Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 152/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. B-liður 4. tl. — 100. gr. 5. mgr.   Lög nr. 9/1984 — 1. gr. — 2. gr. — 10. gr. — 11. gr.  

Fjárfestingarfrádráttur — Fjárfesting manna í atvinnurekstri — Fjárfesting í hlutabréfum — Frádráttur vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri — Frádráttarheimild — Fjárfesting manna í atvinnurekstri, aukning — Aukning fjárfestingar manna í atvinnurekstri — Hlutabréf — Hlutabréfakaup — Hlutafélag — Gjaldþrotaskipti — Tapað hlutafé — Hlutafé, tapað — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Kærður er svofelldur úrskurður skattstjóra vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1991, dags. 24. september 1991:

„Samkvæmt 4. tl. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum er mönnum heimill frádráttur vegna þess fjár sem varið hefur verið til aukningar á fjárfestingu í innlendum atvinnurekstri á árinu skv. lögum nr. 9/1984. Aukning er skv. 1. ml. 1. mgr. 2. gr. þeirra laga heildarfjárfesting skv. A og B liðum 1. mgr. sömu greinar að frádregnu (m.a.) söluverði seldra hlutabréfa skv. B og C liðum sömu málsgreinar.

Samkvæmt skattframtali kæranda vegna gjaldársins 1990 átti kærandi í árslok 1989 hlutabréf í X hf. að fjárhæð kr. 350.000,-. Þessarar hlutabréfaeignar er ekki getið á framtali kæranda 1991. Ekki verður því séð að um aukningu fjárfestingar í atvinnurekstri, sbr. framangreind ákvæði, sé að ræða og þykir kærandi því ekki (sic) sýnt fram á réttmæti umrædds frádráttar sbr. tilvitnuð lagaákvæði.

Kærunni er synjað með vísan til framanritaðs.“

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur hinum kærða úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. október 1991. Fer kærandi fram á að umræddur frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri verði heimilaður. Til staðfestingar kröfu sinni eru eftirfarandi skýringar gefnar í kærubréfinu:

„X varð gjaldþrota árið 1989. Ekkert verð fékkst fyrir hlutabréf kæranda. Rétt er að taka fram að kærandi seldi engin hlutabréfa sinna hjá X frá árinu 1984.“

Með bréfi, dags. 23. janúar 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af framkomnum skýringum er fallist á kröfu kæranda.“

Að virtum framkomnum skýringum og með hliðsjón af kröfugerð ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja