Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 493/1984
Gjaldár 1983
Lög nr. 75/1981, 7. gr. Auglýsing nr. 22/1975, 5. gr. 2. tl. a-liður, 21. gr. 1. tl.
Skattskyldar tekjur — Skattstigi — Styrkur — Rannsóknarstyrkur — Laun, erlendis — Tvísköttunarsamningur — Tekjuskattsútreikningur — Gistiprófessor — Skattþrep — Útreikningsaðferð tekjuskatts
Kærð er endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum gjaldárið 1983 og þess krafist að hún verði felld niður. Endurákvörðun sína byggði skattstjóri á því að tekjur kæranda frá S — University, U.S.A., á árinu 1982 og ekki virtust skattskyldar þar í landi, væru skattskyldar hér á landi sbr. 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi gat eigi um tekjur þessar í skattframtali sínu árið 1983. Kröfu sína byggir hann á því að tekjur þessar séu ekki skattskyldar samkvæmt samningi milli Lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Norður — Ameríku til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir, sbr. auglýsingu nr. 22/1975 um þann samning. Kærandi hefði verið gistiprófessor við nefndan háskóla og stundað þar rannsóknir og kennslu á sviði jarðhita. Skólinn hafi veitt honum styrk hluta af árinu 1982 og greiddi sem nam hálfum launum.
Með hinum kærða úrskurði vísaði skattstjóri kærunni frá með því að hún hefði borist honum eftir lok kærufrests til hans á endurákvörðuninni. Endurákvörðunin hefði verið tilkynnt með bréfi dags. 19. mars 1984, kærufrestur því runnið út þann 17. apríl s.á. en kæran hefði borist skattstjóra þann 19. apríl s.á.
Með bréfi dags. 17. júlí 1984 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Með tilvísun til 1. tl. 21. gr. og a-liðar 2. tl. 5. gr. samnings milli Lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Norður — Ameríku til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir er fallist á kröfu kæranda. Gerð er krafa um að notaður verði sá skattstigi sem notaður hefði verið ef tekjur kærandans í Bandaríkjum Norður — Ameríku væru skattlagðar hér á landi.“
Fallist er á að haga skattlagningu með þeim hætti er fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra.