Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 221/1984

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr., 30. gr. 1. mgr. A-liður 3. tl.  

Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Ferðakostnaður — Launauppgjöf — Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar — Sönnun — Vanreifun — Frávísun — Launaskýrslu áfátt

Málavextir eru þeir, að kærandi fékk greiddan ökutækjastyrk að fjárhæð kr. 36.400 frá vinnuveitanda sínum, Xbanka Íslands, á árinu 1982. Kærandi færði þessa fjárhæð til tekna í skattframtali sínu árið 1983 og jafnframt sömu fjárhæð til frádráttar sem kostnað á móti styrknum. Með skattframtalinu fylgdi greinargerð um ökutækjastyrkinn, dags. 10. janúar 1983. Ekki var þar gerð grein fyrir ökutæki, akstri og rekstrarkostnaði. Skýringu á þessu var að finna í athugasemdadálki eyðublaðsins, þar sem kom fram að kærandi hefði ekki ökuréttindi og ætti ekki bifreið. Tók hann þar fram, að „kostnaður á móti ökutækjastyrk“ væri ekki rekstrarkostnaður bifreiðar í hans tilviki. Hann yrði hins vegar að greiða ferðakostnað milli staða í formi fargjalda með leigubifreiðum eða strætisvögnum. Fór hann þess á leit, að slíkur kostnaður að fjárhæð kr. 36.400 yrði viðurkenndur frádráttarhæfur á móti ökutækjastyrk. Þá fylgdi skattframtalinu staðfesting X banka Íslands, dags. Í janúar 1983, á því að kærandi hefði fengið greiddan ökutækjastyrk fyrir árið 1982 samkvæmt reglum um kílómetragjald, sbr. ákvæði í kjarasamningum starfsmanna bankanna sem væru hliðstæð staðfestum reglum um opinbera starfsmenn.

Skattstjóri tilkynnti kæranda fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1983, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1983, að kostnaður færður á móti ökutækjastyrk hefði verið felldur niður, þar sem ekki teldist heimild til slíks frádráttar, sbr. A-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, með því að engin bifreið væri í eigu kæranda.

Kærandi kærði þessa breytingu skattstjóra með kæru, dags. 4. ágúst 1983. Kærandi gerði grein fyrir ástæðum til þess, að hann hefði ekki ökuréttindi. Hann hefði ekki nægilega góða sjón til þess að öðlast slík réttindi. Sá kostnaður, sem hann yrði fyrir og kæmi á móti ökutækjastyrk væri því ekki rekstrarkostnaður eigin bifreiðar heldur gjald fyrir afnot af ökutækjum annarra. Hins vegar sé greiðslan ætluð vegna þess kostnaðar, sem kærandi hafi af því að komast á milli staða, og vinnuveitandi telji sér skylt að greiða. Með tilliti til þessa hafi sama fjárhæð og tekjufærð var sem ökutækjastyrkur verið færð til frádráttar í reit 32 í skattframtalinu. Kærandi benti á, að frádráttarheimild 3. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, væri ekki bundin því skilyrði, að bifreið væri í eigu framteljanda svo sem skattstjóri byggði á. Krafðist hann þess, að frádráttarfjárhæð sú, sem hann hefði tilfært í skattframtalinu, yrði látin óbreytt standa, ella virtist hann sæta skattlagningu sérstaklega vegna sjóndeprunnar sem kæmi í veg fyrir, að hann gæti notað eigin bifreið, en firrti hann ekki þeim ferðakostnaði, sem hann teldi að verið væri að greiða með ökutækjastyrknum.

Með úrskurði, dags. 9. desember 1983, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda með vísan til 3. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og matsreglna ríkisskattstjóra skv. skattmati framtalsárið 1983 og með þeim rökum, að kærandi hefði hvorki í kæru né gögnum með skattframtali gert grein fyrir sannanlegum kostnaði á móti ökutækjastyrk, svo sem m.a. væri krafist í skattmatinu.

Með kæru, dags. 6. janúar 1984, skaut kærandi úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er krafa kæranda sú, að breytingu skattstjóra verði hnekkt og margnefndur frádráttarliður fái að standa óhaggaður. Heldur kærandi fram sömu málsástæðum og lagarökum og áður.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 28. febrúar 1984:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Kærandi hefur ekki sýnt fram á kostnað af akstri í þágu vinnuveitanda og þá verða ekki talin vera fyrir hendi skilyrði hins umbeðna frádráttar skv. 3- tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og matsreglur ríkisskattstjóra.“

Á það verður að fallast með ríkisskattstjóra, að kærandi geti eigi stutt kröfu sína um frádrátt ferðakostnaðar síns með skírskotun til 3. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Á hitt verður að líta, þegar atvik eru virt og aðstæður kæranda, að greiðsla vinnuveitanda kæranda verður eigi talin vera fyrir afnot af bifreið, þ.e.a.s. ökutækjastyrkur, og er launauppgjöf og greinargerð vinnuveitanda því áfátt að þessu leyti. Svo sem öllum atvikum er háttað þykir bera að virða greiðsluna til kæranda svo, að um sé að ræða endurgreiddan útlagðan kostnað vegna ferða kæranda í þágu vinnuveitanda. Eigi sýnist ágreiningur um, að starfi kærandi fylgi einhver slíkur kostnaður. Kærandi þykir hinsvegar eigi hafa gert þá grein fyrir þessum kostnaði, að unnt sé að taka kröfu hans til greina að svo vöxnu. Þykir því verða að vísa kröfu hans frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja