Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 190/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. og B-liður, 15. gr., 20. gr.  

Atvinnurekstur — Gróðaskyn — Bifreiðaviðskipti — Söluhagnaður — Lausafé — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Ákvörðun söluhagnaðar lausafjár — Bifvélavirki — Kaupandi — Hlunnindi

Málavextir eru þeir, að með skattframtali kæranda árið 1983 fylgdi sérstök greinargerð um eignabreytingar, þar sem greint var frá kaupum og sölu bifreiða. Með bréfi, dags. 11. maí 1983, skoraði skattstjóri á kæranda að gera ítarlega grein fyrir því, hvort bifreiðavið­skipti hans væru stunduð í atvinnu- eða hagnaðarskyni, þ.e. hann legði annað hvort fram rekstrar- og efnahagsreikning ásamt lögboðnum fylgigögnum eða greinargerð um tilgang bifreiðaviðskiptanna. Í svarbréfi sínu, dags. 1. júní 1983, tók kærandi fram, að bifreiðaviðskipti hans væru ekki stunduð í atvinnuskyni og benti í því sambandi á, að tvær bifreiðanna, sem seldar hefðu verið á árinu 1982 hefðu verið seldar vátryggingarfélögum, ónýtar eftir árekstra. Með bréfi, dags. 25. júlí 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að tekjur hans á skattframtali árið 1983 hefðu verið hækkaðar um 128.000 kr. að viðbættu 25% álagi, þar sem skýringar hans þættu alls ófullnægjandi og skattframtalið svaraði ekki til krafna 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá var stofn til aðstöðugjalds áætlaður 150.000 kr. að viðbættu 25% álagi. Tók skattstjóri fram, að samkvæmt 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri hagnaður af sölu ófyrnanlegs lausafjár skattskyldur nema gert væri líklegt, að sala þess félli ekki undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða eignanna hefði ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði.

Með bráðabirgðakæru, dags. 25. ágúst 1983, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningunni. Rökstuðningur barst í bréfi, dags. 26. ágúst 1983. Var því mótmælt, að bifreiðaviðskipti kæranda væru gerð í atvinnu- eða hagnaðarskyni. Var gerð grein fyrir einstökum bifreiðaviðskiptum og bent á, að í tveimur tilfellum hefði verið um bótagreiðslu vátryggingafélaga að ræða vegna altjóns að því er virðist. Þá fylgdu bréfinu nótur vegna varahlutakaupa hjá Ú. hf. Umboðsmaður kæranda vék að því, að hafa bæri í huga almennar verðlagsbreytingar og mismunandi greiðsluskilmála, þegar söluhagnaður væri virtur.

Með úrskurði, dags. 13. desember 1983, tók skattstjóri kæruna til úrlausnar. Skattstjóri tók fram í úrskurðinum, að hann hefði byggt ákvörðun sína um teknahækkun kæranda á eftirgreindum atriðum: 1. Keyptar hefðu verið 5 bifreiðar á árinu 1982 og 6 seldar. 2. Kærandi væri starfandi bifvélavirki hjá Ú. hf. 3. Kærandi hefði keypt 3 bifreiðar hjá Ú hf. á verði, sem virtist vera verulega undir markaðsverði, ef tekið væri mið af söluverði eða matsverði. 4. Þeim sem teldi söluhagnað lausafjár skattfrjálsan á grundvelli 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, bæri að rökstyðja þá skoðun sína, þ.e.a.s. gera það líklegt, að salan félli ekki undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi hans eða eignanna hefði ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði. Umtalsverður hagnaður hefði orðið á bílaviðskiptum kæranda, en þó hefði engin tilraun verið gerð af hans hálfu, hvorki í skattframtali né svarbréfi, að færa rök fyrir því, að söluhagnaður væri skattfrjáls. Þá segir svo í úrskurði skattstjóra:

„Að virtu umfangi bifreiðaviðskipta kæranda og öðrum þeim atriðum sem liggja fyrir í málinu um þessi viðskipti er fallist á að ekki hafi verið um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi að ræða. Hins vegar þykir bera að ákvarða söluhagnað kæranda eftir ákvæðum 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981 af sölu 3 bifreiða, þ.e. M árgerð 1977 18.047 kr., W árgerð 1978 19.602 kr., og K árgerð 1966 23.000 kr. En ekki verður annað séð en að vinnuveitandi kæranda hafi verið að umbuna honum, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 75/1981, með því að selja honum bifreiðar á verulega lægra verði en markaðsverði. Ennfremur er tekið mið af aðstöðu kæranda, starfsmenntun, endurbótum á bifreiðum og skömmum eignarhaldstíma.

Ákvörðun söluhagnaðar, skv. skattalögum, er óháð söluskilmálum, sem ráða söluverði, að öðru leyti en því að skv. 27. gr. laga nr. 75/1981 er í vissum tilfellum heimilt að dreifa skattlagningu milli ára (án þess þó að það hafi áhrif á upphæð söluhagnaðarins).

Söluhagnaður 60.649 kr. færist í reit 71 á framtali yðar.

Áætlaðar viðbótartekjur og stofn til aðstöðugjalds falla niður.“

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda veri skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 13. janúar 1984. Er ákvörðun skattstjóra um tekjufærslu söluhagnaðar mótmælt. Bent er á, að í tveimur tilfellum hefði komið til bílaskipta vegna áreksturstjóns. Að þessu fráteknu þá hefðu aðeins 3 bifreiðar verið keyptar og 4 seldar, þar af hefði ein bifreiðanna verið tekin upp í við sölu. Umfang þessara bifreiðaviðskipta væri ekki meira en svo, en eðlilegt gæti talist. Þá yrði að telja eðlilegt, að bifvélavirki gerði við bifreiðar sínar sjálfur. Umboðsmaðurinn mótmælti því, að kaupauki skv. 1. mgr. 7. gr. skattalaga skyldi metinn út frá 1. mgr. 15. gr. laganna. Þegar um bifreiðaviðskipti sé að ræða, ráðist verð af greiðsluskilmálum í stað þess, að vextir séu reiknaðir á þann hluta kaupverðs, sem lánaður sé og þar af leiðandi ráðist söluhagnaður af greiðsluskilmálum. Það væri því ósanngjarnt að ákveða kaupauka skv. 1. mgr. 15. gr. skattalaganna.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 1984, krefst ríkisskattstjóri þess, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með svofelldum rökum: „Ákvörðun skattstjóra byggir á því að kærandi hafi notið óeðlilega hagstæðra kjara í viðskiptum við atvinnurekanda sinn. Þessari staðhæfingu hefur ekki verið mótmælt með rökum af hálfu kæranda né umboðsmanns hans.“

Sýnt er, að niðurstöðu sína í hinum kærða úrskurði styður skattstjóri að verulegu leyti við það, að bifreiðar þær, sem kærandi keypti af vinnuveitanda sínum, U hf., hafi að nokkru verið skattskyldur kaupauki, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 75/1981, enda er það eingöngu sala, þ.m.t. altjón, þeirra bifreiða, sem sætir uppgjöri skattskylds söluhagnaðar af hálfu skattstjóra samkvæmt 1. mgr. 15. gr. nefndra laga. Skattstjóri tekur hins vegar fram, að um sé að ræða söluhagnað og fjallar að öðru leyti um kæruefnið sem slíkt. Það þykir engan veginn fá staðist að blanda saman hugsanlegum skattskyldum kaupauka og ákvörðun og uppgjöri söluhagnaðar saman með þeim hætti, sem skattstjóri hefur gert. Eigi þykja þó næg efni til þess að ómerkja hina kærðu ákvörðun skattstjóra út af þessu. Á þá niðurstöðu skattstjóra er unnt að fallast, að bifreiðaviðskipti kæranda árið 1982 teljist eigi atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi og ákvörðun söluhagnaðar af þessum viðskiptum fari eftir 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda verður eigi talið, að virtum öllum málsatvikum, að kærandi hafi sýnt fram á, að hann geti notið skattfrelsisákvæða 2. mgr. 15. gr. nefndra laga. Með tilliti til framanritaðs og að því athuguðu, að sú fjárhæð, sem skattstjóri færði kæranda til tekna sem skattskyldan söluhagnað er sýnilega eigi of há, þykir eigi efni til þess að taka tillit til krafna kæranda. Svo sem málið liggur fyrir þykir rétt að láta fjárhæð þá sem skattstjóri byggði á sem skattskyldum söluhagnaði óhaggaða standa.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja