Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 250/1984

Sölugjald 1978, 1979, 1980, 1981 og 1982

Reglugerð nr. 486/1982, 14. gr. 10. tl., 43. gr.   Lög nr. 75/1981, 97. gr.   Lög nr. 10/1960, 2. gr., 4. gr. d-liður, 7. gr. 8. tl, 21. gr. 2. mgr. og 8. mgr.  

Söluskattsskyld starfsemi — Söluskattur — Úrklippuþjónusta — Sjálfstæð starfsemi — Endurákvörðun — Tímamörk endurákvörðunar — Álag — Launþegi — Söluskattsskyld velta — Lagaheimild — Verktaki

Kærð er endurákvörðun skattstjóra á sölugjaldi fyrir árin 1978, 1979, 1980, 1981 og 1982. Er hinn kærði úrskurður skattstjóra svohljóðandi:.

„Kröfur kæranda:

Að álagt sölugjald verði fellt niður, þar sem kærandi hafi unnið störf sín sem launþegi.

Verði eigi á það fallist er niðurfellingar krafist á þeirri forsendu að hér sé eigi um söluskattskylda starfsemi að ræða.

Þá er og krafist niðurfellingar á grundvelli fyrningarákvæða 97. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 43. gr. reglugerðar nr. 486/1982 um söluskatt.

Forsendur úrskurðar:

I.

1. Starfsemi kæranda felst í því að safna saman fyrir fjölmarga aðila ýmsum upplýsingum og raða þeim með ákveðnum hætti í möppur. Fer þessi vinna fram á heimili kæranda og eru greiðslur fyrir hana langoftast tilgreindar til verktaka á launamiðum.

Þegar litið er til fjölda þeirra aðila sem verkin eru unnin fyrir, fyrirkomulags og eðlis þjónustunnar verður hún að teljast sjálfstæð atvinnustarfsemi.

2. Eigi verður fallist á það sjónarmið kæranda að starfsemi hennar sé eigi söluskattsskyld þar eð hún sé eigi nafngreind sérstaklega í lögum um söluskatt, enda hagar svo til um ýmsa söluskattsskylda þjónustu. Þá er því og hafnað að starfsemi kæranda sé undanþegin söluskatti skv. 10. tl. 14. gr. reglugerðar nr. 486/1982, þar sem hún er ekki hliðstæð þeirri starfsemi sem þar er upp talin.

Eins og fram kemur í bréfi skattstjóra Reykjanesumdæmis til kæranda dags. 6. maí sl. telst starfsemi hennar söluskattsskyld skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, sbr. d-lið 4. gr. sömu laga.

3. Tilvísun í kæru til 97. gr. laga nr. 75/1981 og 43. gr. reglugerðar nr. 486/1982 er eigi á rökum reist. Í lögum um söluskatt, 21. gr. i.f., er ákvæði varðandi takmörkun á endur- eða frumákvörðun sölugjalds. Ekkert annað lagaákvæði setur efnislega réttmæti sölugjaldsákvörðun skorður. Beiting greindra lagaákvæða kæmi einungis til álita ef eigi væri til að dreifa lokamálsgrein 21. gr. söluskattslaganna.

Kærandi hefur eigi staðið að framtalsgerð sinni á þann hátt sem henni var skylt, m.a. talið verktakagreiðslur fram sem laun án nokkurra skýringa og eigi gert grein fyrir þeim kostnaði sem hún hefur haft við teknaöflunina. Hvergi í framtalsgögnum hefur hún gert grein fyrir starfsemi sinni. Eigi er til þess vitað að hún hafi leitað upplýsinga á Skattstofu Reykjanesumdæmis varðandi tilhögun framtals að þessu leyti né borið upp spurningar um söluskattshlið málsins.

Kærandi á engan lögvarinn rétt til að komast hjá álagningu sölugjaldsins á þeirri forsendu að það sé fyrst eftir margra ára framtalsgerð með sama hætti sem skattyfirvöld átta sig á að gera fyrirspurn vegna skattframtalsins.

II.

Í hinum kærða úrskurði var gengið út frá því að sölugjald væri innifalið í framtöldum tekjum. Eins og málið liggur nú fyrir þykir mega byggja á því að svo hafi eigi verið. Þar af leiðir að engin lagaheimild er til álagsbeitingar fyrr en með 3. gr. laga nr. 33/1982 um breyting á lögum nr. 10. 22. mars 1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Álag kemur því einungis frá og með júní 1982. Af þessu leiðir og að sölugjaldið hækkar frá hinum kærða úrskurði, þar sem það leggst nú ofan á framtaldar tekjur en var áður talið innifalið í þeim.

Sölugjald ásamt álagi til og með 15. desember sl. verður þá sem hér segir:...“

Fyrir ríkisskattanefnd er haldið fram sömu kröfum með sama rökstuðningi og fram kemur í kæru til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 9. febrúar 1984 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Samkvæmt þeirri lýsingu er liggur fyrir á starfi kæranda verður að telja það til þjónustustarfsemi er fellur innan ramma meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt.

Hvorki í lögum um söluskatt né reglugerð er að finna ákvæði er undanþiggur starfsemi kæranda söluskattsskyldu.

Ríkisskattstjóri mótmælir því alfarið að þjónusta með úrklippur úr blöðum og tímaritum verði talin hliðstæð og lækningar og lögfræðistörf.

Þá verður ekki séð að 97. gr. laga nr. 75/1981 takmarki rétt skattstjóra til endurupptöku, sbr. 21. gr. söluskattslaga, sjá í því sambandi rökstuðning skattstjóra.“

Eigi er deilt um fjárhæðir í máli þessu. Með þessari athugasemd er úrskurður skattstjóra staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja