Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 428/1984

Reglugerð nr. 486/1982   Lög nr. 10/1960, 25. gr., 26. gr.   Lög nr. 19/1940, 262. gr  

Bókhaldslagabrot — Endurupptökubeiðni — Skattrannsóknarstjóri — RIS. 1984.265 — Réttaráhrif uppkveðins úrskurðar — Skoðanaskipti úrskurðaraðila

Ríkisskattanefnd hefur borist svohljóðandi bréf dags. 28. júní 1984 frá skattrannsóknarstjóra:

„Hér með er mál T.K., B-götu, R, nafnnr. 0000—0000, lagt að nýju fyrir ríkis-skattanefnd af hálfu skattrannsóknarstjóra.

Þann 3. maí 1984 kvað ríkisskattanefnd upp úrskurð sinn nr. 265 varðandi kröfu skattrannsóknarstjóra frá 23. september 1983 um að gjaldandi sem er forsvarsmaður hárgreiðslustofunnar X, yrði gert að greiða sekt vegna vanrækslu á færslu bókhalds lögum samkvæmt á grundvelli 2. mgr. 25. gr., sbr. 26. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt með síðari breytingum.

Í niðurlagsorðum úrskurðar ríkisskattanefndar segir svo:

„Svo sem mál þetta er lagt fyrir verður ekki annað séð en að það varði sektarbeitingu vegna meintra brota á lögum og reglugerð um bókhald. Er máli þessu því vísað frá.“ Ennfremur var á það bent í úrskurði ríkisskattanefndar að brot á bókhaldslögum varði við 262. gr. laga nr. 19/1940 og því eigi á færi ríkisskattanefndar að ákvarða sektir.

Varðandi málavexti er vísað til fyrri kröfugerðar skattrannsóknarstjóra í bréfi til ríkisskattanefndar dags. 23. september 1983.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra var í kröfugerð hans þann 23. september 1983 ekki farið fram á að ríkisskattanefnd úrskurði sekt á grundvelli 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940, heldur eins og fram kemur í málavaxtalýsingu var sú háttsemi gjaldanda að færa ekki staðgreiðslusölulista, nema hluta ársins til sönnunar fyrir daglegri færslu staðgreiðslusölu í sjóðbók, talin varða við 22. gr. reglugerðar um söluskatt nr. 486/1982 með síðari breytingum, sem sett er með stoð í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 10/1960 sbr. 7. gr. laga nr. 33/1982 og að brot gegn þeim fyrirmælum varði gjaldanda sektum á grundvelli 2. mgr. 25. gr., sbr. 26. gr. laga nr. 10/1960 með áorðnum breytingum, sbr. lög nr. 10/1974 og 33/1982 og ákvæðum 39. gr. og l.mgr. 40. gr. reglugerðar nr. 486/1982 með síðari breytingum. Af hálfu skattrannsóknarstjóra er hér lögð áhersla á sjálfstætt gildi 22. gr. reglugerðar nr. 486/1982 gagnvart samhljóða ákvæði 10. gr. reglugerðar nr. 417/1982 um bókhald. Þykir rétt í þessu sambandi að benda á samsvarandi ákvæði 22. gr. reglugerðar nr. 169/1970 um söluskatt, er öðlast gildi 1. september 1970, en það ákvæði gilti eitt sér þar til reglugerð nr. 354/1972 um bókhald var sett og tók gildi 1. janúar 1973. Ennfremur má telja að sú háttsemi gjaldanda að „hafði ekkert bókhald verið fært á skoðunardegi, og fjárhæðir á söluskattsskýrslum fyrir tímabilin september - desember 1982 annars vegar og hins vegar janúar - maí 1983, ekki raktar til einstakra reikninga í bókhaldi“ sbr. skýrslu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra, dags. 30. júní 1983, varði við 15. gr. reglugerðar um söluskatt nr. 486/1982 með síðari breytingum einkum „haga bókhaldi sínu og söluskattsuppgjöri þannig að skattyfirvöld geti ávallt gengið úr skugga um réttmæti söluskattsskýrslna“ og 2. málsl. 1. mgr.17. gr. sömu reglugerðar: „Færslum skal þannig hagað að rekja megi einstakar fjárhæðir á söluskattsskýrslu til þeirra gagna sem á er byggt, bæði að því er varðar skiptingu heildarveltu og frádráttar.“ Jafnframt þykir mega vegna þessa benda á úrskurð ríkisskattanefndar nr. 130/1982 uppkveðnum 27. mars 1981, og úrskurð nr. 12/1979 sem nefnd samkvæmt 48. gr. laga nr. 68/1971 kvað upp þann 15. september 1979.

Ennfremur er í þessu sambandi bent á hrd. 1970 bls. 834, einkum bls. 835 og 878 — 879, þar sem þar segir m.a.:

„Í 25. gr. segir, að sekt skuli söluskattsskyldur aðili greiða, sem „af ásetningi eða gáleysi“ skýrir „rangt frá því, sem máli skiptir um söluskatt hans“. Í 26. gr. er mælt fyrir um viðurlög við samskonar broti, þegar því er að skipta, að viðurlög eru ákveðin af dómstólum. Segir þar, að brot varði sektum í ríkissjóð allt að kr. 100.000,oo eða varðhaldi, „nema þyngri refsing liggi við skv. öðrum lögum.“

Líta verður svo á, að með 25. - 26. gr. laga nr. 10/1960 hafi verið sett refsiákvæði, sem ætlast hafi verið til, að tæma skyldu sök að þessu leyti. Þrátt fyrir orðalagið „nema þyngri refsing liggi við skv. öðrum lögum“, verður ekki talið, að ætlun löggjafans hafi verið, að 247. gr. almennra hegningarlaga yrði beitt um umrætt atferli. Refsiákvæði söluskattslaganna hefðu verið öldungis marklaus, ef svo hefði verið.“

Skattrannsóknarstjóri lítur svo á að með fyrrgreindum dómi sé tekin afstaða til þess að lög nr. 10/1960 um söluskatt með áorðnum breytingum tæmi sök gagnvart brotum á almennum hegningarlögum. Á grundvelli þessa verði eigi annað ráðið en að brot á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt með áorðnum breytingum þar sem segir: „vanrækir þá skyldu sína að halda tilskilið bókhald samkvæmt lögum þessum eða ákvæðum reglna sem settar eru skv. 28. gr.,“ einkum á 22. gr. reglugerðar nr. 486/1982 um söluskatt, geti varðað gjaldanda sektum skv. 26. gr. söluskattslaga nr. 10/1960 með áorðnum breytingum, sbr. 39. gr. reglugerðar nr. 486/1982 um söluskatt.

Með vísan til framanritaðs er þess farið á leit við ríkisskattanefnd að hún geri T.K., B- götu, R, nafnnr. 0000—0000 fyrir hönd hárgreiðslustofunnar X, að greiða sekt á grundvelli 26. gr. sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt með áorðnum breytingum.

Með máli þessu fylgja eftirtalin gögn:

1. Ljósrit af skýrslu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra, merkt mál Rd. 5768/2420 og dags. þann 30. 06. 1983, ásamt meðfylgjandi fylgiskjali.

2. Endurrit úr gerðabók rannsóknardeildar ríkisskattstjóra frá 22.07.1983, (þar sem T.K., gefur skýrslu um starfsemi og rekstur fyrirtækisins.). Merkt fskj. II“

Ekkert er framkomið af hálfu skattrannsóknarstjóra sem heimilað gæti endurupptöku á sektarmáli því, sem afgreitt var með úrskurði ríkisskattanefndar nr. 265 dags. 3. maí 1984. Er beiðni skattrannsóknarstjóra því vísað frá ríkisskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja