Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 395/1984

Gjaldár 1981-1982

Lög nr. 75/1981, 33. gr., 38. gr., 44. gr. 1. mgr. 2. ml., 53. gr., 106. gr.  

Fyrning — Fyrningartími eigna — Upphaf fyrningar — Almenn fyrning — Sérstök fyrning — Fyrning tekjufærslu — Fyrning, almenn — Fyrning, sérstök — Rekstrarhlé — Lögaðili — Atvinnurekstur — Verðbreytingarfærsla — Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Lögskýring — Álag

Málavextir eru þeir í stuttu máli, að skattstjóri endurupptók skattframtöl kæranda árin 1981 og 1982 á þeim grundvelli, að kærandi hefði ekki fært verðbreytingarfærslu samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt svo sem honum væri skylt. Færði skattstjóri kæranda til tekna tekjufærslu vegna verðbreytinga samkvæmt þessum ákvæðum og gerði þær breytingar, sem af þessu leiddi, þ. á m. var yfirfæranlegt rekstrartap fellt niður.

Ekki þykir ástæða til þess að rekja bréfaskipti kæranda og skattstjóra í einstökum atriðum. Meginatriði málsins er það, að kærandi, sem er hlutafélag, telur sig undanþeginn ákvæðum 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, á þeim forsendum, að félagið hafi engan rekstur með höndum. Ekki sé um neinar tekjur að ræða, einungis útgjöld, sem eðlileg séu, þar sem greiða verði húsaleigu fyrir geymslu á vélum og öðrum eignum félagsins auk vaxta af áhvílandi lánum. Í svarbréfi kæranda, dags. 21. september 1982, við bréfi skattstjóra, dags. 2. september 1982, þar sem skattstjóri beinir þeim tilmælum til kæranda, að hann færi verðbreytingarfærslu gjaldárin 1981 og 1982, kemur höfuðrökstuðningur kæranda fram. Rökstuðningurinn er svohljóðandi:

„Í bréfi yðar er farið fram á að færð verði verðbreytingafærsla...“ svo sem skylt (?) er að gera skv. 1. mgr. 53. gr. ..“.

Við setningu laga nr. 40/1978, kvað 1. mgr. 53. gr. svo á um að þeir aðilar er hefðu með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skyldu árlega taka tillit til þeirra áhrifa sem almennar verðbreytingar hefðu á eignir þeirra og skuldir sem rekstrinum eru tengdar, eftir því sem nánar var kveðið á um o.f.frv.

Glöggt mátti sjá af grein þessari, að aðilar sem ekki hefðu rekstur með höndum væru undanþegnir þessu ákvæði, enda var framtal félagsins 1980 leiðrétt hvað þetta varðar, en verðbreytingarfærsla hafði verið reiknuð þrátt fyrir að rekstri hefði verið hætt á árinu 1977. Var þessari leiðréttingu og þeim skilningi sem í henni felst ekki mótmælt af hálfu skattstofu.

Við setningu laga nr. 75/1981 um breytingu á lögum nr. 40/1978, var 1. mgr. 53. gr. breytt. Greinargerð með frumvarpinu skýrði hana svo:

„Með þessari breytingu eru ákvæði 53. gr. laganna um tekjur og gjöld vegna verðbreytinga gerð skýrari. Kveðið er á um að þau skuli ná til allra þeirra eigna og skulda lögaðila sem um er rætt í 3. og 4. mgr. greinarinnar án tillits til þess hvort viðkomandi eignir eða skuldir lögaðila eru beinlínis tengdar atvinnurekstri. Hjá mönnum verður tekju- og gjaldfærsla skv. 53. gr. áfram bundin við þær eignir einar sem tengdar eru atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.“

Hvergi er vikið orði að því að forsendur breytast þ.e. hvort fyrirtæki sé í rekstri eða ekki, heldur er aðeins verið að undirstrika að verðbreytingarfærslan skuli ná til allra eigna og skulda fyrirtækis, sem hefur atvinnurekstur með höndum.

Ef verðbreytingafærsla væri reiknuð hjá fyrirtæki sem engan rekstur hefur með höndum, eignir væru að mestu leyti fastafjármunir, svo sem samsetning eigna er hjá umbjóðanda mínum, þá væri þetta fyrirtæki gert eignalaust á nokkrum árum, en það hlýtur að vera andstætt megintilgangi skattalaganna.

Með vísan til ofangreindra atriða, er því vísað á bug þeim skilningi yðar að umbjóðanda mínum sé skylt að færa upp verðbreytingu skv. 53. gr. skattalaga.“

Skattstjóri hefur talið, að kæranda bæri samkvæmt fortakslausu ákvæði 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að færa í reikninga sína þau áhrif, sem almennar verðbreytingar í þjóðfélaginu hefðu á eignir og skuldir hans samkvæmt lagaákvæði þessu og starfsreglum og skýringum ríkisskattstjóra. Ekki yrði á það fallist, að kærandi væri undanþeginn þessari skyldu á þeim forsendum, að ekki væri um eiginlegan rekstur að ræða. Þessi sjónarmið skattstjóra koma fram í bréfi hans, dags. 24. janúar 1983, þar sem kæranda er boðað, að skattframtöl hans árið 1981 og 1982 verði tekin til endurálagningar út af þessum atriðum. Í því bréfi eru jafnframt reifaðir þeir liðir ársreikninga kæranda, sem máli skipta í þessu sambandi. Þá er þess að geta, að við meðferð málsins hjá skattstjóra var sú varakrafa gerð af hálfu kæranda, að honum yrði heimilað að nýta sér ákvæði 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ef ekki yrði fallist á aðalkröfuna. Varakröfunni hafnaði skattstjóri með vísan til 33. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem eignir kæranda teldust ekki fyrnanlegar. Einnig er ágreiningsatriði í málinu, að skattstjóri bætti 25% álagi á vantalinn skattstofn samkvæmt heimildarákvæðum 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, „þar sem félagið hefur tvívegis skorast undan mjög afdráttarlausum ábendingum af hálfu skattyfirvalda um að færa upp verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981“, eins og segir í bréfi skattstjóra, dags. 18. febrúar 1983. Þessari álagsbeitingu hefur verið mótmælt af hálfu kæranda, þar sem ákvæði 106. gr. laga nr. 75/1981 eigi ekki við um þetta tilvik.

Með bréfi, dags. 14. maí 1984, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Að kröfum kæranda verði hafnað.

Ákvæði 53. gr. skattalaganna verða ekki skilin á annan veg en að kæranda beri skv. efni hennar að ákvarða sér verðbreytingarfærslu, sbr. og atriði er framkoma í röksemdum skattstjóra.

Hvað varðar varakröfu kæranda eru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að taka hana til greina.“

Með vísan til ótvíræðra ákvæða 1. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er úrskurður skattstjóra staðfestur varðandi verðbreytingarfærslu þá, sem um er deilt í máli þessu. Eigi þykja hafa verið efni til álagsbeitingar og er krafa kæranda um niðurfellingu þess tekin til greina. Samkvæmt varakröfu sinni krefst kærandi þess, að honum verði heimiluð fyrning samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fram kemur í málinu, að rekstur kæranda hefur legið niðri frá því á árinu 1977, en það ár var meginhluti þeirra eigna, sem tilgreindar eru í fyrningarskýrslu kæranda, keyptar eftir því sem gögn málsins bera með sér. Eigi hefur kærandi fyrnt þessar eignir samkvæmt 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda fyrningartími þeirra eigi hafinn, sbr. 33. gr. nefndra laga. Eigi þykir ákvæði það, sem er að finna í 2. ml. 1. mgr. 44. gr. fyrrnefndra laga, verða skýrt svo, að loku sé skotið fyrir það, að þargreind heimild til fyrningar verði nýtt, þegar svo stendur á sem í tilviki kæranda. Þykir því bera að fallast á varakröfu hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja