Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 253/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.  

Söluíbúðir sveitarfélags — Vaxtagjöld — Frádráttarbærni — íbúðarlán — íbúðarhúsnæði — Frádráttarheimild — Fjármagnskostnaður — Stofnverð

Málavextir eru þeir, að kærandi kveðst hafa keypt íbúð af A-hreppi árið 1982 á „leiguíbúðakjörum“. Hann getur þess á skattframtali sínu 1983, að ekki sé búið að ganga endanlega frá kostnaðaruppgjöri vegna íbúðarkaupanna og muni hann senda skattstjóra yfirlit um skuldir og vexti vegna þeirra, jafnskjótt og endanlegt uppgjör liggi fyrir. Skattstjóri lagði skattframtal kæranda óbreytt til grundvallar við álagningu gjalda árið 1983. Kærandi sendi skattstjóra tvö bréf, dags. 25. apríl og 25. ágúst 1983, en þau eru bæði móttökustimpluð af skattstjóra, þann 1. september 1983 og tekin sem skattkæra. Kærandi gerir grein fyrir kaupverði íbúðarinnar, sem hann kvað hafa numið kr. 1.019.167. Skuldir um áramót vegna íbúðarkaupanna hafi verið kr. 776.725 við veðdeild Landsbanka Íslands og kr. 76.579 við A-hrepp. Vexti af framangreindum skuldum kvað kærandi hafa numið kr. 46.972. Að sögn kæranda voru skuldir hans samtals kr. 930.654 og vaxtagjöld kr. 60.253 þann 31. desember 1982. Krafðist hann þess, að umrædd vaxtagjöld yrðu að fullu leyfð til frádráttar tekjum og opinber gjöld endurákvörðuð.

Með kæruúrskurði, dags. 13. október 1983, synjaði skattstjóri kröfu kæranda um vaxtafrádrátt. Taldi skattstjóri að samkvæmt gögnum málsins væri hér um að ræða fjármagnskostnað vegna kaupa á leiguíbúð af A-hreppi og væri fjármagnskostnaðurinn reiknaður inn í heildarverðið, eða til hækkunar á kaupverði íbúðarinnar. Væri því ekki um að ræða vaxtagjöld í skilningi 1. tl. E-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með sömu kröfum og röksemdum og frá greinir í kæru hans til skattstjóra. Með kærunni fylgja m.a. yfirlit frá A-hreppi vegna leiguíbúðar dags. 1. mars 1983 og yfirlýsing frá Sparisjóði B um vaxtagreiðslur kæranda árið 1982.

Í bréfi, dags. 6. desember 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Að áliti ríkisskattstjóra þykir bera að líta á vaxtagreiðslu kæranda til A-hrepps sem hluta af heildarverði íbúðar og geti hún því ekki talist frádráttarbær í skilningi 1. tl. E-liðs l.mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.

Meðal gagna málsins er bréf A-hrepps, dags. 1. mars, um uppgjör vegna íbúðar kæranda. Í því uppgjöri kemur fram að fjármagnskostnaður nam kr. 47.972.68 og hækkar heildarbyggingarkostnaður um þá fjárhæð. Form uppgjörsins sýnir því ótvírætt að téður fjármagnskostnaður er hluti af heildarkaupverði en ekki vextir eða verðbætur af láni.

Þá er bent á að ekki verður glögglega séð við hvaða tímamörk uppgjörið miðast né heldur hversu mikið kærandi hefur greitt.“

Hinn umdeildi vaxtakostnaður er vegna láns sem kærandi var ekki sjálfur skuldari að, er vextirnir féllu til. Um er að ræða fjármagnskostnað sem er hluti af kaupverði íbúðarinnar og er reiknaður inn í heildarverð hennar. Því er ekki um vaxtagjöld að ræða í skilningi 1. tl. E-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981. Þess vegna þykir bera að hafna kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja