Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 267/1984

Sölugjald 1981

Reglugerð nr. 486/1982, 13. gr. 22. tl.   Lög nr. 10/1960  

Söluskattur — Söluskattsskylda — Söluskattsundanþága — Prentiðnaður — Prentmyndamót — Offsetprent — Lögskýring — Lögskýringargögn — Undanþáguheimild ráðherra — Fjármálaráðherra

Að undangenginni athugun á bókhaldi og söluskattsskýrslum kæranda vegna rekstrarársins 1981 endurákvarðaði skattstjóri honum söluskatt fyrir öll söluskattstímabil þess árs. Var sú ákvörðun byggð á því að sala að fjárhæð kr. 334.181 hafi verið færð í bókhaldi og framtalin á söluskattsskýrslum sem sala til endurseljenda en tilheyri réttilega söluskattsskyldri sölu. Áður en til endurákvörðunarinnar kom var kæranda veitt færi á að gæta réttar síns, en hann lét það ógert að því er berst verður séð af gögnum málsins. Endurákvörðunin var kærð til skattstjóra með kæru dags. 3. júní 1982 og fylgdi henni viðbótarrökstuðningur í bréfum dags. 8. júlí, 12. og 20. desember 1982. Var þess krafist að hækkun söluskatts yrði felld niður og sú krafa byggð á því að annars vegar hefði verið um að ræða sölu til endurseljenda og hins vegar sölu á þjónustu sem undanþegin væri söluskattsskyldu. Með úrskurði dags. 27. desember 1982 féllst skattstjóri að nokkru leyti á kröfur kæranda.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 11. janúar 1983 með sömu kröfum og áður. Til viðbótar er svofelld grein gerð fyrir kröfum:

„Álagning þessi sem tilkynnt er með bréfi dags. 25. maí og 27. desember 1982 er byggð á þeirri skoðun skattrannsóknardeildar að ákveðin þjónusta fyrirtækisins sé söluskattsskyld, en þeirri söluskattskyldu höfum við mótmælt, aðallega vegna þess, að dagblöð, prentmyndagerðir og auglýsingastofur virðast framkvæma þessa þjónustu í miklum mun stærri stíl en við, án þess að skila af henni nokkrum söluskatti.

Eftir nokkurra mánaða þjark og útskýringar hefir skattstjórinn í Reykjavík þó fallið frá því að leggja söluskatt á bæklinga til dreifingar erlendis og fleiri augljósa hluti, sem þó hafði verið krafist söluskatts af í upphafi. Eftir stendur aðallega filmuvinna í sambandi við gerð prentmyndamóta fyrir ofsetprentun.

Samkvæmt bréfi Fjármálaráðuneytisins dags. 5. júlí 1974, var öll vinna við gerð prentmyndamóta undanþegin söluskatti, og er þessi undanþága tekin upp í reglugerð nr. 486 frá 1982, er þar 22. töluliður 13. gr. þessi gamla prentmyndamótagerð er orðin úrelt og gamaldags og þekkist varla lengur, í stað þess fer megnið af myndprentun nú fram í offsetprenti með filmuvinnu þeirri sem við framkvæmum, og ætti því að heyra undir þessa undanþágu.“

Með bréfi dags. 25. júlí 1983 gerir ríkisskattstjóri þær kröfur í máli þessu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt þykir að skýra svo undanþáguákvæði 23. tl. 13. gr. reglugerðar nr. 169/1970 um söluskatt svo sem þeirri grein var breytt með 1. gr. reglugerðar nr. 316/1978 um breyting á þeirri reglugerð með áorðnum breytingum, sbr. nú 22. tl. 13. gr. reglugerðar nr. 486/1982 um söluskatt, að það gildi um starfsemi þá sem um ræðir í máli þessu. Er í því sambandi horft til forsögu þess undanþáguákvæðis, sbr. einkum bréf fjármálaráðuneytis dags. 31. janúar 1968 og 5. júní 1974 svo og tilefni þeirra. Þá er einnig litið til eðlis starfseminnar. Er því fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja