Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 304/1984
Gjaldár 1983
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr., 29. gr., 31. gr. 1. tl., 63. gr. 1. mgr. 3. tl. 2. mgr. 2. ml., 96. gr., 106. gr.
Hjón — Landbúnaður — Búrekstur — Samrekstur — Bóndi — Sköttun hjóna — Samrekstur hjóna — Framtalsaðferð tekna af samrekstri hjóna — Bifreiðakostnaður — Málsmeðferð áfátt — Álag — Teknaskipting — Reiknað endurgjald
Málavextir eru þeir, að kærendur, sem höfðu búrekstur með höndum, færðu til frádráttar í landbúnaðarskýrslu, sem fylgdi skattframtali þeirra árið 1983, hluta af reksturskostnaði bifreiðar kr. 39.255. Byggðist gjaldaliður þessi á rekstraryfirliti bifreiðar í H lið landbúnaðarskýrslu (framhald). Var þar gerð grein fyrir rekstri Landrover jeppabifreiðar á árinu 1982 og heildarakstur talinn 16.000 km, þar af % hlutar eða 10.667 km sem akstur í þágu atvinnurekstrarins. Heildarreksturskostnaður bifreiðarinnar nam kr. 58.842. Með bréfi, dags. 25. nóvember 1983, krafði skattstjóri upplýsinga um mælistöðu bifreiðarinnar í ársbyrjun og árslok og jafnframt, að gerð yrði grein fyrir akstursþörf í þágu landbúnaðar. Skriflegt svar skyldi berast í síðasta lagi þann 12. desember 1984. Í bréfi, dags. 5. desember 1983, gerði kærandi eiginmaður grein fyrir hinum umspurðu atriðum. Kom fram í bréfinu, að kærandi hafði ekki upplýsingar um mælistökur af þeim ástæðum, sem gerð var grein fyrir. M.a. var upplýst, að kílómetrateljari var ekki ávallt í lagi. Þá var gerð all skilmerkileg grein fyrir akstri í þágu búrekstrarins.
Með bréfum, dags. 6. janúar 1984, tilkynnti skattstjóri kærendum, að tilfærður reksturskostnaður bifreiðar í landbúnaðarskýrslu hefði verið lækkaður um kr. 28.000. Vísaði skattstjóri til þess, að í svarbréfinu frá 5. desember 1983 kæmi fram, að upplýsingar um mælisstöðu væru ekki fyrir hendi og heildarakstur væri því áætlaður. Ekki væri gerð grein fyrir því á hverju sú áætlun væri byggð, en hún virtist ekki fá staðist miðað við eldsneytisnotkun. Þætti því ekki unnt að leggja rekstraryfirlitið til grundvallar frádrætti vegna reksturs bifreiðarinnar. Hækkun hreinna tekna, sem af þessari breytingu leiddi, skipti skattstjóri á kærendur í sömu hlutföllum og hreinar tekjur voru tilfærðar af þeirra hendi í skattframtali. Samkvæmt því voru hreinar tekjur eiginmanns af búrekstri hækkaðar um kr. 20.500 en hreinar tekjur eiginkonu um kr. 7.500. Þá bætti skattstjóri 25% álagi á vantalda skattstofna samkvæmt heimildarákvæðum 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Af hálfu kærenda var breytingum skattstjóra mótmælt með kæru, dags. 19. janúar 1984. Kom fram í kærunni, að heildarakstur hafi verið tilfærður lægri í framtali árið 1983 en fyrri ár, þ. á m. 1980, en þá hafi tilgreindur akstur byggst á ökumælisbók. Þá gerði kærandi grein fyrir því, að eldsneytiskostnaður byggðist á fyrirliggjandi nótum. Ef nótur hefðu glatast, yrði framteljandi að gjalda þess.
Með úrskurðum, dags. 8. mars 1984, ákvað skattstjóri, að áður álögð opinber gjöld skyldu óbreytt standa, enda kæmu ekki fram nein þau rök í kæru, sem leitt gætu til breytinga á fyrri ákvörðun.
Með kæru, dags. 2. apríl 1984, hefur úrskurðum skattstjóra af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar. Er því haldið fram, að tilfærður rekstrarkostnaður bifreiðar til frádráttar í landbúnaðarskýrslu sé að fullu frádráttarbær, sbr. 29. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá er vikið að því, hvort kærendum beri ekki réttur til viðmiðunargjalds, sem ríkisstarfsmenn njóti.
Með bréfi, dags. 14. maí 1984, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu:
„Þegar litið er til greinargerðar kæranda um ökutækjarekstur er sýnilegt að þar gætir all nokkurrar ónákvæmni, sbr. fjölda ekinna km og eldsneytisnotkun.
Skattstjóra var því rétt að gera athugasemdir við framtalinn bifreiðakostnað en með hliðsjón af upplýsingum kæranda í gögnum málsins þykir mega fallast á að breyting skattstjóra á bifreiðakostnaði kæranda verði lækkuð.“
Í máli þessu þykir verða að líta til þess, að í bréfi skattstjóra, dags. 25. nóvember 1983, var hinn umþrætti gjaldliður á engan hátt vefengdur heldur einungis farið fram á upplýsingar og skýringar honum viðvíkjandi. Það verður því eigi ráðið af þessu bréfi skattstjóra, að skattstjóri hefði í hyggju að taka áður álögð opinber gjöld kærenda gjaldárið 1983 til endurákvörðunar út af þessum gjaldalið og þykir niðurlag bréfsins eigi geta skipt máli í þessu sambandi. Það gerði skattstjóri hins vegar þegar með bréfum sínum, dags. 6. janúar 1984, að fengnu svarbréfi kærenda, dags. 5. desember 1983. Áttu kærendur þess því eigi kost að koma að athugasemdum sínum og andmælum, áður en skattstjóri ákvað hinar kærðu breytingar. Þessi málsmeðferð þykir eigi fá samþýðst ákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærendur færðu sér reiknað endurgjald vegna starfa sinna við búreksturinn að jöfnu. Hins vegar var hreinum tekjum þeirra af búrekstrinum skipt til skattlagningar af þeirra hendi í öðrum hlutföllum. Hækkun þeirri á hreinum tekjum kærenda, sem deilt er um í máli þessu, skipti skattstjóri til skattlagningar hjá kærendum eftir þeim hlutföllum, sem hreinum tekjum var skipt í skattframtali. Þetta misræmi milli skiptingar reiknaðs endurgjalds og hreinna tekna fær eigi staðist, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. og 2. ml. 2. mgr. 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að öllu framansögðu athuguðu þykir verða að ómerkja hinar kærðu breytingar.