Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 466/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl., 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl., 106. gr.  

Vanframtaldar tekjur — Mæðralaun — Fæðingarorlof — Skyldusparnaður — Skyldusparnaðarfrádráttur — Endurákvörðun — Álag

Skattstjóri tók skattframtal kæranda árið 1983 til endurálagningar með bréfi, dags. 9. mars 1984, og hækkaði skattstofna um vantalið fæðingarorlof að fjárhæð kr. 28.127, vantalin mæðralaun að fjárhæð kr. 977 svo og offærðan skyldusparnaðarfrádrátt að fjárhæð kr. 9.030. Þá beitti skattstjóri 25% álagi á hækkun skattstofna, sem af þessu leiddi, samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Varðandi ætlaðan offærðan skyldusparnaðarfrádrátt vísaði skattstjóri til þess að kærandi væri leystur undan skyldusparnaði samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og í bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 5. febrúar 1984, komi fram, að kærandi hefði þann 8. mars 1983 leyst út sparimerki að fjárhæð kr. 9.030 Af hálfu kæranda hafði niðurfellingu skyldusparnaðarfrádráttar og álagsbeitingu verið mótmælt í kæru, dags. 1. apríl 1984. Kröfum kæranda hafnaði skattstjóri með úrskurði, dags. 13. apríl 1984.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 29. maí 1984. Er útstrikun á skyldusparnaðarfrádrætti mótmælt. Skýrt er frá því, að undanþága kæranda frá sparnaðarskyldu hafi gilt til 1. mars 1982. Eftir það hafi verið tekin sparimerki af kæranda að fjárhæð kr. 7.697 sem lögð hafi verið inn á sparimerkjareikning og staðið inn á honum, þegar skattframtal árið 1983 hafi verið gert. Hins vegar hafi skyldusparnaðarfrádrátturinn verið færður í framtal samkvæmt launamiða og láðst að taka tillit til útborgunar að fjárhæð kr. 1.313. Þá er beitingu álags mótmælt og í því sambandi er gerð grein fyrir atvikum að því, að tekjufærsla fæðingarorlofs og mæðralauna féll niður vegna mistaka.

Með bréfi, dags. 25. júní 1984, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Fallist er á kröfu kæranda um niðurfellingu á 25% álagi er skattstjóri beitti.

Hvað varðar kröfu kæranda um skyldusparnað verður eigi séð að kærandi hafi verið undanþeginn skyldusparnaði tímabilið 1. mars 1982 til ársloka og er því fallist á kröfur kæranda.“

Með vísan til framlagðra gagna og skýringa kæranda, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra, eru kröfur kæranda í máli þessu teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja