Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 117/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 13. gr., 31. gr. 12. tl., 44. gr. 1. mgr. 1. ml., 55. gr. 1. mgr. 1. tl.  

Fyrning — Söluhagnaðarfyrning — Varasjóður — Tekjufærsla varasjóðs — Fyrning skattskylds hluta söluhagnaðar af fyrnanlegum eignum — Hluthafalán — Sérstök fyrning — Skattalegur varasjóður — Skattskyld ráðstöfun varasjóðs

Málavextir eru þeir, að kærandi hafði myndað skattalegan varasjóð samkvæmt ákvæðum 12. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fjárhæð varasjóðsins nam kr. 13.330 í lok ársins 1982. Að fenginni sundurliðun viðskiptamanna taldi skattstjóri bera að færa kæranda téðan varasjóð til tekna að viðbættu 25% álagi með vísan til 1. tl. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna lána kæranda til hluthafa.

Þessari ákvörðun skattstjóra hefur verið mótmælt af hálfu kæranda í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 10. nóvember 1983, og því haldið fram, að ekki sé um það að ræða, að hluthöfum hafi verið veitt lán óviðkomandi rekstri hlutafélagsins, þar sem félagið sé hætt rekstri og bíði slita. Sé því fremur um fyrirfram greiddan arð að ræða vegna slita, þótt geymdur sé á viðskiptareikningi. Til vara er þess farið á leit, að notuð verði fyrning samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, jafnhá söluhagnaði að fjárhæð kr. 36.372. Áður hafi verið notuð slík fyrning að fjárhæð kr. 21.312 þannig að ónotaðar séu eftirstöðvar að fjárhæð kr. 15.060 til slíkrar fyrningar.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 2. janúar 1984, gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Að aðalkröfu kæranda verði hafnað.

Fyrir liggur að kærandi veitti hluthöfum fyrirgreiðslu í formi lána. Þykir það ótvírætt skattskyld ráðstöfun á varasjóði skv. skýru ákvæði 1. tl. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt.

Fallist er á varakröfu kæranda.“

Ljóst þykir, að um hafi verið að ræða skattskylda ráðstöfun varasjóðs samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ber því að telja fjárhæð varasjóðsins til skattskyldra tekna að viðbættu 25% álagi á ráðstöfunarárinu samkvæmt 3. ml. 54. gr., sbr. 2. mgr. 55. gr. nefndra laga. Er aðalkröfu kæranda því hafnað. Samkvæmt varakröfu sinni krefst kærandi viðbótarfyrningar samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þannig að fjárhæð þessarar fyrningar verði jafnhá söluhagnaði svo sem fyrr er getið. Eigi getur kærandi þess, hvaða eignir hann kýs að fyrna um þá viðbótarfjárhæð, sem um ræðir, og er kröfugerðin því óglögg að þessu leyti. Samkvæmt ársreikningi og fyrningarskýrslu koma þó aðeins tvær bifreiðar til álita í þessu skyni. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af ákvörðunum kæranda sjálfs um hluta nefndra fyrningar þykir eftir atvikum mega ákveða fyrninguna svo, að bifreiðin í — 000 verði fyrnd svo sem lög leyfa, en það, sem þá stendur eftir af lögleyfðri og umkrafðri fyrningarfjárhæð, verði fyrnt af bifreiðinni Í — 0000.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja