Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 172/1984

Gjaldár 1979-1980

Lög nr. 68/1967   Lög nr. 48/1975   Lög nr. 75/1981, 97. gr., 99. gr., 100. gr.  

Kærufrestur — Upphaf kærufrests — Lok kærufrests — Gjaldskylda til Iðnlánasjóðs — Iðnlánasjóður — Iðnaðarmálagjald — Tímamörk endurákvörðunar — Iðnaður — Lagmetisiðnaður

Málavextir eru þeir, að þann 4. maí 1983 tilkynnti skattstjóri kæranda, að á hann væru lögð iðnlánasjóðsgjald og iðnaðarmálagjald. Skattstjóri ákvarðaði kæranda stofna til iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds gjaldárin 1979 - 1982 að báðum árum meðtöldum og lagði umrædd gjöld á í samræmi við þá ákvörðun.

Í bréfi til skattstjóra, dags. 6. júní 1983, í framhaldi af kæru, dags. 3. júní 1983, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningu gjaldanna gjaldárin 1979 og 1980 og krafðist þess að þau yrðu felld niður. Í röksemdum kærunnar segir m.a. að skv. seinni málsgrein 97. gr. laga nr. 75/1981, sé skattstjóra ekki heimilt að endurákvarða álagningu gjalda nema vegna tveggja síðustu ára sem næst eru á undan árinu 1983. Jafnframt er þess getið, að með skattframtölum kæranda vegna hinna kærðu álagningarára hafi fylgt fullnægjandi upplýsingar þannig að gjöld þessi hefði mátt ákveða um leið og önnur opinber gjöld. Fullyrðing þessi sannaðist á því að skattstjóri óskaði ekki eftir viðbótarupplýsingum frá kæranda áður en endurálagningin var framkvæmd.

Með kæruúrskurði, dags. 2. september 1983, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint framkominni. Síðasti kærudagur til skattstjóra hafi verið 2. júní en kæra kæranda hafi verið póstlögð þann 3. júní 1983.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar. Þar er þess m.a. getið að í endurákvörðun skattstjóra frá 4. maí 1983 sé þess getið að kærufrestur sé 30 dagar og síðasti dagur kærufrests 2. júní, sbr. kæruúrskurð hans frá 2. september 1983. Jafnframt segir í kæru til ríkisskattanefndar:

„Ef kærufrestur er 30 dagar þá er hann 30 dagar. Í maí mánuði eru 31 dagur og þar með hlýtur 3. júní að vera síðasti kærudagur, annar skilningur er að áliti umbjóðanda míns hártogun. Það hlýtur, og nánast verður að vera staðreynd að um miðnætti þann 5. og 6. maí sé fyrsti dagur frestsins liðinn og þar með renni fresturinn út að kvöldi 3. júní.

Að teknu tilliti til framanritaðs þá hefur kæran borist nógu fljótt og á því að fá efnislega meðferð, sem ég hér með fer fram á að hún fái hjá nefndinni.“

Kröfugerð ríkisskattstjóra f ,h. gjaldkrefjenda, dags. 10. október 1983, er svohljóðandi:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Í kæru setur umboðsmaður kæranda fram skýringu á tímatakmörkum kærufrests og telur hann fyrsta dag kærufrests vera daginn eftir póstlagningardag endurákvörðunar skattstjóra.

Umboðsmaður kæranda mótmælir ekki að endurákvörðun skattstjóra hafi verið póstlögð þann 4. maí 1983 og miðast upphaf kærufrests því ótvírætt við þann dag.

Í 99. gr. laga nr. 75/1981 kemur fram að breytingar skattstjóra séu kæranlegar innan 30 daga frá og með póstlagningardegi tilkynningar um endurákvörðun.

Að áliti ríkisskattstjóra telst fyrsti dagur kærufrests því vera póstlagningardagurinn sem í tilviki kæranda var 4. maí. Síðasti dagur kærufrests var því 2. júní eins og réttilega kemur fram í úrskurði skattstjóra.

Kæra kæranda telst því sannanlega hafa borist skattstjóra of seint og af hálfu kæranda hafa ekki komið fram ástæður er réttlæti að taka kæruna til efnismeðferðar.“

Eftir atvikum er kæran til ríkisskattanefndar tekin til efnismeðferðar. Ómótmælt er með aðilum máls þessa að kærandi hafi verið skyldur til greiðslu hinna kærðu gjalda, sem á voru lögð samkvæmt lögum nr. 68/1967, um Iðnlánasjóð, með síðari breytingum og lögum nr. 48/1975 um iðnaðarmálagjald. Samkvæmt framtalsgögnum hefur kærandi fengið lán úr Iðnlánasjóði m.a. á árinu 1979, en félagið var stofnað á árinu 1978 í þeim tilgangi að reka lagmetisiðnað. Að þessu athuguðu þykja kröfur kæranda í máli þessu eigi nægum rökum studdar. Að svo vöxnu er eigi fallist á kröfur hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja