Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 529/1984

Söluskattur 1984

Lög nr. 10/1960, 21. gr. 2. mgr. 1. tl.  

Sölugjald — Skiladagur sölugjalds — Álag — Sönnun — Póstlagningardagur greiðslu

Málavextir eru þeir, að skattstjóri gerði kæranda að sæta álagi að fjárhæð kr. 936 til viðbótar söluskatti samkvæmt söluskattsskýrslu fyrir marsmánuð 1984 með því að söluskattur hefði ekki verið greiddur á tilskildum tíma, sbr. 1. tl. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum.

Með kæru, dags. 19. júlí 1984, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og fer þess á leit, að fyrrnefnt álag verði fellt niður. Kveðst kærandi hafa póstlagt sölugjald fyrir marsmánuð árið 1984 að fjárhæð kr. 7.801 á N.B. N.hreppi til Sýslumannsins í S.sýslu þann 24. apríl 1984 og eigi hlutaðeigandi umslag að sýna rétta dagsetningu. Bréfið muni hins vegar hafa lent í póstpoka til Reykjavíkur og því ekki borist innheimtumanni á tilskildum tíma.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 10. september 1984:

„Samkvæmt gögnum málsins virðist póstlagningardagur greiðslu vera 25. apríl, þ.e. eindagi marsgreiðslu.

Með vísan til þessa er fallist á framkomna kröfu um niðurfellingu álagsins.“

Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja