Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 155/1984

Gjaldár 1983

Lög nr, 75/1981, 31. gr. 7. tl., 32. gr., 33. gr., 96. gr., 99. gr.  

Rekstrartap, yfirfæranleiki — Yfirfæranlegt rekstrartap — Fyrnanleg eign — Fyrning — Fyrningartími — Upphaf fyrningar — Málsmeðferð áfátt — Kæranleiki — Kæruheimild

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 25. júlí 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að yfirfæranlegt tap hefði verið ákveðið kr. 3.470 í stað kr. 27.431 með tilvísan til þess, að samkvæmt bréfi skattstjóra, dags. 20. janúar 1983, hefði yfirfæranlegt tap frá fyrri árum ekki verið leyft. Samkvæmt framtalsgögnum árið 1983 hafði kærandi tekjur af útleigu véla og tækja. Til gjalda var m.a. færð fyrning áhalda þessara. Rekstrartap var á þessari starfsemi að fjárhæð kr. 3.470, sem skattstjóri féllst á sem yfirfæranlegt rekstrartap. Yfirfæranlegu tapi frá fyrri árum, sbr. að framan, hafnaði skattstjóri hins vegar. Í nefndu bréfi skattstjóra, dags. 20. janúar 1983, sem varðaði skattframtal kæranda árið 1982 er m.a. tekið fram, að fyrning véla og tækja sé því aðeins heimil, að hlutirnir séu notaðir til öflunar tekna ársins, sbr. 1. tl. 31. gr. og 32. gr. laga nr. 75/1981. Yfirfæranlegt tap vegna fyrninga verði því ekkert. Samkvæmt skattframtali kæranda árið 1982, sem fyrir liggur í málinu, kemur fram, að það rekstrartap frá fyrri árum, sem skattstjóri strikaði út, stafaði einvörðungu af gjaldfærðum fyrningum tekjuárin 1980 og 1981. Svar barst við bréfi skattstjóra, dags. 20. janúar 1983, og er svarbréfið, dags. 26. s.m. Ekki er þar gerð nein athugasemd við niðurstöðu skattstjóra varðandi yfirfæranlegt rekstrartap, en send gögn um tiltekna umspurða liði. Ekki virðist skattstjóri neitt frekar hafa aðhafst þá í framhaldi af þessu bréfi sínu.

Útstrikun skattstjóra á yfirfæranlegu tapi með bréfi, dags. 25. júlí 1983, var mótmælt í kæru, dags. 8. ágúst 1983. Þar sagði m.a. svo: „Ég hefi lagt þann skilning í málefni þessi að ég eigi rétt á að geyma töp af atvinnurekstri, þótt ég geti ekki notfært mér þau strax á næsta ári eftir að þau myndast, þar sem ég á þær vélar sem ég hefi haft af tekjur og mér ber að afskrifa árlega án tillits til notkunar.“

Með úrskurði, dags. 15. desember 1983, ákvað skattstjóri, að fyrri ákvörðun skyldi óbreytt standa. Kærandi teldi sig hafa myndað hið umdeilda tap með fyrningu trésmíðaáhalda gjaldárin 1981 og 1982. Af skattframtölum kæranda umrædd ár yrði ekki ráðið, að tækin hefðu verið nýtt til öflunar tekna í eigin atvinnurekstri eða útleigu. Heimild til fyrningar væri því ekki fyrir hendi, sbr. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 11. janúar 1984, og þess krafist, að umrædd yfirfæranleg töp frá fyrri árum verði viðurkennd.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 1984, er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Skattstjóri tilkynnti kæranda um niðurfellingu rekstrartapa frá fyrri árum með bréfi sínu, dags. 25. júlí 1983, á þeim grundvelli, að skattstjóri hefði áður um töp þessi fjallað og eigi á þau fallist. Um það mál liggur einungis fyrir bréf skattstjóra, dags. 20. janúar 1983, varðandi gjaldárið 1982, þar sem kæranda er m.a. boðað með vísan til 96. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að eigi verði fallist á yfirfæranlegt tap vegna fyrninga. Svarfrestur var gefinn til 31. janúar 1982. Svarbréf kæranda varðaði önnur atriði svo sem áður hefur komið fram. Málinu virðist eigi hafa verið fylgt frekar fram. Til þess ber að líta, að rekstrartöp eru nú sérstaklega kæranleg, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Telja verður, að engin ákvörðun skattstjóra varðandi ágreiningsefnið hafi verið til lykta leidd, sbr. ákvæði 96. gr. laga nr. 75/1981. Varð því eigi á slíku byggt gjaldárið 1983, sbr. bréf skattstjóra, dags. 25. júlí 1983. Þrátt fyrir þessa hnökra á málsmeðferð skattstjóra þykja þó eigi alveg næg efni til þess að ómerkja hina kærðu breytingu. Með vísan til 32. gr., sbr. 7. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og að virtum málsatvikum þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra um meðferð hinna umdeildu rekstrartapa.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja