Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 247/1984
Gjaldár 1983
Lög nr. 75/1981, 96. gr.
Skattframtal, tortryggilegt — Vefenging skattframtals — Meðalálagning — Vörunotkun — Vörusala — Áætlun
Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts á tilskildum tíma árið 1983 og sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Skattstjóri móttók skattframtal kæranda þann 12. júlí 1983 skv. áritun skattstjóra á framtalið. Með kæru, dags. 16. ágúst 1983, fór umboðsmaður kæranda þess á leit, að álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1983 yrði hagað í samræmi við skattframtalið.
Með úrskurði, dags. 23. nóvember 1983, hafnaði skattstjóri því að byggja álagningu opinberra gjalda á hinu innsenda skattframtali með þeim rökum, að vörunotkun væri neikvæð um kr. 78.582 sem ekki fengi staðist og vörusala væri óeðlilega lítil miðað við framtalda kostnaðarliði, t.d. laun og vörukaup, sem þó væru óljós, sbr. fyrri athugasemd.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. desember 1983. Gefur umboðsmaður kæranda skýringar á birgðabreytingu svo og rekstri kæranda, þ. á m. tjóni, sem fyrirtækið hafi orðið fyrir í rekstri sínum svo sem nánar er gerð grein fyrir.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfu með bréfi, dags. 5. mars 1984:
„Af skýringum umboðsmanns kæranda í kæru verður eigi annað ráðið en framtal kæranda byggi á fremur óljósum grunni.
Ríkisskattstjóri getur því ekki fallist á að framtalið sé nægjanlega traustur álagningargrundvöllur. Hins vegar þykir mega fallast á að tekju- og eignarskattur gjaldárið 1983 falli niður.“
Ljóst þykir, að framtalsgögn kæranda séu þeim ágöllum haldin, að eigi verði álagning opinberra gjalda gjaldárið 1983 á þeim byggð. Með hliðsjón af framtalsgögnum þessum og skýringum kæranda í málinu, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra, þykja þó eigi efni til þess að gera kæranda að greiða tekjuskatt og eignarskatt.