Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 140/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. C-liður 1. tl. og 2. tl.  

Sjómannafrádráttur — Fiskimannafrádráttur — Lögskráning — Útgerðarmaður — Lög-skýring — Sönnun — Útgerðarstjóri — Landmaður

Hinar kærðu breytingar sem skattstjóri gerði á skattframtali kæranda voru þær að hann felldi niður sjómannafrádrátt 26.010 kr. og fiskimannafrádrátt 17.850 kr. Forsendur skattstjóra fyrir framangreindum breytingum voru, að samkvæmt upplýsingum lögskráningarstjóra hefði kærandi ekki verið lögskráður á fiskiskip árið 1982. Þess ber að geta, að kærandi er eigandi bátanna m/s A. og m/s B.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar. Fram kemur að kærandi starfi í fullu starfi við útgerð eigin báta. Sem slíkur gangi hann í öll störf útgerðarstjóra og útvegi það sem til reksturs bátanna þurfi, „daglega sem sjaldan, smátt jafnt sem stórt“. „Vinnutími og afkoma hans ræðst af úthaldi bátanna rétt eins og um sjómennina, og starf hans er við sjómennsku og fiskveiðar.“ Af þessum ástæðum beri kæranda skýlaus réttur til frádráttar frá tekjum af sjómennsku og fiskveiðum í samræmi við það, að þaðan séu tekjurnar komnar.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda dags. 8. febrúar 1984 er svohljóðandi:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Forsendur skattstjóra fyrir niðurfellingu á sjómanna- og fiskimannafrádrætti byggja á því að kærandi hafi ekki verið lögskráður á skip á árinu 1982 og því hvorki stundað sjómennsku né fiskveiðar.

Af kæru kæranda og upplýsingum, er fram koma í öðrum gögnum málsins, virðist kærandi vera útgerðarstjóri tveggja báta og starfi sem slíkur í landi.

Kærandi verður því ekki talinn njóta áðurnefndra frádrátta þar sem hann verður sem landmaður ekki talinn fullnægja skilyrðum í 2. tl. C-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.“

Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á, að hann uppfylli skilyrði 1. og 2. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er úrskurður skattstjóra því staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja