Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 272/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 2. gr., 100. gr. 8. mgr.   Lög nr. 76/1970  

Veiðifélag skv. lögum nr. 75/1970 — Skylduveiðifélag — Skattskyldur aðili — Sjálfstæður skattaðili — Veiðiréttareigendur

Málavextir eru þeir að kærandi skilaði ekki skattframtali 1983 og áætlaði skattstjóri honum því stofna til opinberra gjalda það ár. Næst gerðist það í málinu, að kæra dags. 10. nóvember 1983 og skattframtal 1983 barst ríkisskattanefnd. Var þess krafist, að álagning færi fram að nýju á grundvelli innsends skattframtals. Með úrskurði nr. 645, dags. 16. nóvember 1983, vísaði ríkisskattanefnd kærunni ásamt skattframtali til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar með vísan til 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/ 1981.

Með kæruúrskurði, dags. 23. desember 1983, féllst skattstjóri á að taka skattframtal kæranda til greina og leggja það til grundvallar álagningu í stað áætlunar. Skattstjóri gerði þá breytingu að tekjuafgangur óráðstafaður til næsta árs sem færður var sem skuld við félagsmenn samkvæmt efnahagsreikningi, kr. 80.651, var færður sem tekjur á skattframtali. Af þeirri fjárhæð voru 25% lögð í varasjóð eða kr. 20.162. Var kæranda gert að greiða tekjuskatt vegna framangreindra breytinga kr. 39.317.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar. Þess er krafist, að tekjuskattur verði felldur niður. Því er haldið fram, að skattskylda félaga á borð við kæranda hafi af ýmsum verið talin orka tvímælis og hafi framkvæmd öll verið í molum af hálfu skattyfirvalda. Kærandi sé sameignarfélag veiðiréttar-bænda og sé hreinum tekjum af seldum veiðileyfum skipt á milli þeirra samkvæmt sérstakri arðskrá. Tekjur kæranda af þátttöku í félaginu teljist skattskyldar tekjur þeirra. Því er ómótmælt að kærandi greiði eignarskatt af sameiginlegri hreinni eign á hverjum tíma. Hins vegar sé ógerlegt að greiða til bænda nákvæmlega þær skattskyldu tekjur sem í félaginu myndist á hverju ári, „m.a. vegna útreiknings á afskriftum verðbreytingafærslu o.fl.“ Mismuninn megi líta á með hliðstæðum hætti og litið sé á ógreiddar eftirstöðvar (uppbætur) til bænda frá vinnslustöðvum landbúnaðarins. Í máli þessu séu hinar ógreiddu eftirstöðvar aðeins kr. 80.651 eða 3,6% af skattskyldum tekjum og komi þær til útborgunar á næsta ári með tekjum þess árs. Óraunhæft sé, og reyndar andstætt 51. gr. laga nr. 75/1981 (sic), að mynda varasjóð af þessum eftirstöðvum og leggja síðan tekjuskatt á þær eins og skattstjóri hafi gert, þar sem þær verði greiddar út. Krafan um niðurfellingu tekjuskatts er ítrekuð með vísan til framangreindra röksemda.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda dags. 12. mars 1984 er á þá lund að kröfum kæranda verði hafnað. Kæranda sé lögum samkvæmt skylt að vera félag en ekki verði séð í þeim lögum né skattalögum að kærandi sé sem félag undanþeginn skattskyldu.

Kærandi er skyldufélag samkvæmt lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði. Verður að telja að sú starfsemi þess, sem fram kemur í gögnum málsins, rúmist innan lögákveðins hlutverks þess. Þegar litið er til eðlis slíks félagsskapar þykir ekki vera um aðila að ræða,sem beri sjálfstæða skattskyldu samkvæmt lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, heldur skuli tekjum og eignum skipt milli hlutaðeigandi aðila.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja