Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 112/1984

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl., 30. gr. 1. mgr. A-liður 4. tl., 92. gr. 1. mgr., 116. gr.  

Skattskyldar tekjur — Húsnæðishlunnindi — Launatekjur — Hlunnindamat ríkisskattstjóra — Skattmat — Heimilissveit — Lögheimilissveit — Launauppgjöf — Launamiði — Sóknarprestur — Eigin notkun — íbúðarhúsnæði — Dvalarstaður

Kærandi, sem er starfandi sóknarprestur, færði sér til tekna sem skattskyld húsnæðishlunnindi kr. 9.180 vegna afnota af prestbústað. Var fjárhæð hlunnindanna reiknuð 2,7 % af fasteignamati. Sömu fjárhæð færði kærandi til frádráttar í reit 34 í skattframtali (hlunnindi til frádráttar). Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 var byggt á þessum frádrætti. f framhaldi af fyrirspurnarbréfum tók skattstjóri fyrir þann 9. mars 1983 að endurákvarða áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1982 í tilefni af niðurfellingu nefnds frádráttar á móti tekjufærðum hlunnindum. Í kæruúrskurði sínum, dags. 7. desember 1983, tekur skattstjóri fram, að í eigu kæranda sé íbúðarhúsnæði að D-götu, Kópavogi. Kærandi hafi upplýst, að börn hans hafi haft íbúðarhúsnæði þetta til afnota vegna skólanáms í Reykjavík svo og eiginkona kæranda vegna framhaldsnáms. M hafi kærandi greint frá því, að hann hafi sjálfur gist í íbúðarhúsnæðinu í ferðum til Reykjavíkur. Að nokkru hafi húsnæðið staðið autt. Kærandi hafi haft embættisbústað til afnota í prestakallinu og eigi þar lögheimili og dvöl. Þá segir svo í úrskurðinum:

„Í skattmati ríkisskattstjóra (framtalsárið 1982) 3.7.0. segir „Eigi launþegi íbúðarhúsnæði til eigin nota, sem ekki er notað meðan hann nýtur húsnæðishlunninda.“ Ríkisskattstjóri hefur, skv. úrskurði ríkisskattanefndar nr. 543/1983, útskýrt það, að ofangreint mat hans eigi við „þegar aðili nýtur húsnæðishlunninda utan heimilissveitar sinnar og fjarlægð milli hennar og dvalarstaðar hamlar búsetu í heimilissveit.“ Með ofanritað í huga virðist ekki unnt að samþykkja þau hlunnindi til frádráttar í reit 34, er stafa af reiknuðum hlunnindum í reit 27 í framtali yðar. Þá er talið að hugtakið „notkun“ í ofangreindu skattmati ríkisskattstjóra hafi algilda merkingu, bæði það, að búið sé alfarið í húsnæði, það hafi verið skammtímadvalarstaður, eða það notað sem varðveislustaður fyrir eigin aðstöðu, húsbúnað, síma o.þ.h. Í bréfi umboðsmanns yðar mótt. 8/12 1982 og í kæru hans, virðist frekar vera upplýst um notkun á D-götu heldur en notkunarleysi og á matsregla ríkisskattstjóra nr. 3.7.0. því ekki við í yðar tilviki, sbr. 4. tl. í A lið 30. gr. skattalaga nr. 75/1981.“

Af hálfu kæranda er þess krafist, að frádráttur á móti tekjufærðum húsnæðishlunnindum verði látinn óbreyttur standa eins og hann var tilgreindur í skattframtali. Byggir kærandi kröfu sína einkum á því, að samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra sé slíkur frádráttur heimill, þegar sá, sem húsnæðishlunnindanna nýtur, á íbúðarhúsnæði til eigin nota, sem ekki er notað, meðan hlunnindin veitast. Ekki sé eðlilegt, að það geti breytt nokkru í þessum efnum, þótt hluti heimilisfólks kæranda dveljist hluta árs í eignaríbúðinni vegna skólanáms, enda verði nýting embættisbústaðarins þá þeim mun minni þannig að kærandi hafi dvalist einn í bústaðnum hluta ársins, meðan eiginkona hans hafi verið við nám í Reykjavík.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 18. janúar 1984, gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Umboðsmaður kæranda byggir kröfu sína um hinn umþrætta frádrátt á leiðbeiningum ríkisskattstjóra við útfyllingu skattframtals einstaklinga árið 1982.

Sjónarmiðið að baki þeirrar reglu ríkisskattstjóra var að leyfa til frádráttar frá tekjufærðu hlunnindamati sömu fjárhæð og færð var til tekna í þeim tilvikum þegar aðili nýtur húsnæðishlunninda utan heimilissveitar sinnar og fjarlægð milli heimilissveitar og dvalarstaðar hamlar búsetu í heimilissveit.

Orðalag fyrrgreindrar reglu ríkisskattstjóra verður hins vegar ekki talið ótvírætt gefa þessa niðurstöðu.

Í tilviki kæranda virðist hann eiga rétt á hinum umþrætta frádrætti enda hafi íbúðarhúsnæði í eigu hans ekki verið nýtt.

Fyrir liggur í málinu að húsnæði kæranda að D-götu, var notað á árinu 1981 af fjölskyldu kæranda, ýmist að staðaldri eða um stundarsakir.

Húsnæðið verður því talið notað og því ekki fyrir hendi skilyrði til hins umþrætta frádráttar.“

Eigi er deilt um það í máli þessu, að kærandi hafi haft endurgjaldslaus afnot íbúðarhúsnæðis vegna embættis síns á árinu 1981, sem reikna beri til skattskyldra hlunninda, sbr. 1. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eigi verður séð, að þess sé getið í launauppgjöf launagreiðanda, að hlunnindi þessi hafi verið látin kæranda í té, svo sem skylt er, sbr. 1. mgr. 92. gr. fyrrnefndra laga. Ágreiningurinn snýst um það að hve miklu leyti hlunnindi þessi verði talin kæranda til hagsbóta. Telur kærandi, að í hans tilviki sé eigi um hagsbætur að ræða þannig að hlunnindin komi að fullu til frádráttar samkvæmt 4. tl. A-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt þessu ákvæði er heimill frádráttur á þeim hluta hlunninda, sem veittur er með fatnaði, fæði, húsnæði og öðrum hliðstæðum hætti og innifalinn er í tekjum samkvæmt 1. tl. A-liðs 7. gr. en eigi er talinn manni til hagsbóta með hliðsjón af heimilisaðstæðum og öðrum atvikum að mati ríkisskattstjóra. Um þetta hefur ríkisskattstjóri sett reglur fyrir framtalsárið 1982 í skattmati, útgefnu 7. janúar 1982 í lið 3.7.0. Er þar tekið fram, að eigi launþegi íbúðarhúsnæði eða leigi íbúðarhúsnæði til eigin nota, sem ekki er notað, meðan hann nýtur húsnæðishlunninda skuli leyfa honum sem frádrátt frá hlunnindamati húsnæðis sömu fjárhæð og honum bar að telja til tekna, sbr. lið 2.2.4. Var tekjufærsla kæranda í samræmi við þennan lið í skattmatinu. Kærandi á íbúðarhúsnæði í Kópavogi. Fram hefur komið, hversu notkun þess var háttað og aðstæður að öðru leyti.

Að virtum aðstæðum kæranda þykir hann eigi hafa sýnt fram á að hin umdeildu hlunnindi hafi ekki verið honum til hagsbóta. Er því kröfu hans synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja