Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 107/1984

Gjaldár 1983

Reglugerð nr. 245/1963, 16. gr. B-liður 1. mgr. 1. tl. 2. ml.   Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl., 10. gr. 2. mgr., 74. gr. 3. tl. 1. mgr  

Skattskyldar tekjur — Styrkur — Óendurkræfur styrkur — Stofnverð — Eignarskattsstofn — Eignarverð — Kvaðabundinn styrkur — Ríkisframlag — Ríkisstarfsmaður

Málavextir sem hér skipta máli eru þeir, að kærandi taldi fram til skatts gjaldárið 1983. Í athugasemdadálki framtals síns getur kærandi þess að samkvæmt launamiða frá ríkisbókhaldi hafi hún fengið framlag að fjárhæð kr. 100.000. Framlag þetta hafi verið veitt til kaupa á torfærubifreið vegna starfa hennar en hún gegni starfi embættishéraðshjúkrunarkonu við X. Getur hún þess að hún líti svo á „að þetta sé veitt embættinu en ekki henni persónulega þó svo að hún hafi haft ráðstöfunarrétt á framlaginu.“ í framtalinu er þess jafnframt getið að kærandi hafi þann 16. júní 1982 keypt bifreið af gerðinni Toyota hi - lux árgerð 1982 af Toyota - umboðinu hf., og hafi kaupverðið numið kr. 160.545.

Með bréfi dags. 21. júní 1983 tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði fært henni til tekna í skattframtali „Framlag frá ríkisbókhaldi kr. 100.000“. Var síðan tekið tillit til fjárhæðarinnar við álagningu gjalda 1983. Kærandi kærði breytingu þessa til skattstjóra með kæru dags. 18. ágúst 1983 og krafðist þess að hún yrði felld niður. Bendir kærandi á að eftir þeim upplýsingum sem hún hafi aflað sér fái það ekki staðist að reikna framlagið til tekna þar sem kvöð sé á því. Vitnar kærandi í því sambandi til bréfs heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytisins dags. 29. apríl 1982 og fylgir afrit af því bréfi nefndri kæru. Er kæranda þar tilkynnt um þá ákvörðun ráðuneytisins að veita henni styrk að fjárhæð kr. 100.000 til kaupa á torfærubifreið m.a. til notkunar í starfi sem hjúkrunarfræðingur í X. Tekið er fram að styrkur þessi sé óafturkræfur gegni kærandi starfinu í fimm ár eða lengur frá 1. maí 1982 að telja. Yrði svo ekki áskildi ráðuneytið sér rétt til þess að endurkrefja hlutfallslega fjárhæð styrksins.

Með kæruúrskurði dags. 13. október 1983 synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Byggði hann þá ákvörðun sína á því að samkvæmt A-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri umræddur styrkur skattskyldur. Skattstjóri tekur þó fram að ef „til þess kæmi að um endurgreiðslu á hluta af styrknum yrði að ræða, yrði skattlagningin endurskoðuð.“

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 9. nóvember 1983. Í kærunni gerir umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfum sínum:

„Ég vil með tilvísun til ákv. A-liðar 7. gr. gildandi skattalaga mótmæla að framlag ríkissjóðs til kaupa á umræddri bifreið sé kaupauki frekar en önnur tæki og gögn, sem umbj. m. sem hjúkrunarfræðingur fær í hendur án endurgjalds til reksturs heilsugæslustöðvarinnar.

Umbj. m. er ekki eigandi að þessu fé. Umbj. m. er skyldaður til að kaupa torfærubifreið - ríkisvaldið ræður hvaða hlutur er keyptur - umbj. m. fær ekki að kaupa ódýrari bifreið til persónulegra afnota eingöngu. Það hefur viðgengist fram að þessu að framlög til bifreiðakaupa, ef þau eru frá ríkissjóði a.m.k. eða bönkum að þá hafa þau ekki verið talin til skattskyldra tekna. Eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af bifreiðum til öryrkja, til leigubifreiðastjóra o. fl. eru ekki talin til skattskyldra tekna. Í síðast nefnda tilfellinu er þó um endurkröfurétt að ræða af hálfu ríkissjóðs, ef viðkomandi bifreið er seld innan ákveðins tíma, á sama hátt og umrædd fjárveiting ríkissjóðs til kaupa á bifreið umbj.m.

Fari svo að háttvirt ríkisskattanefnd telji að umrædd fjárveiting til bifreiðakaupa þessara, sé kaupauki til handa umbj. m. eða hlunnindi honum til handa, þá vil ég benda á ákvæði 4. tl. A-liðar 30. gr. skattalaga, sem fjallar um þau hlunnindi, sem eigi eru talin manni til hagsbóta megi draga frá tekjum. Hér í því tilfelli sem mál þetta fjallar um er ljóst að umrætt framlag er ekki umbj. m. til hagsbóta heldur til hagsbóta fyrir þá sjúklinga ótiltekinna, sem þurfa á læknishjálp að halda.

Verði ekki fallist á þessi rök mín fyrir lækkun á tekjum umbj. m. um framangreindar kr. 100.000,oo þá er ljóst að ekki eru skilyrði til að skattleggja umbj. m. á yfirstandandi ári vegna fjárhæðar þessarar þar sem ekki lá fyrir fyrr en 1. maí 1983 hvort umbj. m. yrði starfandi í heilt ár frá því að framlagið var veitt. Það yrði því ekki fyrr en á næsta ári, sem 1/5 hl. framlags þessa kæmi til tekna og síðan 1/5 hl. framlagsins árlega uns full 5 ár eru liðin frá veitingu þess.

Ég mótmæli því alfarið að með tilvísun til framanritaðs að heimilt sé að skattleggja menn fram í tímann vegna væntanlegra tekna.“

Með bréfi, dags. 2. janúar 1984, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Að áliti ríkisskattstjóra er styrkur sá er kærandi móttók á árinu 1982 tvímælalaust skattskyldur, enda hefur hann verið kæranda til hagsbóta í formi ákveðins eignaauka. Það að styrkurinn var veittur með skilyrði verði ekki látið breyta neinu um skattskyldu hans, a.m.k. meðan skilyrðið er haldið og ekkert sem bendir til annars. Hafi ríkisvaldið viljað undanþiggja téðan styrk skattlagningu hefði þurft sérstök lög.

Úrlausnarefnið er því með hvaða hætti eigi að haga skattlagningu umrædds styrks. Með hliðsjón af tilurð styrksins þykir mega líta á hann sem ákveðin starfstengd hlunnindi skv. 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt. Við skattlagningu ber því að gæta ákvæða 2. mgr. 30. gr. áður tilvitnaðra laga.

Tilvísun kæranda í tilvik þar sem svo hagar að felld eru niður aðflutningsgjöld verður ekki talin eiga við hér enda tilvikin gjörólík.

Varakrafa kæranda um að styrkurinn skuli skattlagður hlutfallslega á næstu fimm árum á sér ekki lagastoð og verður því ekki á henni byggt.“

Atkvæði meirihluta:

Umræddur styrkur var veittur kæranda úr ríkissjóði og er hann óendurkræfur að uppfylltum tilgreindum skilyrðum. Fyrir liggur að kærandi hafi varið styrknum til kaupa á torfærubifreið, svo sem ætlað var, og að hún gegni enn starfi hjúkrunarfræðings við heilsugæslustöð X. Með því að styrknum var þannig varið til ákveðinnar fjárfestingar og kærandi uppfyllir að öðru leyti þau skilyrði, sem við styrkinn voru bundin, ber ekki að svo vöxnu að telja hann til skattskyldra tekna hjá kæranda heldur til lækkunar á kostnaðarverði bifreiðarinnar í hennar hendi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og 2. málsl. 1. tl. 1. mgr. B-liðar 16. gr. reglugerðar nr. 245/1963, sem að þessu leyti fær samþýðst nefndum lögum. Bifreiðin færist kæranda til eignar á þannig ákvörðuðu stofnverði, sbr. 1. mgr. 3. tl. 74. gr. sömu laga.

Atkvæði minnihluta:

Með vísan til þess sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, er eigi fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja