Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 245/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. mgr. 4. tl., 74. gr. 4. tl., 96. gr.  

Vörubirgðir — Niðurfærsla vörubirgða — Niðurfærsluheimild — Hámarksfjárhæð niðurfærslu vörubirgða — Matsverð vörubirgða — Verslun — Úreltar vörur — Vörubirgðir verslunar — Útsala — Vefenging skattframtals — Skattframtal tortryggilegt — Tískuvörur

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts á tilskildum tíma árið 1983 og sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Í framhaldi af kæru til skattstjóra, dags. 24. ágúst 1983, barst skattframtal kæranda til skattstjóra þann 26. september 1983. Með úrskurði, dags. 17. nóvember 1983, hafnaði skattstjóri skattframtalinu. Þær ástæður, sem skattstjóri gat um fyrir ákvörðun sinni voru, að kærandi eignfærði fasteignina F sem væri skv. skráningu eign annars aðila, að niðurfærslu vörubirgða væri af há, sbr. 4. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 og að kærandi greiddi engin laun að því er virtist og engin skýring gefin á því. Skattstjóri felldi hins vegar niður áætlun tekjuskatts- og eignarskattsstofna og lækkaði áætlun aðstöðugjaldsstofns.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. desember 1983. Er álögðum launaskatti mótmælt og höfnun skattframtals félagsins. Kærunni fylgdi afrit bréfs kæranda til skattstjóra, dags. sama dag. Það bréf framsendi skattstjóri ríkisskattanefnd með bréfi, dags. 14. desember 1983. Í því bréfi er rökstuðning fyrir kærunni að finna. Þar kemur fram, að verslunarhúsnæði Verslunarinnar D h.f. sé skráð eign fyrirtækisins og lagt fram veðbókarvottorð þar um. Þá er þess getið, að niðurfærsla vörubirgða hafi verið reiknuð 15% í stað 10% eins og heimilað sé í skattalögum. Tekið er fram, að vörubirgðir verslunarinnar séu orðnar gamlar og að mestu leyti óseljanlegar tískuvörur, aðallega gamlir skór. Engin innkaup fatnaðar hafi átt sér stað í 2 ár. Þá er þess getið, að verslunin greiddi engin laun, enda hafi hún ekki verið starfrækt sem slík í tvö ár, en einungis reynt að losna við vörur á útsölum til þess að standa undir kostnaði við húsnæðið. Verði hlutafélagið lagt niður á næsta ári.

Með bréfi, dags. 20. febrúar 1984, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu: „Með hliðsjón af framlögðum skýringum umboðsmanns kæranda þykir mega fallast á að skattframtal kæranda árið 1983 verði tekið til efnismeðferðar og álagður launaskattur felldur niður.“

Með vísan til skýringa kæranda, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra, eru kröfur kæranda í málinu teknar til greina þó þannig að leiðrétta þykir bera niðurfærslu vörubirgða, sbr. 4. tl. 1. mgr. 31. gr. og 4. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda verður að neyta annarra úrræða til þess að mæta úreldingu vara en hækkun niðurfærslu umfram lögleyfð mörk.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja