Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 110/1984
Gjaldár 1983
Lög nr. 75/1981, 66. gr., 70. gr., 71. gr. 1. tl.
Brottför — Brottflutningur — Búferlaflutningur, kostnaður — Skattlagningarreglur — Útreikningsaðferð tekjuskatts — Heimilisfesti — Lögheimili — Ívilnun — Lagaheimild — Valdsvið ríkisskattanefndar
Málavextir eru þeir, að kærandi fluttist búferlum til Svíþjóðar ásamt fjölskyldu sinni þann 3. júní 1982 vegna framhaldsnáms í barnalækningum þar í landi. Á kæranda voru lögð opinber gjöld gjaldárið 1983 á grundvelli skattframtals hans. Var álagningunni hagað eftir þeim reglum, sem er að finna í 2. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. tl. 71. gr. sömu laga. Kærandi vildi ekki sætta sig við þessa álagningu og krafðist lækkunar á álögðum gjöldum í kæru til skattstjóra, dags. 11. ágúst 1983. Bar kærandi annars vegar fyrir sig, að talsverður kostnaður hefði verið við búferlaflutninginn, sem ekki hefði verið tekið tillit til við álagningu. Hins vegar væri lögð hærri skattprósenta á tekjur kæranda samkvæmt skattframtalinu, en vera myndi, ef tekjunum væri dreift á lengri tíma. Þessu var fylgt eftir með bréfi, dags. 16. september 1983. Með úrskurði, dags. 18. nóvember 1983, hafnaði skattstjóri kærunni með vísan til þess, að skattstjóra brysti lagaheimild til ívilnunar í tekjuskattsstofni vegna kostnaðar, sem búferlaflutningur hefði í för með sér. Vísaði skattstjóri til 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. desember 1983. Er farið fram á, að álögð opinber gjöld gjaldárið 1983 verði lækkuð og færð fram sömu rök og í kærunni til skattstjóra. Að því er varðar útreikningsaðferð tekjuskatts þá kemur nú fram af hálfu kæranda, að aðrar reglur gildi í þeim efnum við flutning til landsins, þ.e.a.s. að nefnd ákvæði 70. gr. laga nr. 75/1981 gildi ekki, þegar svo standi á. Vill kærandi, að sömu reglum verði beitt um skattmeðferð hans og gilda um flutning til landsins. Ítrekað er, að tekið verði tillit til kostnaðar við búferlaflutning við álagningu.
Með bréfi, dags. 26. janúar 1984, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að kröfu kæranda verði hafnað, þar sem þær verði ekki taldar hafa lagastoð.
Eigi er fyrir hendi lagaheimild til frádráttar kostnaðar vegna búferlaflutnings svo sem kærandi krefst. Eigi verður annað séð, en álagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1983 hafi verið hagað í samræmi við gildandi lagaákvæði þ.á m. reglur þær, sem um getur í áminnstri 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en út af málflutningi kæranda þykir rétt að taka fram, að eigi skiptir máli varðandi útreikningsreglur tekjuskattsstofns í þessu lagaákvæði hvort um brottför eða komu til landsins á tekjuárinu hefur verið að ræða. Verður því að hafna kröfum kæranda.
Hugsanleg ívilnunaratriði samkvæmt 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru eigi á valdssviði ríkisskattanefndar. Um slík mál fjalla skattstjórar og ríkisskattstjóri og eftir atvikum hlutaðeigandi sveitarstjórnir.