Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 176/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 63. gr. 3. mgr., 106. gr.  

Sambýlisfólk — Samsköttun — Sambúðarslit — Skilyrði samsköttunar sambýlisfólks — Sambúðartími — Álag

1. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að beita 15% álagi á gjaldstofna við álagningu vegna síðbúinna framtalsskila kæranda. Kærandi kveður ástæður skiladráttar vera þá að hann hefði falið öðrum að annast um framtalsskil af sinni hálfu. Hann hafi á þeim tíma er skila átti framtali verið við störf um borð í togara. Hafi hann treyst því að skil af sinni hálfu drægjust ekki. Fer kærandi fram á að álagsbeiting skattstjóra verði felld niður með tilliti til þessara ástæðna.

2. Undir þessum kærulið er tekið fram að kærandi hafi talið fram með sambýliskonu sinni gjaldárið 1983 samkvæmt reglum um framtal sambýlisfólks. „Slit á samvistum fór fram 31. júlí 1982 og framteljandi undirritaði meðlagsúrskurð hjá yfirborgardómara í Reykjavík því til staðfestu. Varðandi þetta vísast í fylgiskjal með skattframtali 1983 sem ljósrit fylgir af hér með, og óskast tekið til greina, sbr. b. á bls. 7. Í leiðbeiningum Ríkisskattstjóra 1983.“, svo sem greint er frá í kærunni til ríkisskattanefndar.

Með bréfi, dags. 2. janúar 1984 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að óviðráðanleg atvik hafi komið í veg fyrir lögmæt framtalsskil af hans hálfu.“

Um 1. Ljóst er, að kærandi hefur eigi sýnt fram á þau atvik, sem leiði til þess að fella beri niður álag samkvæmt 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eftir atvikum og að þessu sinni þykja hins vegar eigi efni til þess að beita heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. sömu laga.

Um 2. Kröfu kæranda undir þessum tölulið þykir verða að skilja svo, að krafist sé skattlagningar eftir þeim reglum, sem um hjón gilda, til þess tíma, er sambúðarslit urðu. Eigi er unnt að verða við þessari kröfu að svo stöddu, þar sem eigi liggur fyrir beiðni fyrrum sambýliskonu kæranda þar um, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er þessu kæruatriði vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja