Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 500/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 6. gr., 7. gr., 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 99. gr., 100. gr. 1. mgr.  

Barn — Skattskylda barns — Búferlaflutningur — Björgunarlaun — Frádráttarheimild — íbúðarhúsnæði — Vaxtagjöld — Hámarksfjárhæð vaxtafrádráttar — Kærufrestur — Síðbúin kæra — Vítaleysisástæður

Málavextir eru þeir, að skattstjóri felldi niður kostnað vegna búferlaflutninga kr. 20.000 sem kærandi færði til frádráttar tekjum í skattframtali sínu árið 1983 og helming björgunarlauna kr. 21.822, sem einnig var í frádráttarlið í skattframtalinu, með þeim rökum, að engin heimild væri í gildandi skattalögum fyrir þessum frádráttarliðum. Umboðsmaður kæranda kærði breytingar skattstjóra með kæru, dags. 12. september 1983, og gerði athugasemdir við þann tekjuskattsstofn, sem skattstjóri ákvarðaði. Gat umboðsmaðurinn um fjarveru kæranda við sjósókn. Með úrskurði, dags. 20. október 1983, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, með því að kærufrestur hefði runnið út 25. ágúst 1983.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. nóvember 1983. Segir svo í kærunni:

„Ég kærði álagningu hans til skattstjórans í Reykjavík, með bréfi dags. 12/9 1983, en kæran gat ekki verið fyrr á ferðinni vegna fjarvista B. á sjónum.

Skattstofan taldi kæru B. of seint framkomna, og þess vegna sendi ég nú gögn málsins til yðar.

Í bréfi skattstofunnar dags. 25/7 s.l. er aðeins minnst á breytingar varðandi helming björgunarlauna og kostnað vegna búferlaflutninga til frádráttar, sem synjað var, þótt hvoru tveggja sýnist sanngirnismál. Um aðrar breytingar er ekki getið, og ætti því tekjuskattsstofn B. að vera kr. 240.213.27, en ekki kr. 346.233,oo eins og á álagningarseðli stendur.

Óska ég úrskurðar yðar um þetta atriði.“

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 13. ágúst 1984:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd. Hinn kærði úrskurður er dags. 20. okt. 1983. Kæra kæranda til ríkisskattanefndar er dags. 15. nóv. s.á. en mótt. þann 30. nóv. s.á. Kæran telst því sannanlega of seint fram komin, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt.“

Eftir atvikum þykir mega taka kæruna til efnismeðferðar. Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans að því er varðar frádrátt vegna björgunarlauna og kostnaðar vegna búferlaflutninga. Sá mismunur á tekjuskattsstofni, sem um getur í kærunni, sbr. hér að framan, stafar af því að kærandi hefur offært vaxtagjöld til frádráttar á þann hátt, að farið er upp fyrir þá hámarksfjárhæð vaxtagjalda til frádráttar, sem um getur í 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, sem nam kr. 165.300 gjaldárið 1983 hjá hjónum. Þá reiknar umboðsmaðurinn með að launatekjur sonar að fjárhæð kr. 1.908 séu skattaðar hjá kæranda, sem eigi fær staðist, sbr. niðurlagsákvæði 6. gr. laga nr. 75/1981. Með vísan til þess, sem að framan er rakið eru kröfur kæranda ekki teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja