Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 407/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 4. gr. 5. tl., 101. gr. 2. mgr.  

Skattskylda — Skattfrelsi — Skattfrjáls aðili — Almenningsheill — Kæra ríkisskattstjóra — Tónlistarfélag — Skattframkvæmd — HRD. 1964.309

Með bréfi dags. 30. apríl 1984 og með heimild í 2. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt hefur ríkisskattstjóri skotið til ríkisskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra dags. 1. febrúar 1984 varðandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1983 á Tónlistarfélagið í Reykjavík. Er krafa ríkisskattstjóra sú „að félagið verði talið skattskylt af öllum tekjum sínum og eignum og að um ákvörðun gjaldstofna fari í einu og öllu að lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, þ.m.t. ákvæði 53. gr. laganna um verðbreytingarfærslu“. Telur ríkisskattstjóri að félagið sé ekki undanþegið greiðslu þinggjalda á gjaldárinu 1983 og vitnar í því sambandi til dóms í dómabindi Hæstaréttar ár 1964 bls. 309 í málinu: Gjaldheimtan í Reykjavík gegn Sjómannadagsráði f.h. Laugarásbíós, svo og til „ýmissa úrskurða ríkisskattanefndar m.a. um aðstöðugjaldsskyldu af kvikmyndasýningum í félagsheimilum o.fl.“.

Við álagningu opinberra gjalda 1983 sætti félagið áætlun skattstjóra á gjaldstofnum vegna þess að skattframtali var eigi skilað. Af hálfu félagsins var álagningin kærð til skattstjóra og fylgdi kærunni ársreikningur félagsins fyrir árið 1982 og skatteyðublöð til álagningar gjalda 1983. Í kærunni var tekið fram að félagið félli undir undanþáguákvæði 5. tl. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og bæri því ekki að greiða skatta samkvæmt þeim lögum. Hins vegar var tekið fram að félaginu bæri að greiða launatengd gjöld og aðstöðugjald af rekstri kvikmyndahúss, sem það ræki í fjáröflunarskyni. Með hinum kærða úrskurði féllst skattstjóri á sjónarmið umboðsmanns félagsins og felldi niður álagðan tekjuskatt eignarskatt og sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Við ákvörðun aðstöðugjalds lagði skattstjóri til grundvallar innsenda aðstöðugjaldsgreinargerð en tók tillit til 25% álags vegna síðbúinna framtalsskila. Er eigi ágreiningur með aðilum málsins um ákvörðun þess aðstöðugjalds.

Með bréfi ríkisskattanefndar dags. 3. maí 1984 var félaginu veitt færi á að koma með andsvör sín og gögn í tilefni af framangreindri kæru ríkisskattstjóra, sbr. 4. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Var það gert með bréfi, dags. 29. maí 1984 og þess krafist að kröfum ríkisskattstjóra verði vísað á bug. Er þar gerð grein fyrir sögu og starfsemi félagsins svo og samþykktum þess. Til stuðnings kröfum sínum bendir umboðsmaður kæranda á eftirfarandi:

„Tónlistarfélagið hefur alla tíð unnið í samræmi við samþykktir sínar. Allar nettótekjur þess hafa gengið til starfseminnar í samræmi við tilgang félagsins, sbr. 2. gr. og enginn félagsmaður þegið fé af arði, en unnið því eftir bestu getu, án endurgjalds.

Einasta fjáröflunarleið félagsins, fyrir utan nokkurn opinberan styrk, hefur verið rekstur Tónabíós, en án þess hefðu engir möguleikar verið til að fjármagna starfsemina.

Þegar Tónlistarfélagið var stofnað voru í gildi lög nr. 74 frá 27. júní 1921 um tekju- og eignarskatt.

Í 3. gr. laganna er gerð sú undantekning frá hinni almennu skyldu til greiðslu tekjuskatts, að undanþegin eru félög, þar sem tekjuafgangi er einungis varið til almennra þarfa.

Vegna orðalags greinarinnar er rétt að benda á, að á þessum tíma voru engin sérlög til um sjálfseignarfélög, og eru reyndar ekki enn. En hér getur félagsformið ekki skipt máli, heldur hitt, hvernig arði af starfseminni er varið.

Tilsvarandi ákvæði er í 16. gr. laganna, varðandi undanþágu frá greiðslu eignarskatts.

Þessi meginregla íslensks réttar gengur síðan áfram í gegnum löggjöfina sbr. 5. tölulið 4. gr. laga nr. 75/1981.

Þar er talað um lögaðila í stað ákveðinna félagsforma, og í stað „almanna þarfa“, segir í greininni til „almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum“.

Þessi meginregla byggist í sjálfu sér á hlutarins eðli og heilbrigðri skynsemi. Slík starfsemi sem löggjafinn hefur hér í huga, gæti ekki átt sér stað án fjáröflunar, þess vegna verður að ætla að hver lögleg fjáröflunarleið sé undanþegin skattskyldunni ef arðinum er varið í samræmi við undantekningarákvæði laganna.

Um þetta eru enda mýmörg dæmi, svo sem hin ýmsu happdrætti, sem rekin eru til fjáröflunar fyrir margskonar mannúðarstarfsemi, atvinnustarfsemi hinna ýmsu styrktarfélaga, til fjármögnunar á góðgerðastarfsemi o.fl. o.fl.

Að þessu athuguðu virðist það eitt til úrskurðar í þessu máli, hvort íslenskt tónlistarlíf, þ.e. tónlistarskólar og tónleikahald, teljist til almennra þarfa fólks og miði til almenningsheilla með íslensku þjóðinni.“

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem fram koma af hálfu félagsins og því sem fram kemur í ársreikningi þess um reksturinn á árinu 1982 er eigi fallist á kröfu ríkisskattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja