Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 508/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl.   Lög nr. 51/1980, 73. gr  

Skyldusparnaður — Skyldusparnaðarfrádráttur — Íbúðarkaup — Riftun — Skyldusparnaðarundanþága

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 28. desember 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að skyldusparnaður kr. 44.026 leyfðist ekki til frádráttar tekjum á skattframtali 1983 skv. 1. tl. A-liðs l.mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt þar sem kærandi teldist undanþeginn sparnaðarskyldu vegna íbúðarkaupa. Voru kæranda gefnir 10 dagar til að koma að andmælum. Í svarbréfi kæranda, dags. 5. janúar 1984, kom fram að umrædd íbúðarkaup er getið var um á skattframtali 1983 hefðu gengið til baka. Samningurinn um íbúðarkaupin hefði verið gerður ógiltur fyrri hluta ársins 1983 vegna breyttra forsendna. Var farið fram á að upphafleg álagning gjaldárið 1983 yrði látin óbreytt standa.

Með bréfi, dags. 15. mars 1984, kvað skattstjóri upp úrskurð í málinu. Fram kom, að með svarbréfi kæranda hefðu ekki fylgt gögn er sönnuðu að umrædd íbúðarkaup hefðu gengið til baka. Ef svo hafi verið virtist það hafa gerst árið 1983. Rétt þætti þó að veita til frádráttar helming af tilfærðum skyldusparnaði eða kr. 22.013 á skattframtali 1983 og væri þá miðað við dagsetningu kaupsamnings.

Í rökstuðningi í bréfi til skattstjóra, dags. 23. apríl 1984, í framhaldi af kæru, dags. 10. apríl 1984, krafðist kærandi þess, að frádráttur vegna skyldusparnaðar kr. 44.026 eins og framtalsgögn sýndu, yrði látinn standa óbreyttur. Málsatvik væru þau, að um mitt ár 1982 hefði verið gerður kaupsamningur um íbúðina A, í R. Eftir áramótin 1982/1983 varð það að samkomulagi milli kæranda og seljanda íbúðarinnar, að kaupin gengju til baka. Með kærunni fylgdi yfirlýsing frá seljanda íbúðarinnar og veðbókarvottorð dags. 18. apríl 1984. Þar sem íbúðin hefði raunverulega ekki orðið eign kæranda að sögn, sbr. endurgreiddar leigutekjur, taldi hún óeðlilegt að hún yrði svipt frádrætti vegna skyldusparnaðar, þar sem skyldusparnaður og skattafrádráttur honum tengdur væri ætlaður til að létta sparanda væntanleg kaup á íbúðarhúsnæði.

Með kæruúrskurði skattstjóra, uppkveðnum 22. maí 1984, er þess getið, að samkvæmt 73. gr. laga nr. 51/1980 um Húsnæðisstofnun ríkisins hafi kærandi verið undanþeginn sparnaðarskyldu vegna íbúðarkaupa frá dagsetningu kaupsamnings þann 1. júní 1982. Hinn 31. desember 1982 hafi skyldusparnaðarskyldu kæranda lokið vegna aldurs sbr. 71. gr. áður greindra laga. Þar sem kaupsamningi hafi ekki verið rift fyrr en á árinu 1983, heimilaðist enginn frádráttur frá dagsetningu kaupsamnings, þ.e. frá 1. júní 1982, skv. 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Synjaði skattstjóri því kærunni.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar. Gerir kærandi þá kröfu að frádráttur vegna skyldusparnaðar verði veittur óbreyttur eins og hann var upphaflega tilfærður á skattframtali 1983. Um málsatvik vísar kærandi til skattframtala sinna og kærugagna þeirra er þeim fylgja. Tekið er fram, að íbúðin sem um ræðir í málinu sé mjög lítil, nánast einstaklingsíbúð. Þá upplýsir kærandi jafnframt að hún hafi aldrei búið í íbúðinni. Kærandi áréttar að íbúðarkaupin hafi ekki undanþegið sig sparnaðarskyldu, enda gengu þau til baka eins og áður hefur verið upplýst. Styður kærandi þessa skoðun sína með því að samkvæmt d. lið 73. gr. laga nr. 51/1980, sé undanþágan bundin við þá eina „sem eiga íbúð til eigin þarfa.“ Því hafi aldrei verið til að dreifa með sig, þar sem hún flutti aldrei í íbúðina.

Með bréfi, dags. 7. ágúst 1984, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærandi hafi verið undanþeginn sparnaðarskyldu meðan hún taldist íbúðareigandi og skipti ekki máli í því sambandi að kaupin hafi síðar gengið til baka. Kærandi hafi getað notfært sér að leysa út sparimerki eftir undirritun kaupsamnings, og því augljóst að við slíkar aðstæður hafi ekki verið um skyldusparnað að ræða.

Samkvæmt skattframtali kæranda hafði kærandi ekki í árslok 1982 tekið út skyldusparnað sinn til umræddra íbúðarkaupa. Að því virtu og þess að fyrir liggja nú gögn um að íbúðarkaupin gengu til baka er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja