Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 154/1992
Gjaldár 1991
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 60. gr. 2. mgr. — 100. gr. 5. mgr. Lög nr. 46/1987 — 2. gr.
Skattskyldar tekjur — Lífeyrir — Örorkulífeyrir — Barnalífeyrir — Lífeyrisgreiðslur — Lífeyrissjóður — Eftirágreiðsla lífeyris — Tekjutímabil — Óvissar tekjur — Dreifing tekna á tekjutímabil til skattlagningar — Kröfustofnunarregla — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Greiðsluár — Greiðslutími lífeyris — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda
Kærð er sú ákvörðun skattstjóra samkvæmt kæruúrskurði hans, dags. 17. október 1991, að færa kæranda til tekna tekjuárið 1990 181.447 kr. sem honum voru greiddar á árinu frá Lífeyrissjóði bænda. Er krafa kæranda samkvæmt kærubréfi hans til ríkisskattanefndar, dags. 25. október 1991, eftirfarandi:
„Efni kæru:
Að örorku- og barnabætur frá Lífeyrissjóði Bænda, staðfestar og tilgreindar vegna ársins 1987, en fyrir seinagang og handvömm eigi greiddar mér fyrr en á árinu 1990, alls að upphæð kr. 181.447,00, verði meðhöndlaðar sem tekjur ársins 1987, en ekki 1990. Krefst ég einnig að opinber gjöld beggja ára verði endurákvörðuð í samræmi við þetta. Ennfremur að afdregin staðgreiðsla kr. 72,198,00 verði endurgreidd með vöxtum og/eða verðbótum.
Röksemdir:
Ljósrit af innborgun, útgefið af Lífeyrissjóði Bænda, hér hjálagt, tekur af öll tvímæli, að um ræðir greiðslu tilheyrandi árinu 1987. Ennfremur tel ég að 60. gr. laga nr. 75/1981 hafi ekki verið ígrunduð sem skyldi af hálfu umdæmisskattstjóra, en í greininni er skýrt tekið fram að „tekjur skuli að jafnaði telja fram á því ári, sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum“.“
Með bréfi, dags. 14. janúar 1992, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda með hliðsjón af fram komnum skýringum og gögnum fallist á kröfu kæranda.
Að virtum öllum málavöxtum og með hliðsjón af kröfugerð ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda.