Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 150/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 67/1971, 14. gr., 35. gr.   Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tl. 2. ml.  

Skattskyldar tekjur — Barnalífeyrir — Örorka — Tryggingastofnun ríkisins — Almannatryggingar — Lögskýring — Skattfrjálsar tekjur — Barnsmeðlag — Lögskýringargögn — Örorka foreldris — Barnalífeyrir vegna örorku foreldris

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 22. júlí 1983, tilkynnti skattstjóri eiginkonu, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hennar, að barnalífeyrir að fjárhæð kr. 36.831, sem greiddur var vegna örorku hennar, hefði verið færður til tekna í reit T 2 í skattframtalinu. Þessari breytingu mótmælti umboðsmaður kæranda í kæru, dags. 23. ágúst 1983, og vísaði til 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem svo væri kveðið á um, að barnalífeyrir, sem greiddur væri samkvæmt 14. gr. almannatryggingalaga, væri undanþeginn skattskyldu. Barnalífeyrir sá, sem um ræddi, væri greiddur samkvæmt 1. mgr. 14. gr. almannatryggingalaganna og væri því undanþeginn skattskyldu. Með úrskurði, dags. 17. október 1983, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til þess, að samkvæmt 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri einungis sá barnalífeyrir, sem greiddur væri samkvæmt 14. og 35. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, undanþeginn skattskyldu, ef svo stæði á, að annað hvort foreldri væri látið eða barn væri ófeðrað. Barnalífeyrir, sem greiddur væri vegna örorku foreldris væri að fullu skattskyldur.

Af hálfu kærenda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 18. nóv. 1983, og þess krafist sem áður, að hinn umdeildi barnalífeyrir verði ekki skattlagður. Ekki verði af nokkrum líkum ráðið, að ætlan löggjafans hafi verið að meðhöndla barnalífeyri til öryrkja á annan hátt en barnalífeyri til einstæðra foreldra og giftra foreldra, sem átt hafi börn með öðrum en maka sínum. Ekki liggi heldur fyrir, að slíkur lífeyrir hafi verið skattlagður til þessa, hvorki af Skattstofu Reykjanesumdæmis né öðrum skattstofum.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 18. janúar 1984, gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Ákvæði 2. ml. 2. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 verður ekki skilið á annan veg en að einungis sé verið að undanþiggja barnalífeyri skattskyldu í þeim tilvikum þegar annað hvort foreldra er látið eða barn er ófeðrað.“

Barnalífeyrir sá, sem um er deilt í máli þessu, mun hafa verið greiddur á grundvelli 1. mgr. 14. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 11/1982, um breytingu á þeim lögum. Þar er svo kveðið á um, að barnalífeyrir skuli greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra barnsins eða barnið sjálft átt hér lögheimili a.m.k. þrjú síðustu árin, áður en umsókn er lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skal greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Í 2. ml. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, segir, að hvorki skuli teljast til tekna barnalífeyrir, sem greiddur er samkvæmt 14. gr. og 35. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, vegna barns, ef annað hvort foreldri er látið eða barn er ófeðrað, né heldur barnsmeðlag að því leyti, sem það takmarkast af fjárhæð barnalífeyris samkvæmt 14. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, eins og greinin var upphaflega, var greiðsla barnalífeyris bundin við það, að faðir væri örorkulífeyrisþegi. Í 3.mgr. greinarinnar var Tryggingaráði hins vegar m.a. heimilt að greiða barnalífeyri með barni hjóna, sem yrðu fyrir verulegum tekjumissi eða útgjaldaaukningu sökum örorku eiginkonu. Þessu var breytt með 3. gr. laga nr. 96/1971, um breyting á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971, á þann veg, að barnalífeyrir skyldi greiddur, ef annað hvort foreldra væri örorkulífeyrisþegi og fyrrnefnt heimildarákvæði um greiðslu barnalífeyris vegna örorku móður var fellt niður. Nú gildir um þetta 1. gr. laga nr. 11/1982 eins og fram kemur hér að ofan. Þegar þessi forsaga er virt, eðli bóta þeirra, sem hér um ræðir og önnur þau atriði, sem máli þykja skipta í þessu sambandi, þykir verða að fallast á það með kæranda, að greiðsla umrædds barnalífeyris eigi ekki að valda skattgreiðslum hjá honum. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja