Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 251/1984

Gjaldár 1983

Reglugerð nr. 145/1982, 1. gr., 3. gr., 8. gr., 9. gr. 2. tl., 20. gr.   Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 4. tl. og 6. tl.   Lög nr. 14/1965, 1. gr., 2. gr. 2. mgr.  

Launaskattur — Atvinnurekendagjöld — Launaskattsstofn — Hlunnindi — Verkfærapeningar — Fæðispeningar — Launaskattsskylda — Kjarasamningar — Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar — Lagabreyting — Sköttunarheimild — Hlunnindagreiðslur

Í launauppgjöf sinni, sbr. og launaframtal ári 1983, taldi kærandi sem greiðslu í reit 29 á launamiðum verkfæra- og fæðisgjald starfsmanna kr. 57.619. Með bréfi, dags. 22. júlí 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að útfylling launaframtals árið 1983 hefði verið leiðrétt með tilliti til fjárhæðar vegna greiddra hlunninda kr. 57.619. Standa bæri skil á launaskatti vegna hlunninda greiddra í peningum á gjalddögum viðkomandi greiðslu aðila. Væri hlunnindagreiðslum skipt á greiðslutímabil ársins á grundvelli áætlunar. Vísaði skattstjóri til 3. og 20. gr. reglugerðar um launaskatt nr. 145/1982.

Með kæru, dags. 23. ágúst 1983, mótmælti umboðsmaður kæranda því að greiða bæri launskatt af nefndum greiðslum. Hér væri um að ræða endurgreiddan kostnað til launþega vegna verkfæra, sem þeir legðu til sjálfir og kostnað vegna fæðis samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og ekki talinn launþegum til hagsbóta, sbr. 4. og 6. tl.A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá var á það bent, að úrskurðir ríkisskattanefndar í sambærilegum málum væru á þá lund, að ekki bæri að greiða launaskatt af þessum greiðslum til launþega.

Með úrskurði, dags. 15. desember 1983, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Tók skattstjóri fram, að samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 145/1982, um launaskatt, teldust ferða-og fæðispeningar til launaskattsstofns. Sá úrskurður ríkisskattanefndar, sem vitnað væri til í kæru, tæki til ákvörðunar á launaskattsstofni fyrir gildistöku laga nr. 5/1982, um breyting á lögum um launaskatt, og gildistöku nýrrar reglugerðar um launaskatt nr. 145/1982.

Úrskurði skattstjóra hefur verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. janúar 1984. Gerir umboðsmaður kæranda sömu kröfur og í kæru til skattstjóra með vísan til rökstuðnings, sem þar er að finna.

Með bréfi, dags. 20. febrúar 1984, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Með setningu reglugerðar nr. 145/1982 um launaskatt eru tekin af öll tvímæli um að ýmsar hlunnindagreiðslur er áður töldust ekki launaskattsskyldar mynda nú stofn til launaskatts hvort sem þær hafa verið launþeganum til hagsbóta eða ekki.“

Með vísan til 1. gr. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, sbr. 3. og 4. gr. laga nr. 5/1982, og 1. gr., 8. gr. og 2. tl. 9. gr. reglugerðar nr. 145/1982, um launaskatt, þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja