Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 509/1984

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 16. gr. 1. mgr. 2. mgr., 22. gr.  

Íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Eignarhaldstími — Skattfrelsi söluhagnaðar — Söluhagnaður færður til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis — Andlát — Dánarbú — Arftaki — Arfleifandi — Erfingi — Arfur

Kærð er endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1981 og er kæran til ríkisskattanefndar dags. 7. júlí 1982, svohljóðandi:

„Ég undirritaður erfingi V, leyfi mér hér með að kæra úrskurð skattstjórans í Reykjavík dagsettan 8. júní 1982 til hæstvirtrar ríkisskattanefndar, sbr. 100. gr. 1. 75/1981. Er sem fyrr farið fram á, að við álagningu gjalda á söluhagnað verði tekið tillit til hinna sérstöku aðstæðna, sem sköpuðust við fráfall V, og heimiluð verði frestun á söluhagnaði skv. 2. mgr. 16. gr. 1. 75/1981.

Eins og lýst er í úrskurði skattstjóra, hafði V skömmu fyrir andlátið selt íbúð sína að G-götu, til að festa kaup á annarri, en honum vannst ekki tími til að ljúka kaupunum fyrir andlátið. Ef honum hefði tekist að ljúka þeim kaupum, hefði söluhagnaður hinnar seldu íbúðar orðið skattfrjáls skv. 16. gr. 1. 75/1981. Dánarbúið festi hins vegar kaup á íbúð skömmu eftir andlát V, og þar sem eðlismunur er ekki mikill á þessu tvennu, var þess farið á leit, að heimilað yrði að fyrna umræddan söluhagnað af kaupverði íbúðar þeirrar, sem dánarbúið keypti fyrir andvirði hinnar seldu íbúðar. Þessari málaleitan hafnaði skattstjóri hins vegar með þeim rökum, að skv. orðalagi 2. mgr. 16. gr. 1. 75/1981 yrði að telja, að skilyrði þeirrar greinar um meðferð á söluhagnaði gæti einungis átt við um menn í lifanda lífi. Varðandi þennan rökstuðning vil ég hins vegar enn benda á, að í tilviki því sem hér um ræðir var um afar sérstakar aðstæður að ræða, aðstæður sem ég vil leyfa mér að fullyrða að komi ekki upp aftur á næstunni og aldrei með jafn óhagstæðum afleiðingum skattalega séð og í þessu tilviki, ef litið er á úrskurð skattstjóra. Það er að vísu rétt, að í 2. mgr. 16. gr. er ekki tekin bein afstaða til tilviks þess sem hér um ræðir, enda er það ósköp eðlilegt, þar sem ekki er hægt að sjá fyrir við lagasetningu öll hugsanleg tilvik sem upp kunna að koma, allra síst jafn sérstakt og hér um ræðir. Því er ekki eðlilegt að líta einungis á orðalag 2. mgr.16. gr., heldur verður að huga að tilgangi ákvæðisins, en hann er sá að stuðla að því að menn geti skipt um íbúðarhúsnæði án þess að lenda af þeim sökum í ósanngjarnri skattheimtu. Að mínum dómi er mjög ósanngjarnt að skattleggja umræddan söluhagnað einungis vegna þess atviks, að V heitinn andaðist skömmu áður en hann hugðist ganga frá samningi um kaup á hinni nýju íbúð. Eðlilegt virðist, að dánarbúinu sé heimilað, að fyrna umræddan söluhagnað skv. lögjöfnun frá 2. mgr. 16. gr. 1. 75/1981. Þessu til stuðnings vil ég og benda á ákvæði 22. gr. 1. 75/1981 en þar kemur fram að hafi skattaðili eignast selt íbúðarhúsnæði við arftöku, skal við ákvörðun eignartíma við sölu miða við samanlagðan eignartíma arfleifanda og arftaka. Þarna eru arfleifandi og erfingi lagðir að jöfnu, þ.e. erfingi er ekki látinn gjalda þess í skertum eignarhaldstíma, að hann fékk viðkomandi eign í arf. Einnig vil ég benda á 47. gr. 1. 75/1981, sem hefur að geyma svipað ákvæði. Samkvæmt báðum þessum lagagreinum öðlast erfingi sama rétt og arfleifandi átti skv. skattalögum („erfir rétt arfleifandans“) og er þetta greinilega sett til að koma í veg fyrir ósanngjarna skattlagningu á söluhagnaði íbúðarhúsnæðis. Á sama hátt er það minn skilningur, að dánarbú V eigi að öðlast sama rétt og V átti sjálfur skv. skattalögum, til að fara fram á frestun söluhagnaðar um tvenn áramót. Önnur niðurstaða er bersýnilega ósanngjörn, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess, að hér er um mjög verulega fjárhæð að ræða."

Með bréfi dags. 13. ágúst 1984 krefst ríkisskattstjóri þess að hin kærða ákvörðun skattstjóra verði staðfest.

Í bréfi skattstjóra til ríkisskattstjóra dags. 12. janúar 1982 sem liggur fyrir meðal gagna málsins og varðar kæruefnið kemur fram að V heitinn keypti umrædda íbúð í ágústmánuði 1975. Hann seldi hluta eignarinnar 30. september 1980 eftir því sem fram kemur í gögnum málsins. Með vísan til 1. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt telst hinn umdeildi söluhagnaður ekki til skattskyldra tekna. Fellur því niður skattlagning á hinn meinta söluhagnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja