með tvær nótur tilheyrandi árinu 1981 þá bendir kærandi á, að honum hefði verið heimilt að reikna með kr. 4.922 í hærri afskriftum samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra í lið 3.1.0. síðustu málsgrein. Þá gerir kærandi athugasemd við það, að skattstjóri upplýsi ekki, hvernig fjárhæð sú, sem hann hafi ákveðið til frádráttar, sé fundin.
2. Í framhaldi af fyrirspurnarbréfi dags. 30. mars. 1983, varðandi húsnæðisafnot af D-götu, B., og hlunnindi í formi rafmagns- og hitunarkostnaðar tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 4. júlí 1983, að reiknuð húsnæðishlunnindi kr. 7.900 hefðu verið færð honum til tekna í reit 27 í skattframtali. Reiknað væri með afnotum af 56,32 % af húseigninni að D-götu, B., 2,7 % af fasteignamati, sem gerði kr. 28.209, en frá því drægist greidd húsaleiga að fjárhæð kr. 20.304 Þá voru áætluð hlunnindi í formi rafmagns- og hitunarkostnaðar að fjárhæð kr. 30.000 færð í reit 30 í skattframtali. Fyrirspurn um þennan lið hefði ekki verið svarað. Í kæru til skattstjóra, dags. 23. ágúst 1983, krafðist kærandi þess, að áætluð hlunnindafjárhæð vegna rafmagns- og hitunarkostnaðar yrði felld niður, þar sem hann liti svo á, að ekki væri um hlunnindi að ræða og hefði því ekki séð ástæðu til þess að svara fyrirspurninni. Áður en skattstjóri tók þetta kæruatriði til úrskurðar krafði hann kæranda um kvittanir vegna greiðslu á hitunar- og rafmagnskostnaði. Ekki bárust gögn um það og í úrskurði sínum, dags. 18. október 1983, ákvað skattstjóri, að hin áætlaða hlunnindafjárhæð skyldi óbreytt standa, þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist. Skattstjóri tók fram, að áætlun þessara hlunninda væri miðuð við kr. 2.500 á mánuði fyrir rafmagn og hita, sem talið væri í lágmarki miðað við það, sem fólk greiddi fyrir þessa þjónustu á B.
Í kæru, dags. 8. nóvember 1983, til ríkisskattanefndar mótmælir kærandi ákvörðun þessara hlunninda. Telur hann, að ekki sé hér um hlunnindi að ræða og færir fyrir því eftirfarandi rök:
„Ég starfa hér á B. fyrir X. Starfs míns vegna get ég ekki búið í minni eigin íbúð að A-götu, G., heldur verð ég að búa hér í embættisbústað að D-götu, B.
Þegar ég réðst til þessa starfs, réð ég mig upp á hliðstæð launakjör og ég hafði hjá mínum fyrri vinnuveitanda. Starfs míns vegna þarf ég að taka á móti gestum fyrirtækisins, stjórnarmönnum og fleirum á heimili mínu. Þetta hef ég gert án þess að gera kröfu um risnu, svo sem sjá má á framtali mínu og álitið að það gengi upp á móti fríðindum í rafmagni og hita.
Ég fer því fram á að fyrrgreind áætlun um hlunnindatekjur verði felld niður.
Til vara fer ég fram á að fyrrnefndar hlunnindatekjur verði ekki metnar hærri en ég greiddi fyrir rafmagn og hita í mínu eigin húsi, A-götu, byggi ég þar. Sú upphæð er á árinu 1982 kr. 5.926 sbr. meðfylgjandi ljósrit af reikningum.
Til þrautavara fer ég fram á að fyrrgreindar hlunnindatekjur verði lækkaðar í kr. 15.000. Í endurunnum úrskurði frá 18. okt. s.l. virðist forsendan vera að miðað sé við lágmark sem fólk greiddi fyrir rafmagn og hita á B. á árinu 1982.
Þessi tala kr. 30.000 er í lágmarki miðað við yfirstandandi ár og er um það rætt í úrskurði frá 13. okt. s.l. Með tilliti til þess að gjaldskrár orkufyrirtækja hafa hækkað um rúm 100% frá miðju ári 1982 til miðs árs 1983 er farið fram á fyrrgreinda lækkun.“
Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 2. janúar 1984, gerðar svofelldar kröfur í málinu:
„Að kröfum kæranda verði hafnað. Rökstuðningur:
1. Fyrir liggur að kærandi hefur áætlað bifreiðakostnað sinn fyrri hluta árs 1982, þar sem gögn yfir kostnaðinn eru ekki fyrir hendi, þá hefur kærandi áætlað akstur í þágu vinnuveitanda fyrir sama tímabil. Hallann af ofangreindum gagnaskorti hlýtur kærandi að bera. Að áliti ríkisskattstjóra þykir, að virtri þeirri fjárhæð er skattstjóri leyfði til frádráttar, kærandi hafa fengið til frádráttar kostnað vegna aksturs í þágu vinnuveitanda síns.
2. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi á árinu afnot af íbúðarhúsnæði í eigu vinnuveitanda síns og greiddi fyrir þau afnot kr. 20.304, sbr. bréf kæranda til skattstjóra, dags. 9. apríl sl. og greiðslumiða er fylgdi framtali kæranda.
Hlunnindi í formi afnota af húsnæði eru tvímælalaust skattskyld skv. A-lið 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt og hefur ríkisskattstjóri birt mat og leiðbeiningar um hvernig meta skuli umrædd hlunnindi til skattskyldra tekna.
Eigi verður annað séð en að skattstjóri hafi byggt ákvörðun sína í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra.
Sjónarmið kæranda um að hann njóti ekki hlunninda virðist byggjast á viljandi misskilningi á merkingu orðsins hlunnindi og verður kærandi því ekki talinn geta borið fyrir sig að hann hafi ekki séð ástæður til að svara fyrirspurn skattstjóra um hlunnindi vegna orkukostnaðar.
Í gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi upplýst þennan þátt málsins og þykir því ekki fram komin ástæða til að breyta áætlun skattstjóra á hlunnindum vegna orkukostnaðar er greiddur er af vinnuveitanda kæranda.
Rétt þykir að benda á að meðal málsgagna eru a.m.k. tvær yfirlýsingar frá vinnuveitanda kæranda, X., báðar undirritaðar af kæranda og þykir það veikja nokkuð gildi þeirra sem upplýsingagagna í málinu.“
Um 1. tl. Ljóst er af málsgögnum, að skattstjóri hefur við ákvörðun frádráttarbærs bifreiðakostnaðar á móti ökutækjastyrk byggt á þeirri akstursskiptingu, sem kærandi tilfærði í skýrslu sinni um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1982. Skattstjóri hefur hins vegar lækkað heildarbifreiðakostnaðinn að athuguðum nótum og einkum á þeim grundvelli, að nótur fyrir bensínkostnaði vanti svo nemur verulegri fjárhæð. Kærandi hefur gert grein fyrir því, að bensínnótur hafi glatast og skýrt áætlun sína á bensínkostnaði. Eigi þykir ástæða til þess að draga þessar skýringar kæranda í efa og áætlun hans á þessum gjaldalið þykir nægilega rökstudd. Þykir því mega á henni byggja enda vandséð, hvernig það fái staðist að byggja á heildarakstri og skiptingu hans af hendi kæranda án þess að eldsneytiskostnaður fylgi í þeim mæli, sem sennilegastur má teljast miðað við málsatvik. Að þessu athuguðu og skýringum kæranda að öðru leyti varðandi þetta kæruatriði þykir mega fallast á, að kostnaður á móti ökutækjastyrk hafi eigi verið offærður af hans hálfu. Er krafa kæranda því tekin til greina.
Um 2. tl. Telja verður, að kærandi njóti skattskyldra hlunninda vegna orkukostnaðar, sem greiddur er af vinnuveitanda, sbr. 1. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eigi hefur verið upplýst af hálfu kæranda, hvaða fjárhæð þessi kostnaður hefur numið. Að því athuguðu og með því, að skattstjóri hefur haft til hliðsjónar við áætlun sína á hlunnindum þessum þau sjónarmið, sem fram koma í skattmati ríkisskattstjóra, dags. 4. janúar 1983, lið 2.2.4. þykja eigi efni til breytinga á ákvörðun skattstjóra um þetta kæruatriði. Eftir atvikum þykir rétt að vísa þessu kæruatriði frá.