Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 143/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 67/1971 — 12. gr. — 33. gr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. og 2. tl.  

Skattskyldar tekjur — Almannatryggingar — Tryggingastofnun ríkisins — Slysadagpeningar — Örorkulífeyrir — Lífeyrir — Lífeyristryggingar almannatrygginga — Slysatrygging — Slysatryggingar almannatrygginga

Málavextir eru þeir, að kærandi fékk greiddan örorkulífeyri 31.666 kr. og slysadagpeninga 164.205 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 1989. Greiðslur þessar færði kærandi sér til tekna í tekjudálk 7.3 í skattframtali sínu árið 1990. Sættu greiðslur þessar skattlagningu við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990.

Af hálfu kæranda var álagningunni mótmælt í kæru, dags. 28. ágúst 1990, og taldi hann, að ekki bæri að skattleggja greiðslur þessar. Með kæruúrskurði, dags. 2. október 1990, vísaði skattstjóri kærunni frá með því að hún væri á misskilningi byggð. Samkvæmt 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væru greiðslur þessar skattskyldar.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 11. október 1990, og ítrekar hann þá kröfu sína, að bætur hans frá Tryggingastofnun ríkisins verði ekki skattlagðar.

Með bréfi, dags. 8. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Umræddar greiðslur eru skattskyldar skv. 1. og 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og er engin lagaákvæði að finna, er leysa tekjur þessar undan skattlagningu. Er kröfu kæranda því synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja