Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 271/1984
Gjaldár 1983
Lög nr. 75/1981, 11. gr. 1. mgr., 13. gr., 14. gr., 25. gr.
Söluhagnaður fyrnanlegrar fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Atvinnuhúsnæði — Lóðarréttindi — Leigulóð — Söluverð, skipting — Fasteignamatsverð — Leigulóðarréttindi — Afgjaldskvaðarverðmæti — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Útreikningur söluhagnaðar
Kærandi taldi fram til skatts fyrir álagningu gjalda gjaldárið 1983. Að undangenginni fyrirspurn tilkynnti skattstjóri með bréfi, dags. 22. júlí 1983 að færður hefði verið til tekna skattskyldur söluhagnaður vegna sölu eignarhluta í fasteign að S-götu í Reykjavík. Var álagning gjalda síðan byggð á skattframtali kæranda með þeirri breytingu. Af hálfu kæranda var breytingin kærð til skattstjóra með kæru dags. 25. ágúst 1983 og farið fram á „að skattlagning söluhagnaðar vegna S-götu verði frestað um 2 ár sbr. gildandi lög, og álagðir skattar lækkaðir skv. því.“ Með úrskurði dags. 5. október 1983 féllst skattstjóri á þá kröfu með eftirgreindum hætti: "Samkvæmt framlögðum og fyrirliggjandi gögnum ákvarðast söluhagnaður þannig, heildarsöluverð S-götu er kr. 3.220.605 og að frádregnum sölulaunum kr. 63.000 verður það kr. 3.157.605 Fasteignamat hins selda á söludegi var hús kr. 690.000 og leigulóðar kr. 316.000, sem að frádregnu afgjaldskvaðarverðmæti 15 x 3.160 eða kr. 47.400 verður kr. 268.600 Með vísan til ákvæða 1. mgr. 25. gr. ákvarðast hluti húss í söluverði 71,98% eða kr. 2.272.844 og hluti leigulóðar í söluverði 28,02% eða kr. 884.761 Bókverð húss við sölu er kr. 1.092.907 og ákvarðast skattskyldur söluhagnaður v/sölu þess kr. 1.179.937 og er fallist á frestun tekjufærslu hans með vísan til ákvæða 13. gr. Með vísan til ákvæða 2. mgr. 14. gr. ákvarðast skattskyldur söluhagnaður v/sölu leigulóðar, sem mismunur á hlut leigulóðar í söluverði eða kr. 884.761 og framreiknuðu fasteignamatsverði leigulóðar í árslok 1979 að frádregnu afgjaldskvaðarverðmæti til söluárs, þ.e. gkr. 15.613.000 + 15 x gkr. 41.483 eða gkr. 14.990.755 framreiknast í kr. 548.130, mismunur verður kr. 336.631, sem ber að tekjufæra með vísan til ákvæða 1. mgr. 14. gr.“
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 3. nóvember 1983. Er þar gerð svofelld grein fyrir kröfum:
„Í úrskurði skattstofu Reykjanesumdæmis dags. 5.10. s.l. er söluhagnaði vegna S-götu skipt upp í hlutfalli fasteignamats húss annars vegar og fasteignamati leigulóðar hins vegar og söluhagnaðar tilheyrandi leigulóðar er ekki viðurkenndur til væntanlegrar fyrningar á annarri eign.
Þessari meðferð er mótmælt. Í úrskurði er vísað m.a. til 2. mgr. 14. greinar til staðfestu málsmeðferðar.
Í 1. mgr. 14. greinar er talað um fasteignir, sem ekki er heimilt að fyrna og er það forsenda fyrir 2. mgr.
Nú hefur heildar kaupverð umbjóðanda míns alla tíð verið fyrnt, þ.e. engin skipting hefur átt sér stað milli hlut húss og hlut leigulóðar í kaupverði. Mér er ekki kunnugt um að önnur regla gildi hjá öðrum.
Því sé ég ekkert sem segir að þegar kemur að söluhagnaði, þá eigi hann að skiptast.
Þess er krafist að allur söluhagnaður af S-götu fái að flytjast milli ára.“
Með bréfi dags. 20. febrúar 1984 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Samkvæmt skýru ákvæði 25. gr. skattalaga ber að skipta söluverði eigna kæranda. Umboðsmaður kæranda hefur í engu mótmælt útreikningi skattstjóra á söluhagnaðinum og þykir hann því óvefengdur og verður lagður til grundvallar.
Varðandi frekar rökstuðning vísast til ítarlegra gagna skattstjóra er fyrir liggja í málinu.“
Skýra verður 1. mgr. 11. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo að hún taki til leigulóðarréttinda þegar svo hagar til sem í máli þessu. Er því krafa kæranda tekin til greina með vísan til 13. gr. sömu laga.