Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 244/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 35/1960   Lög nr. 75/1981, 63. gr., 81. gr.  

Hjón — Sköttun hjóna — Samvistarslit — Lögheimili — Heimilisfesti — Skattlagningarstaður — Ákvörðun eignarskattsstofns — Skattmeðferð hjóna

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1983. Er kæruefnið sú ákvörðun skattstjóra að miða eignarskattsálagningu við það, að kærendur, sem eru hjón, hafi eigi verið í samvistum í skilningi 81. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með því að samkvæmt þjóðskrá 1. desember 1982 voru kærendur ekki með sama heimilisfang. Í kæru er gerð grein fyrir ástæðum þess að kærendur hafi ekki sama heimilisfang og fullyrt að um samvistarslit sé ekki að ræða. Eiginmaður sé skólastjóri í D-hreppi og hafi vegna þess starfs flutt heimilisfang sitt þangað, en eiginkona ekki. Dvelji þau í sjö mánuði á ári í D-hreppi en fimm mánuði á þeim stað, sem eiginkona er skráð með sitt heimilisfang, sem jafnframt er eldra heimilisfang eiginmanns.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 1984 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Eins og mál þetta liggur nú fyrir verður að telja að kæranda og eiginkonu hans hafi borið að telja fram sem hjón, sbr. 63. gr. skattalaga. Vísast um það atriði og til skýringar til 7. gr. laga um lögheimili.

Með vísan til ofanritaðs er fallist á að ríkisskattanefnd endurákvarði kæranda og eiginkonu hans gjaldstofna og gjöld þannig að farið verði eftir þeim reglum er giltu um sköttun hjóna gjaldárið 1983.

Rétt væri að nefndin gæfi kæranda og eiginkonu kost á að tjá sig um hvar þau vilji telja sitt sameiginlega heimili í árslok 1982 og verði þau skattlögð í því umdæmi sem það heimili er.“

Ákvörðun opinberra gjalda á kærendur vegna gjaldársins 1983 ber að haga eftir þeim reglum sem um hjón gilda og þeir vera skattlagðir þar sem þeir áttu lögheimili 1. desember 1982.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja